Húsakannanir vegna skipulagsvinnu

Samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 er nauðsynlegt að skrá friðuð, friðlýst og varðveisluverð hús, húsasamstæður og mannvirki áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi (sbr. 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012). Slík skráning hefur jafnan verið kölluð húsakönnun.

Húsakönnun þarf að innihalda að lágmarki sögulegar staðreyndir um viðkomandi hús, lýsingu, ljósmynd/ir og varðveislumat. Drög að húsakönnunum skulu send Minjastofnun Íslands til yfirlestrar. Stofnunin getur gert athugasemdir við einstaka þætti húsakönnunarinnar eða drögin í heild ef hún telur ástæðu til.

Húsakönnun telst ekki lokið fyrr en Minjastofnun hefur staðfest drög og fengið endanlega skráningu í hendurnar, bæði skráningargögn og skýrslu á rafrænu formi (sbr. 15. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012).

 

Frekari upplýsingar um húsakannanir, ferli þeirra og tilgang veitir starfsfólk Minjastofnunar.

 

Úr lögum um menningarminjar nr. 80/2012

Skráning fornleifa, húsa og annarra mannvirkja.

15. gr.

Skráning og skil á gögnum.

     Minjastofnun Íslands hefur yfirumsjón með skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja.
     Stofnunin heldur heildarskrár yfir allar þekktar fornleifar og friðuð og friðlýst hús og mannvirki á landinu. Stofnunin birtir skrárnar og skulu þær vera aðgengilegar á miðlægum gagnagrunni.
     Minjastofnun Íslands er heimilt að fela tilteknum einstaklingum eða stofnunum er búa yfir sérþekkingu og reynslu á sviði skráningar fornleifa, húsa og mannvirkja afmörkuð könnunar- og skráningarstörf fyrir stofnunina.
     Öll gögn sem varða skráningu fornleifa, friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja skulu afhent Minjastofnun Íslands. Skráningarskýrslur skulu afhentar stofnuninni á rafrænu formi. Eintök af skránum skulu afhent hlutaðeigandi skipulagsyfirvöldum á rafrænu formi.
     Fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningu á tilteknu svæði telst ekki lokið fyrr en skráin hefur hlotið staðfestingu Minjastofnunar Íslands. Stofnunin skal veita skipulagsyfirvöldum, byggingarfulltrúum og náttúruverndaryfirvöldum aðgang að skráningargögnum í vörslu stofnunarinnar.
     Minjastofnun Íslands setur reglur um skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og skil á gögnum þar að lútandi að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

16. gr.

Skráning vegna skipulags og undirbúnings framkvæmda.

     Skráning fornleifa, húsa og mannvirkja skal fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Áður en deiliskipulag er afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna er gefið út skal skráning ætíð fara fram á vettvangi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig og er heimilt að gera samkomulag við skipulagsyfirvöld um framvindu skráningarstarfsins enda sé tryggt að því verði lokið innan hæfilegs tíma.
     Sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög skal standa straum af kostnaði við skráninguna. Ríkissjóður skal þó bera kostnað af fornleifaskráningu sem fram fer innan þjóðlendu nema um annað hafi verið samið. Skulu skipulagsyfirvöld hafa samráð við Minjastofnun Íslands um tilhögun skráningar eða endurskoðun á fyrri fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskrám með hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum á skipulagi. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda án undanfarandi fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningar. Þegar sérstaklega stendur á getur Minjastofnun Íslands veitt undanþágu fyrir framkvæmdum með tilteknum skilyrðum.
     Skipulagsyfirvöld skulu tilkynna Minjastofnun Íslands um gerð skipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim og um gerð skýrslna um mat á umhverfisáhrifum.
     Skylt er að heimila þá för um landareign sem nauðsynleg getur talist við framkvæmd skráningar sem gerð er fyrir opinbera aðila. Ber að sýna landeiganda tillitssemi og valda ekki raski eða ónæði að þarflausu.