Friðuð minningarmörk

Orðið minningarmark er samheiti yfir þau verk í kirkjugörðum sem reist eru til minningar um einstakling sem þar er grafinn. Stærsti hluti minningarmarka eru legsteinar en þar koma einnig til trékrossar og járnkrossar sem oftast eru úr pottjárni en geta einnig verið úr smíðajárni (prófíljárni). Þá eru til hér á landi minningarmörk úr pottjárni sem ekki eru krossar heldur stærri verk. Hafa þau verið nefnd minnismerki eða mónúment.  Minnismerki í venjulegum skilningi, um menn eða atburði, teljast ekki til minningarmarka. Auk þessara verka teljast til minningarmarka málmplötur á umgjörðum kringum grafarstæði og eru þær oftast úr áli en geta einnig verið úr kopar, ryðfríu stáli, marmara, graníti, blágrýti og grágrýti.