Minjar mánaðarins

Hér birtast upplýsingar um valdar menningarminjar í hverjum mánuði. 

Janúar 2020

Pattersonflugvöllur á Reykjanesi

Á síðustu árum hefur verið mikið rætt um varðveislu á yngri minjum, þ.e. menningarminjum sem eru yngri en 100 ára og falla utan við sjálfkrafa aldursfriðunarreglu laga um menningarminjar. Þessar minjar njóta því almennt ekki verndar nema þær sem hafa verið friðlýstar sérstaklega. Undir þennan flokk yngri minja, eða nýminja eins og þær eru kallaðar, fellur fjöldi minja sem mega teljast merkilegar frá sjónarhóli menningarsögu, en tilviljun ein ræður því gjarnan hvað hefur varðveist af þeim þegar þær loks ná 100 ára aldri. Það er því mikilvægt að skrá og kortleggja þessar minjar svo við getum með markvissum hætti valið hvað við viljum varðveita til framtíðar. Herminjar, sem falla undir nýminjar, bæði frá síðari heimsstyrjöld og kaldastríðsminjar, eru vitnisburður um merkilega viðburði í sögu þjóðarinnar og heimsins alls og getur verið mikil upplifum fyrir bæði heimamenn og ferðafólk að skoða þessa staði. Minjar janúarmánaðar eru valdar úr þessum minjaflokki, en þær eru Pattersonflugvöllur á Reykjanesi.

Patterson-2

Pattersonflugvöllur á Reykjanesi er á meðal best varðveittu herminjastaða landsins, en hann var byggður af Bandaríkjaher og fyrst tekinn í notkun sumarið 1942. Hann varð mikilvægur áningarstaður herflugvéla sem áttu viðkomu hér á leið sinni yfir Atlantshafið til árása á Þýskaland. Einnig þurfti góða bækistöð fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar við Íslandsstrendur og var fljótlega ráðist í byggingu á stórum flugvelli uppi á Háaleiti, skammt vestan við Pattersonvöll og fékk hann nafnið Meeksflugvöllur sem nú nefnist Keflavíkurflugvöllur, en hann var tekinn í notkun árið 1943. Alls störfuðu um 3000 manns við byggingu þessara flugvalla þegar mest var, aðallega menn á vegum byggingarsveita hersins. 

Patterson-1Starfrækslu Pattersonflugvallar var hætt í stríðslok, en almennt millilandaflug hófst þá um Meeksvöll. Pattersonvöllur var innan varnarsvæðis Keflavíkurflugvallar og þjónaði hernum allt þar til hann fór á brott árið 2006. Meðfram flugbrautum Pattersonvallar voru reistar skotfærageymslur og sprengjuskýli sem enn standa og setja mikinn svip á landsslagið.

Nánar um Pattersonflugvöll og svæðið í grennd má finna í húsakönnun eftir Helga Biering þjóðfræðing, hér. Hægt er að skoða minjasvæðið í þrívídd á ja.is, hér.

Patterson-3

Febrúar 2020


Minjastaðurinn við Þerneyjarsund

„Þessi staður er einn af fyrirrennurum Reykjavíkur og á að varðveitast eins og hann er. Svo komst dr. Kristján Eldjárn fyrrverandi þjóðminjavörður og forseti Íslands að orði um minjastaðinn við Þerneyjarsund í grein sinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags frá árinu 1980. Þar fjallar hann um hluta þeirra minja sem finna má á Gunnunesi eða Álfsnesi, nánar tiltekið kaupstað sem þar var á miðöldum samkvæmt heimildum. Hann leiðir líkum að því í greininni að kaupstaðurinn hafi verið niður undan túninu í Niðurkoti (einnig kallað Sundakot) en erfitt er að sjá til búðanna vegna mikilla þúfna. Reyndar segir hann einnig að hvort sem þúfurnar séu manngerðar eða ekki þá er minjastaðurinn „engu að síður kaupstaðurinn við Þerneyjarsund, með búðum eða búðalaus“. Hann telur staðinn sem slíkan merkilegan hvort sem sést til minja eða ekki.

Kaupstaðurinn er þó bara hluti þeirra stórmerkilegu minja sem finna má á svæðinu. Þar er að finna þrjú bæjarstæði sem hvert um sig hefur mikið minjagildi og saman mynda þau einstaka minjaheild. Það eru Sundakot, Glóra og Þerney.

Alfsnes_yfirlitskort_minjar

Sundakot (Niðurkot)

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð er í byrjun 18. aldar segir að að Sundakot hafi verið lengur í byggð en menn muna. Því má gera ráð fyrir að þar hafi verið búið að minnsta kosti frá 16. eða 17. öld og jafnvel fyrr. Rústir bæjarins eru sjáanlegar á yfirborði ásamt útihúsum og túngarði sem afmarkar heimatún bæjarins. Minjarnar í Sundakoti eru gott dæmi um smábýli á Íslandi.

Glóra

Fornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Minjar sem tengjast sjósókn á landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru helst rústir eftir fiskbyrgi. Fiskbyrgin voru notuð til að að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Heimildir eru um að Þorlákssúðin, skip Skálholtsbiskups, hafi legið í höfninni í Þerneyjarsundi árið 1409 og að þangað hafi komið ráðamenn að loknu Alþingi, m.a. Skálholtsbiskup, Vigfús Ívarsson hirðstjóri, sem hafði aðstöðu á Bessastöðum, og Oddur Þórðarson lögmaður.

Ekki er víst hvenær búseta hefst á Glóru. Vitað er að þar var búið til ársins 1896 og aftur á árunum 1928 til 1935. Glóra er gott dæmi um hjáleigu frá fyrri hluta 20. aldar í nágrenni Reykjavíkur, fyrir tíma vélvæðingar. Fáir staðir státa af svo heillegum minjum sem sýna heilt bæjarstæði og ekkert sambærilegt er að finna í borgarlandi Reykjavíkur.

Þerney

Í Þerney eru margvíslegar minjar um búsetu fólks í eynni en hún var í eigu Skálholtsstaðar og þar bjó kotbóndi sem leigði jörðina af Skálholtsstað. Kirkja var í eynni líklega allt frá 12. – 13. öld. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á búsetusögu eyjarinnar enn sem komið er en út frá þeim heimildum sem þó eru til má álykta að þar megi finna ósnertar minjar allavega frá miðöldum.

Þegar allt þetta er lagt saman er ljóst að umhverfis Þerneyjarsund er einstakt og enn sem komið er óraskað minjasvæði sem mikilvægt er að varðveita í heild sinni.

Glora_Alfsnes_minnkudSundakot-samsett-ur-dronamyndum_minnkud

Ítarefni
Minjavefsjá Minjastofnunar Íslands
Fornleifaskráning Borgarsögusafns Reykjavíkur á efnisvinnslusvæði við Álfsnesvík Þerneyjarsundi (2018)
Fornleifaskráning Fornleifafræðistofunnar vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi (2008)

Minjar við Þerneyjarsund - flogið yfir minjastað