Minjar mánaðarins

Hér birtast upplýsingar um valdar menningarminjar í hverjum mánuði. 

Janúar 2020

Pattersonflugvöllur á Reykjanesi

Á síðustu árum hefur verið mikið rætt um varðveislu á yngri minjum, þ.e. menningarminjum sem eru yngri en 100 ára og falla utan við sjálfkrafa aldursfriðunarreglu laga um menningarminjar. Þessar minjar njóta því almennt ekki verndar nema þær sem hafa verið friðlýstar sérstaklega. Undir þennan flokk yngri minja, eða nýminja eins og þær eru kallaðar, fellur fjöldi minja sem mega teljast merkilegar frá sjónarhóli menningarsögu, en tilviljun ein ræður því gjarnan hvað hefur varðveist af þeim þegar þær loks ná 100 ára aldri. Það er því mikilvægt að skrá og kortleggja þessar minjar svo við getum með markvissum hætti valið hvað við viljum varðveita til framtíðar. Herminjar, sem falla undir nýminjar, bæði frá síðari heimsstyrjöld og kaldastríðsminjar, eru vitnisburður um merkilega viðburði í sögu þjóðarinnar og heimsins alls og getur verið mikil upplifum fyrir bæði heimamenn og ferðafólk að skoða þessa staði. Minjar janúarmánaðar eru valdar úr þessum minjaflokki, en þær eru Pattersonflugvöllur á Reykjanesi.

Patterson-2

Pattersonflugvöllur á Reykjanesi er á meðal best varðveittu herminjastaða landsins, en hann var byggður af Bandaríkjaher og fyrst tekinn í notkun sumarið 1942. Hann varð mikilvægur áningarstaður herflugvéla sem áttu viðkomu hér á leið sinni yfir Atlantshafið til árása á Þýskaland. Einnig þurfti góða bækistöð fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar við Íslandsstrendur og var fljótlega ráðist í byggingu á stórum flugvelli uppi á Háaleiti, skammt vestan við Pattersonvöll og fékk hann nafnið Meeksflugvöllur sem nú nefnist Keflavíkurflugvöllur, en hann var tekinn í notkun árið 1943. Alls störfuðu um 3000 manns við byggingu þessara flugvalla þegar mest var, aðallega menn á vegum byggingarsveita hersins. 

Patterson-1Starfrækslu Pattersonflugvallar var hætt í stríðslok, en almennt millilandaflug hófst þá um Meeksvöll. Pattersonvöllur var innan varnarsvæðis Keflavíkurflugvallar og þjónaði hernum allt þar til hann fór á brott árið 2006. Meðfram flugbrautum Pattersonvallar voru reistar skotfærageymslur og sprengjuskýli sem enn standa og setja mikinn svip á landsslagið.

Nánar um Pattersonflugvöll og svæðið í grennd má finna í húsakönnun eftir Helga Biering þjóðfræðing, hér. Hægt er að skoða minjasvæðið í þrívídd á ja.is, hér.

Patterson-3

Febrúar 2020


Minjastaðurinn við Þerneyjarsund

„Þessi staður er einn af fyrirrennurum Reykjavíkur og á að varðveitast eins og hann er. Svo komst dr. Kristján Eldjárn fyrrverandi þjóðminjavörður og forseti Íslands að orði um minjastaðinn við Þerneyjarsund í grein sinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags frá árinu 1980. Þar fjallar hann um hluta þeirra minja sem finna má á Gunnunesi eða Álfsnesi, nánar tiltekið kaupstað sem þar var á miðöldum samkvæmt heimildum. Hann leiðir líkum að því í greininni að kaupstaðurinn hafi verið niður undan túninu í Niðurkoti (einnig kallað Sundakot) en erfitt er að sjá til búðanna vegna mikilla þúfna. Reyndar segir hann einnig að hvort sem þúfurnar séu manngerðar eða ekki þá er minjastaðurinn „engu að síður kaupstaðurinn við Þerneyjarsund, með búðum eða búðalaus“. Hann telur staðinn sem slíkan merkilegan hvort sem sést til minja eða ekki.

Kaupstaðurinn er þó bara hluti þeirra stórmerkilegu minja sem finna má á svæðinu. Þar er að finna þrjú bæjarstæði sem hvert um sig hefur mikið minjagildi og saman mynda þau einstaka minjaheild. Það eru Sundakot, Glóra og Þerney.

Alfsnes_yfirlitskort_minjar

Sundakot (Niðurkot)

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð er í byrjun 18. aldar segir að að Sundakot hafi verið lengur í byggð en menn muna. Því má gera ráð fyrir að þar hafi verið búið að minnsta kosti frá 16. eða 17. öld og jafnvel fyrr. Rústir bæjarins eru sjáanlegar á yfirborði ásamt útihúsum og túngarði sem afmarkar heimatún bæjarins. Minjarnar í Sundakoti eru gott dæmi um smábýli á Íslandi.

Glóra

Fornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Minjar sem tengjast sjósókn á landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru helst rústir eftir fiskbyrgi. Fiskbyrgin voru notuð til að að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Heimildir eru um að Þorlákssúðin, skip Skálholtsbiskups, hafi legið í höfninni í Þerneyjarsundi árið 1409 og að þangað hafi komið ráðamenn að loknu Alþingi, m.a. Skálholtsbiskup, Vigfús Ívarsson hirðstjóri, sem hafði aðstöðu á Bessastöðum, og Oddur Þórðarson lögmaður.

Ekki er víst hvenær búseta hefst á Glóru. Vitað er að þar var búið til ársins 1896 og aftur á árunum 1928 til 1935. Glóra er gott dæmi um hjáleigu frá fyrri hluta 20. aldar í nágrenni Reykjavíkur, fyrir tíma vélvæðingar. Fáir staðir státa af svo heillegum minjum sem sýna heilt bæjarstæði og ekkert sambærilegt er að finna í borgarlandi Reykjavíkur.

Þerney

Í Þerney eru margvíslegar minjar um búsetu fólks í eynni en hún var í eigu Skálholtsstaðar og þar bjó kotbóndi sem leigði jörðina af Skálholtsstað. Kirkja var í eynni líklega allt frá 12. – 13. öld. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á búsetusögu eyjarinnar enn sem komið er en út frá þeim heimildum sem þó eru til má álykta að þar megi finna ósnertar minjar allavega frá miðöldum.

Þegar allt þetta er lagt saman er ljóst að umhverfis Þerneyjarsund er einstakt og enn sem komið er óraskað minjasvæði sem mikilvægt er að varðveita í heild sinni.

Glora_Alfsnes_minnkudSundakot-samsett-ur-dronamyndum_minnkud

Ítarefni
Minjavefsjá Minjastofnunar Íslands
Fornleifaskráning Borgarsögusafns Reykjavíkur á efnisvinnslusvæði við Álfsnesvík Þerneyjarsundi (2018)
Fornleifaskráning Fornleifafræðistofunnar vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi (2008)

Minjar við Þerneyjarsund - flogið yfir minjastað

Mars 2020

Krakalækjarþingstaður í Hróarstungu á Austurlandi

Við Lagarfljótið inni í Hróarstungu leynist athyglisverður minjastaður sem er illgreinilegur fyrir mörgum og lítið vitað um. Norðan við Krakalæk og við svokallaðan Þinghöfða, mel í landi Heykollsstaða, er að finna þingstað sem kallaður er Krakalækjarþing. Krakalækjarþing er talið vera eitt af þremur vorþingum Austfirðingafjórðungs frá söguöld. Ritaðar heimildir um staðinn eru af skornum skammti en hans er þó t.d. getið í Droplaugarsona sögu. Árið 1930 var þingstaðurinn friðlýstur af Matthíasi Þórðarsyni, þjóðminjaverði.

Krakalaekjarthingstadur-med-maelingum

Minjarnar eru í dag margar hverjar á kafi í lynggróðri þannig að erfitt er að greina þær á yfirborði, en þó má sjá þar tóftir og kolagrafir. Alls sjást um 20 búðatóftir á svæðinu, sem er í lægð sunnan við höfðann, og er talið að þær tilheyri þingstaðnum. Fleiri tóftir gætu þó vel leynst á svæðinu. Einnig eru þar ótalmargar kolagrafir en þær benda til þess að svæðið hafi verið skógi vaxið á einhverjum tímapunkti og því nógur efniviður til kolagerðar.

Kraka2Kraka3

Krakalækjarþingstaður er einn af þeim stöðum sem talið var að þyrfti að vakta í tengslum við framkvæmdir við Kárahnjúka sökum hækkandi vatnsmagns í Lagarfljóti. Minjastofnun hefur vaktað svæðið undanfarin ár og til að mynda mælt árbakkann svo hægt sé að fylgjast með breytingu á honum. Þannig er m.a. hægt að meta hvort aukin hætta steðji að minjunum. Samkvæmt mælingum stofnunarinnar frá 2015 og 2017 má sjá örlitlar breytingar sem sýnir mikilvægi þess að halda vöktun svæðisins áfram. Minjastofnun og Landsvirkjun áætla að fara í sameiginlega vettvangsferð um svæðið seinna á árinu ásamt því að kanna ástand á fleiri minjastöðum við fljótið.

Droplaugarsona saga:

“Um vorið eftir fóru þeir Þorkell Geitisson og Grímur og Helgi til Fljótsdals til Krakalækjarvorþings. Þar hittust þeir Helgi Ásbjarnarson og sættust á víg Þorgríms og lauk Þorkell fé fyrir. En Helga Droplaugarsyni líkaði illa er fé kom fyrir víg Tordýfils og þótti óhefnt illmælisins.” 

Ítarefni:

Menningarminjar á Fljótsdalshéraði og í Borgarfirði eystra.

Orri Vésteinsson og Sædís Gunnarsdóttir. 1999. Menningarminjar í Tunguhreppi í Norður-Múlasýslu Svæðisskráning. Fornleifastofnun Íslands FS079-98088. Reykjavík. 

Skýrslur FSÍ um umhverfismat: Fornleifakönnun vegna fyrirhugaðrar virkjunar við Kárahnjúka. 

Sveitir og jarðir í Múlaþingi. 1974. 1 bindi. Búnaðarsamband Austurlands (útg.). 

Þingvellir og þinghald að fornu- Framvinduskýrsla 2005. 

Apríl 2020

 Sauðhólar tveir í Mosfellsbæ

Í lögum um menningarminjar segir að meðal þess sem teljist til fornleifa séu álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð.

Í landi Helgafells í Mosfellsbæ er strýtumyndaður hóll, mjög áberandi í landslaginu. Hóllinn heitir Sauðhóll og segir sagan að í honum búi huldufólk.

Samkvæmt gamalli sögn hafði bóndinn á Helgafelli einhvern tímann verið að reka heim fé neðan úr Skammadal í austanbyl. Sá hann þá mann á undan sér sem einnig var við fjárrekstur. Hvarf maðurinn fyrir Sauðhól en þegar bóndi kom sjálfur fyrir hólinn sást hvorki af honum tangur né tetur. Taldi bóndi víst að maðurinn hefði horfið inn í hólinn með allt féð en það voru víst sauðir. Var þarna því um huldumann að ræða en ekki mennskan mann.


Saudholl

Íbúðarhús í svokölluðu Helgafellshverfi hafa á undanförnum árum sprottið upp í kringum Sauðhól. Hóllinn stendur þó enn og honum verður ekki raskað um ókomna tíð. Þegar unnið var að skipulagi byggðarinnar kom aldrei til tals að hreyfa við hólnum. Er þetta gott dæmi um að trú Íslendinga á álfa og huldufólk virðist enn lifa góðu lífi.

IMG_20180208_Saudholl2_crop20200216_085811


Í Mosfellsbæ er annar hóll með sama nafni þó ekki sé eins ljóst hvernig þessi hóll fékk nafn sitt. Þessi Sauðhóll er í landi Blikastaða en lætur minna yfir sér en sá í Helgafellslandinu. Engu að síður má reikna með að mikill meirihluti landsmanna hafi séð hólinn á leið sinni til Reykjavíkur án þess þó að gera sér grein fyrir að hann er af sumum talinn híbýli huldufólks. Hóllinn stendur um 30 metra norðvestan við Vesturlandsveginn rúma 200 metra suðvestan við hringtorgið við Skarhólabraut og Baugshlíð. Engar sögur eru til sem tengjast þessum hól en sagt er að fólki fyndist stundum að ljós væri í hólnum á kvöldin. Líkt og gerðist þegar byggðin reis í kringum Sauðhólinn í Helgafellslandi þá var þess vandlega gætt að framkvæmdir við lagningu Vesturlandsvegarins röskuðu ekki Sauðhólnum í Blikastaðalandi.

20200216_Saudholl_vor

Ítarefni: Skráning fornleifa í Mosfellsbæ. 2006.

Maí 2020

Björnshús í Grindavík

Þótt Grindavík eigi sér langa sögu eru þar ekki mörg friðuð hús. Segja má að eitt þeirra sé nokkurs konar innflytjandi í Grindavík og kom það víða við áður en því var fundinn staður við Austurveg nr. 48. Húsið var upphaflega reist á Bíldudal, flutt þaðan til Viðeyjar, því næst til Reykjavíkur og loks til Grindavíkur.

IMG_2752

Afar líklegt má telja að húsið hafi verið reist á Bíldudal í tengslum við þá umfangsmiklu atvinnustarfsemi sem Pétur J. Thorsteinsson (1854-1929) rak þar frá 1879, þegar hann keypti fátæklegan húsakost verslunarinnar á staðnum. Árið 1907 stofnaði hann svokallað Milljónafélag í samvinnu við Thor Jensen. Félagið gjörbreytti ásýnd og efnahag Bíldudals á athafnaárum sínum en hætti þar allri starfsemi um áramótin 1913 til 1914 þegar félagið varð gjaldþrota.[1]

Árið 1909 lét Milljónafélagið flytja húsið frá Bíldudal til Viðeyjar þar sem það fékk heitið Björnshús, eftir eiganda sínum.[2] Félagið stundaði einnig útgerð, fiskvinnslu og aðra atvinnustarfsemi í Viðey. Það reisti á skömmum tíma mikil og mörg mannvirki (þau fyrstu árið 1907), þar á meðal fiskverkunarhús, bryggjur og íbúðarhús. Á þessum árum fluttist fjöldi manns til Viðeyjar, í þorp sem í daglegu tali kallaðist Stöðin, en hét Sundbakki, og árið 1910 voru 108 manns skráðir með heimili á Sundbakka.[3]

Kárafélagið gerði Sundbakka að miðstöð starfsemi sinnar árið 1924 en félagið gerði m.a. út tvo togara frá Viðey. Félagið eignaðist húsið og fækkaði íbúðum í þrjár úr fjórum, en upphaflega voru tvær íbúðir á hæðinni og tvær í risinu.[4] „Í kjölfarið fylgdu ár þar sem útgerð stóð í blóma og á annað hundrað manns bjuggu í þorpinu auk skipshafna á þremur togurum og fjölda vertíðarfólks. Þá hafa oft verið um 200 manns við störf í eynni á hverjum tíma og áreiðanlega oft líf og fjör.“[5]

Björn Bjarnason, verkstjóri og ferjumaður milli lands og eyjar, flutti í húsið ásamt Þorbjörgu Ásgrímsdóttur konu sinni árið 1924, árið sem Kárafélagið tók við útgerðinni, og bjó þar til ársins 1943 þegar hann flutti frá Sundbakka.[6] Húsið fékk því nafnið Björnshús en húsið stóð norðan megin við aðalgötuna sem lá gegnum Sundbakkaþorpið, eilítið austan við skólahúsið sem þar stendur enn í dag. Þar má sjá steinhlaðinn grunn hússins.[7] Eftir gjaldþrot Kárafélagsins eignaðist Útvegsbankinn húsið eins og flest önnur mannvirki í þorpinu. Síðustu árin starfaði Björn sem eftirlitsmaður með eignum Útvegsbankans á Sundbakka.

Tvær misgóðar heimsóknir

Um 1930 fengu íbúar í Björnshúsi fremur óvelkominn gest í húsið, en húsaskítur[8] (öðru nafni kakkalakkar) gerði vart við sig sem herjaði svo á íbúana að varla var líft í húsinu. Björn Bjarnason, eigandi hússins, brá þá á það ráð að láta húsið standa opið í hörkufrosti í þrjá daga og tókst þannig að uppræta óværuna.[9] Nokkrum árum eftir að Björn sigraði húsaskítinn með því að frysta hús sitt að innan gistu flugmennirnir og hjónin Charles og Anne Lindbergh í Björnshúsi þegar þau stoppuðu við á Íslandi á leið sinni austur yfir Atlantshaf í ágúst árið 1933 er þau voru að kanna flugleiðir milli Evrópu og Ameríku.[10]

BjornshusA-Langholtsvegi

Björnshús í Viðey. 

Langholtsvegur 34 í Reykjavík.

Áhrif seinni heimstyrjaldarinnar á byggðina í Viðey

Þegar togaraútgerð var hætt frá eynni árið 1931 misstu íbúarnir lífsafkomu sína og það fjaraði smám saman undan byggðinni. Þegar seinni heimstyrjöldin skall á og mikil eftirspurn var eftir vinnuafli fluttu íbúarnir sig um set og þeir síðustu yfirgáfu Sundbakka árið 1943.[11] Þá var líka mikill timburskortur og bryggjur, íbúðar- og fiskverkunarhús voru rifin og flutt úr eyjunni.[12] Ýmist fluttu íbúarnir í Sundbakkaþorpi húsin sín með sér eða þau voru seld öðrum. Þegar þau voru byggð upp á nýjum stað var það annað hvort í sömu mynd eða viðirnir notaðir til byggingar á annars konar húsi, sem venjulega var þá minna en upprunalega húsið.[13]

Mætti húsinu á Keflavíkurveginum

Árið 1943 tók Björn hús sitt niður og flutti það til Reykjavíkur og setti það niður þar sem nú er bílastæði austan við hús númer 43 við Langholtsveg, þar sem endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðin Ljósið er nú til húsa. Björn sá að mestu sjálfur um að endurreisa húsið, en hafði byggingarmeistara sér til halds og trausts.[14] Af myndum að dæma var húsinu mikið breytt þegar það var reist að nýju í Reykjavík og var það m.a. múrhúðað að utan. Við Langholtsveginn stóð húsið til ársins 1971 þegar það hefur líklega þurft að víkja þegar útbúa átti bílastæði fyrir viðskiptavini Landsbanka Íslands, sem rak þá útibú í húsinu þar sem Ljósið er nú. Húsið var þá flutt í heilu lagi á flutningavagni til Grindavíkur og sett niður við Austurveg 48 þar sem það er nú. Það er enn með sama yfirbragði og þegar það stóð við Langholtsveginn. Sonur Björns, Björn Kári þá vitavörður í Reykjanesvita, mætti húsi föður síns á bílpalli á Keflavíkurveginum (Reykjanesbrautinni) þegar það var flutt til Grindavíkur. Það er ekki að undra að hann hafi orðið hissa og hélt að hann „væri að verða vitlaus“ eins og hann orðaði það sjálfur í viðtali.[15] Ólafur Arnberg Þórðar­son stóð fyrir þessum flutningi en hann var þá við nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og hafði fengið atvinnu í Grindavík. Þar var hins vegar ekkert húsnæði að hafa og hann ákvað því að kaupa húsið við Langholtsveg því flutningur á húsi tók mun skemmri tíma en að byggja nýtt hús.[16]

Bjornshus_Grindavik

Austurvegur 48, Grindavík. Myndin er tekin í mars 2011. Ljósmynd: Guðlaug Vilbogadóttir.


Heimildir

Ásgeir Jakobsson (1990). Bíldudalskóngurinn. Athafnasaga Péturs J. Thorsteinssonar. Hafnarfirði: Skuggsjá.

Björn Bjarnason, verkstjóri frá Viðey (1944, 20. júní). Vísir, bls. 3.

Einfalt ráð við húsaskítum (1934, 28. júní). Morgunblaðið, bls. 6.

Flöskuskeyti með fornum upplýsingum: Í þessu húsi gisti Lindberg (2002, 4. júní). Dagblaðið-Vísir, bls. 21.

Húsaskítir (1934, 23. maí). Morgunblaðið, bls. 5-6.

Magnús Þorkelsson (1996). Stöðin í Viðey – heimildir í hættu? Landnám Ingólfs. Nýtt safn til sögu þess, 5, bls. 148-156. Reykjavík: Ingólfur.

Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Fornleifaskrá Viðeyjar. Óútgefið.

Ólafur Arnberg Þórðarson (2011, 23. febrúar). Munnleg heimild.

Páll Líndal (1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund. 3. bindi. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Örlygur Hálfdánarson (ódags.). Fræðsluskilti um Viðey.

Örlygur Hálfdánarson (2010, 20. júlí). Munnleg heimild.

Örvar Birkir Eiríksson (ódags.). Björnshús. Fræðsluskilti um húsin í Viðey. Aðstoð við texta og eign myndar: Örlygur Hálfdanarson. Hönnun: Árni Tryggvason.

Örvar Birkir Eiríksson og Örlygur Hálfdánarson (ódags.). Fræðsluskilti um Sundbakka í Viðey.

Tilvísanir

[1] Ásgeir Jakobsson (1990).

[2] Flöskuskeyti með fornum upplýsingum (2002, 4. júní).

[3] Örlygur Hálfdánarson (ódags.); Minjasafn Reykjavíkur (ódags.); Magnús Þorkelsson (1996.

[4] Magnús Þorkelsson (1996); Örlygur Hálfdánarson (ódags.).

[5] Örlygur Hálfdánarson (ódags.).

[6] Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Fornleifaskrá Viðeyjar.

[7] Minjasafn Reykjavíkur (ódags.). Fornleifaskrá Viðeyjar.

[8] Húsaskítir virðst vera íslenskt orð yfir kakkalakka (Húsaskítir, 1934).

[9] Einfalt ráð við húsaskítum (1934, 28. júní).

[10] Örvar Birkir Eiríksson (ódags.). Björnshús; Örvar Birkir Eiríksson og Örlygur Hálfdánarson (ódags.).

[11] Örlygur Hálfdánarson (ódags.); Örvar Birkir Eiríksson og Örlygur Hálfdánarson (ódags.).

[12] Páll Líndal (1991), 3. bindi, bls. 168-169.

[13] Örlygur Hálfdánarson (2010, 20. júlí); Örvar Birkir Eiríksson og Örlygur Hálfdánarson (ódags.).

[14] Björn Bjarnason, verkstjóri frá Viðey (1944, 20. júní).

[15] Flöskuskeyti með fornum upplýsingum (2002, 4. júní).

[16] Ólafur Arnberg Þórðarson (2011, 23. febrúar).

Júní 2020

Afrek berserkjanna í Berserkjahrauni

Í Helgafellssveit á Snæfellsnesi er að finna margar minjar sem kenndar eru við Eyrbyggja sögu. Sagt er að í um 10 kílómetra radíus frá Helgafelli megi finna flesta sögustaði úr Sögu Þórsnesinga, Eyrbyggja og Álftfirðinga. Sumar áhugaverðustu minjarnar eru í Berserkjahrauni, en þar eru mögulega leifar eftir elstu vegagerð á Íslandi og mætti segja að vegaframkvæmdin sé fyrsta dæmið um illa meðferð á erlendu vinnuafli hér á landi.

Í Eyrbyggju er því lýst hvernig Vermundi, bónda í Bjarnarhöfn, áskotnast tveir sænskir berserkir, Halli og Leiknir, að gjöf frá Hákoni jarli Sigurðssyni.

“Þeir voru menn miklu meiri og sterkari en í þann tíma fengjust þeirra jafningjar í Noregi eða víðara annars staðar. Þeir gengu berserksgang og voru þá eigi í mannlegu eðli er þeir voru reiðir og fóru galnir sem hundar og óttuðust hvorki eld né járn. En hverdagslega voru þeir eigi illir viðureignar ef eigi var í móti þeim gert en þegar hinir mestu örskiptamenn er þeim tók við að horfa.”


Eitthvað gekk Vermundi erfiðlega að lynda við berserkina svo hann fékk Víga-Styr bróður sinn, bónda á Berserkjahrauni, til að taka við þeim. Þar felldi Halli hug til Ásdísar, dóttur Styrs, og bað um hönd hennar. Víga-Styr var smeykur við að neita Halla svo hann leitaði ráða hjá Snorra goða á Helgafelli. Snorri ráðlagði honum þá að leggja þrjár þrautir fyrir Halla:

„Þú skalt ryðja,“ segir Styr, „götu yfir hraunið út til Bjarnarhafnar og leggja hagagarð yfir hraunið milli landa vorra og gera byrgi hér fyrir innan hraunið. En að þessum hlutum fram komnum mun eg gifta þér Ásdísi dóttur mína.“


Svaraði Halli þá:

„Eigi er eg vanur til vinnu en þó mun eg undir þetta játtast ef eg skal þá auðveldlega komast að ráðahagnum. “


Berserkjagardur-ATH


Ekki fór þó betur en svo að eftir að hafa leyst þrautirnar lét Styr byggja baðstofu og bauð þeim til baðs en drap þá er þeir reyndu uppgöngu. Voru þeir síðan heygðir við Berserkjagötuna í djúpum dal þar sem einungis sést til himins, en þeir máttu ekki sjá til fjalla því þá myndu þeir ganga aftur.

Sigurður Vigfússon skoðaði dysina árið 1893, en það var síðan Kristján Þorleifsson, hreppstjóri á Grund í Eyrarsveit, sem endurhlóð hana í núverandi mynd um miðja síðustu öld.


Berserkjadys-2

Berserkjadysin í Berserkjahrauni


Berserkjagatan er talin eitt elsta mannvirki í vegagerð hér á landi, en hraunið er úfið og því illfært bæði sauðfé og aðföngum frá sjó. Vegurinn nær frá svokallaðri Ytrihraunvík og suður yfir hraunið. Hann er um 2 km að lengd og er ákaflega skemmtileg gönguleið.

Berserkjagarðurinn sker síðan götuna rétt norðan við Berserkjadysina og nær um 1 kílómetra yfir hraunið, en hann er landamerkjagarður milli Bjarnarhafnar og Berserkjahrauns. Garðurinn var friðlýstur af Matthíasi Þórðarsyni, þáverandi þjóðminjaverði, árið 1928.

Hvort sem að Eyrbyggja saga reynist sönn eða ekki þá hefur Berserkjagatan verið mikil samgöngubót og skipt miklu máli fyrir samfélagið á svæðinu.


Berserkjagardur-3


Ítarefni

Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags 1900

Eyrbyggja

Minjavefsjá Minjastofnunar Íslands