Minjaverndarviðurkenning Minjastofnunar Íslands

Í tengslum við ársfund sinn undanfarin ár hefur Minjastofnun Íslands veitt viðurkenningu aðila/aðilum sem þykja hafa skarað framúr á einhvern hátt í minjaverndarmálum. 


2019 - Hjörleifur Guttormsson

Minjastofnun Íslands veitti Hjörleifi Guttormssyni, náttúrufræðingi, sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar, á ársfundi stofnunarinnar 28. nóvember 2019. Viðurkenningin er veitt fyrir ötult starf í þágu minjaverndar um áratuga skeið. 

Hjörleifur nam náttúrufræði í Þýskalandi og á hann sér fjölbreyttan starfsferil sem ómögulegt er að rekja í fáum orðum, en m.a. sinnti hann þingmennsku, sat í ráðherrastóli, sinnti landbúnaðarstörfum, skógrækt og landmælingum. Hjörleifur hefur beitt sér ötullega í þágu náttúruverndar og sat í Náttúruverndarráði um tíma auk þess sem hann stofnaði og rak Náttúrugripasafnið í Neskaupsstað svo örfá dæmi séu tekin. Hjörleifur átti frumkvæðið að stofnun Safnastofnunar Austurlands árið 1972 en það voru regnhlífarsamtök safna á vegum sveitarstjórna á Austurlandi og var hann stjórnarformaður Safnastofnunarinnar fyrstu sex árin. Hjörleifur beitti sér fyrir húsvernd á Austurlandi, m.a. fékk hann Hörð Ágústsson til að skrá og meta gömlu húsin á Seyðisfirði og beitti sér fyrir friðun Löngubúðar á Djúpavogi. Umhyggja Hjörleifs og seigla hans við að skrifa og miðla upplýsingum um fornleifar á Austurlandi og þáttur hans í fornleifaskráningu er ein af meginástæðum þess að hann hlýtur minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar árið 2019.

Auk þess sem Hjörleifur hefur skrifað um fornleifar og örnefni í átta Árbókum Ferðafélags Íslands um Austfirði og birt þar myndir af minjum þá hefur hann skrifað um fornleifar á öðrum vettvangi og átt samvinnu um skráningu þeirra við ýmsa fornleifafræðinga, þeirra á meðal Guðnýju Zoëga, Mjöll Snæsdóttur, Birnu Gunnarsdóttur, Ingu Sóley Kristjönudóttur, Ragnar Edvardsson og Bryndísi Zoëga.

Meðal þeirra greina sem Hjörleifur hefur birt um þá samvinnu eru:

Örnefni og þjóðminjar í Álftafirði

Hallormsstaður í Skógum. Náttúra og saga höfuðbóls og þjóðskógar

Krossanes við Reyðarfjörð – fornleifaskráning

Fornleifar og náttúruminjar í Hálsþorpi við Djúpavog.

Búsetuminjar á Hraundal í Útmannasveit.

Minjar um sjósókn í Héraðsflóa.

Seley við Reyðarfjörð. Náttúrufar, nytjar og fornleifar.

Í spor Jóns lærða. Greinar með fornminjauppdráttum

Fornleifaskráning á Héraði 2015.

Af þessari upptalningu má sjá að Hjörleifur er vel að viðurkenningunni kominn og fyrir hönd minjavörslunnar á Íslandi þökkum við honum innilega fyrir sitt framlag til minjaverndar í landinu.

2018 - Landeigendur á Láganúpi og í Kollsvík

Minjastofnun Íslands veitti landeigendum á Láganúpi og í Kollsvík, bræðrunum Valdimari, Guðbjarti, Hilmari, Agli og Kára Össurarsonum, sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar, á ársfundi stofnunarinnar 28. nóvember 2018. Viðurkenningin er veitt fyrir metnaðarfullt grasrótarstarf við varðveislu og miðlun menningararfs í Kollsvík.

Á meðal þeirra verkefna sem landeigendur í Kollsvík, með Valdimar Össurarson í fararbroddi, hafa unnið í þágu menningarminja á svæðinu, er gerð heimasíðunnar kollsvik.is þar sem finna má fjölbreyttan fróðleik um sögu, náttúru og minjar í víkinni.

Einnig hafa þeir séð um merkingu gönguleiða í Kollsvík og uppsetningu fræðsluskilta um sögu, fornminjar og mannvirki ásamt söfnun upplýsinga um óáþreifanlegan arf á borð við örnefni, þjóðhætti og safn málfarssérkenna sem varðveist hafa á svæðinu.

Jafnframt hafa þeir staðið að varðveislu og viðhaldi gamalla mannvirkja í Kollsvík og hafa hlotið styrki úr húsafriðunarsjóði til tveggja slíkra verkefna.

Annars vegar til endurbyggingar steinhlaðins torfkofa; Hesthússins á Hólum í landi Láganúps sem líkur eru til að upphaflega hafi verið reistur um miðja 17. öld. Ekki er vitað um eldra hús á landinu sem staðið hefur frá upphafi, og þjónað sínu hlutverki fram á þennan dag.

Hins vegar hafa þeir hlotið styrk til viðhalds hlaðinna garða á Grundabökkum í landi Láganúps, þaðan sem útgerð hófst mjög snemma. Garðar eru örnefni yfir hinn mikla og forna garð sem liggur með sunnanverðum Grundabökkum í landi Láganúps. Þar var áður Láganúpsver, sem um margar aldir var ein stærsta verstöð sunnanverðra Vestfjarða, en lagðist af í byrjun 18. aldar. Útgerð hófst síðar í Kollsvíkurveri, norðar í Kollsvíkinni. Fyrsta gerð garðanna má ætla að sé mjög forn en þeir voru hlaðnir í núverandi mynd um aldamótin 1900. Garðarnir hafa gegnt mismunandi hlutverkum tengdum sjósókn og búskap á jörðinni, meðal annars sem vörslugarðar, aðhald til fjárrekstra, þurrkgarðar, skjólgarðar, matjurtagarðar og skotbyrgi.

Nú síðast hafa aðstandendur svæðisins hlotið framlag úr samgönguáætlun árið 2018, til að koma upp sjóvarnargarði til verndunar áðurnefndum görðum og annarra minja við Láganúpsver í sunnanverðri Kollsvík.

Þetta framtak bræðranna úr Kollsvík má heita einstakt og er til mikillar fyrirmyndar. 

2017 - Djúpavogshreppur

Minjastofnun Íslands veitti Djúpavogshreppi sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar á ársfundi stofnunarinnar þann 23. nóvember 2017. Viðurkenningin er veitt fyrir sérstaka áherslu á verndun menningararfs í stefnumörkun sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála og atvinnuþróunar. 

Djúpavogshreppur er byggðarlag með 452 íbúa. Samfélagið þar hefur á undanförnum árum átt í vök að verjast í atvinnumálum og hafa stjórnendur sveitarfélagsins þurft að bregðast við ýmsum afleiðingum þess. Engu að síður hafa þeir lagt metnað sinn í því að marka byggðarlaginu sérstöðu í skipulags- og atvinnumálum með því að leggja áherslu á sögulega arfleifð staðarins í allri stefnumótun sveitarfélagsins, en Djúpivogur er meðal elstu verslunarstaða landsins. Þýskir kaupmenn hófu þar kaupskap og byggðu þar verslunarhús við voginn árið 1589. Frá þeim tíma hefur kauptúnið verið miðstöð verslunar, útgerðar og annars athafnalífs á sunnanverðum Austfjörðum. Af sýnilegum minjum vega þyngst hin friðuðu og endurbyggðu verslunarhús 18. og 19. aldar, Langabúð og Faktorshúsið.

Í aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 var sett fram metnaðarfull húsverndarstefna og á grundvelli hennar lét sveitarfélagið vinna viðamikla húsakönnun sem lokið var við árið 2014. Könnunin var unnin af Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur og er hún vandaðri og efnismeiri en flestar slíkar kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi. Nær hún bæði til þéttbýlisins við voginn og dreifðari byggða við Álftafjörð, Hamarsfjörð og Berufjörð, auk Papeyjar, þar sem er að finna dæmi um sérstakt staðbundið byggingarlag sveitabæja frá fyrri tíð. Auk stefnumótunar hefur sveitarfélagið beitt sér fyrir og að hluta til kostað endurbyggingu þriggja gamalla húsa og er eitt þeirra, Geysir, nú ráðhús byggðarlagsins. Frumkvæði forráðamanna sveitarfélagsins á sviði húsverndar hefur orðið eigendum eldri húsa á staðnum hvatning til að gera upp hús sín og á þann hátt styrkja hina sögulegu ásýnd byggðarinnar.

Einnig var framkvæmd fornleifaskráning á svæðinu árið 2016 af Fornleifastofnun Íslands ses. og leiddi hún í ljós mikinn fjölda fornleifa á svæðinu, eða 51 fornleifar innan þess svæðis sem nú hefur verið skilgreint sem verndarsvæði í byggð. Saman felur þessi menningarsögulegi arfur í sér mikil tækifæri til verndar og uppbyggingar.

Þann 15. október 2017 staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra tillögu Djúpavogshrepps um verndarsvæði í byggð : „Verndarsvæði við Voginn“ í samræmi í lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Verndarsvæði við Voginn er fyrsta tillaga að verndarsvæði í byggð sem staðfest er á Íslandi. 

2015 - Vegagerðin

Á ársfundi Minjastofnunar Íslands þann 4. desember 2015, veitti stofnunin Vegagerðinni sérstaka viðurkenningu sína fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar. Þetta er í fyrsta sinn sem slík viðurkenning er veitt eftir að Minjastofnun tók til starfa í ársbyrjun 2013. Viðurkenningin er veitt Vegagerðinni fyrir frumkvæði að varðveislu og endurbyggingu sögulegra brúarmannvirkja á undanförnum árum. Fá tæknileg mannvirki hafa haft meiri þýðingu fyrir íslenskt samfélag en fyrstu brýrnar sem reistar voru yfir stórfljót landsins í lok 19. aldar og á fyrstu áratugum þeirrar 20. Því er það mikils virði að tekist hefur að bjarga mikilvægum dæmum um þróunarsögu íslenskra brúarmannvirka, m.a. einu stálhengibrúnni sem eftir er frá 19. öld og fyrstu steinsteypubrúnni sem reist var frá árinu 1907.