Framkvæmdir á ferðamannastöðum

 Minjastofnun Íslands hefur unnið að verkefnum á minjastöðum sem ferðamenn sækja heim. Hér að neðan má sjá upplýsingar um hluta þeirra verkefna.


Verkefni 2015

Í lok maí 2015 tilkynnti ríkisstjórnin að hún hefði samþykkt að verja 850 millj­ón­um króna til brýnnar upp­bygg­ing­ar og vernd­araðgerða á ferðamanna­stöðum sem eru í eigu eða um­sjón rík­is­ins. Rúmlega 100 milljónum verður varið í verkefni sem eru í umsjón Minjastofnunar og stuðla að verndun menningarminja. Upplýsingar um verkefnin má finna hér að neðan og verða þær uppfærðar í samræmi við framvindu verkefnanna.

Rútshellir (Suðurland)

Fjárhús framan við Rústhelli var endurhlaðið, en ástand þess var orðið hættulegt þeim sem staðinn sækja heim. Þil á Rútshelli og tenging á milli þess og fjárhússins var endursmíðað auk þess sem timburgafl var smíðaður á fjárhúsið í stað steypts gafls sem áður var. Að auki var hreinsað út úr hellinum og myndir teknar af honum innanverðum.


Rútshellir fyrir framkvæmdir.                                      Rútshellir eftir framkvæmdir.

Seljavallalaug (Suðurland)

Farið var í múrviðgerðir á laug og búningsklefum auk þess sem gólf í búningsklefum voru flotuð og klefar og laug máluð.  

Margir sækja laugina heim (heyrst hefur allt að 300 manns á dag), en þar er engin eiginleg aðstaða nema búningsklefar sem eru hluti friðlýsta mannvirkisins.


Búningsklefar í Seljavallalaug fyrir viðgerð...                  og eftir viðgerð.


Dæmi um innra byrði búningsklefa fyrir...                    og eftir viðgerð.

Steinahellir (Suðurland)

Þil á Steinahelli var endurbyggt auk þess sem bílastæði var gert við hellinn og nýtt upplýsingaskilti sett upp. 


Steinahellir fyrir framkvæmdir.                                   Steinahellir eftir framkvæmdir.

Stöng í Þjórsárdal (Suðurland)

Bætt aðgengi, brú yfir Rauðá og bílastæði. Verkþættirnir eru hluti af stærra verkefni sem gengur út á að bæta aðgengi að Stöng, ekki síst fyrir fólk í hjólastól. Enn eru nokkrir verkþættir eftir af þeirri áætlun áður en verkefninu verður endanlega lokið, þ.á.m. bygging salernishúss.

Fiskbyrgin á Gufuskálum (Vesturland)

Ein hlið Írskra byrgis á Gufuskálum var endurhlaðin, en hún var hrunin. Einnig voru aðrir hlutar byrgisins, sem voru illa farnir, lagfærðir.


Írskrabyrgi fyrir lagfæringu.                                         Írskra byrgi eftir lagfæringu.

Farið var í endurskoðun eldri teikninga vegna aðgengis að fiskbyrgjunum í hrauninu (bílastæði, göngustígur og áningarstaður við hraunið), og  ný hönnun sett fram.

Gerður var göngustígur frá veginum að hrauninu og áningarstaður við hraunið. Við áningarstaðinn var nýtt skilti um fiskbyrgin sett upp.


Horft frá nýja áningarstaðnum við hraunið út að vegi.

Snorralaug í Reykholti (Vesturland)

Gert var við skemmdir í Snorralaug sem óprúttnir aðilar unnu á lauginni veturinn 2015. Auk þess var aðkomu að lauginni breytt með það fyrir augum að mæta betur þörfum ferðamanna og vernda gróður og minjar á svæðinu. Nýtt upplýsingaskilti var sett upp við laugina þar sem gestum er m.a. gert ljóst að ekki megi baða sig í lauginni.


Snorralaug fyrir viðgerðir og breytingar...                     og eftir.

Flókatóftir (Vestfirðir)

Aðgengi minjasvæðisins var endurbætt með það fyrir augum að afmarka svæðið betur og setja upp skilti um minjarnar við komuna inn á svæðið.


Flókatóftir fyrir framkvæmdir.                                     Flókatóftir eftir framkvæmdir.

Hringsdalur (Vestfirðir)

Kumlastæðið og nánasta umhverfi þess var girt af með góðri girðingu. Það sem helst ógnar tilvist staðarins er uppblástur. Stór þáttur í því vandamáli er lausaganga sauðfjár á svæðinu. Gróður og jarðvegur er mjög viðkvæmur, enda er svæðið mjög sendið, og því mikilvægt að girða svæðið af til að vernda það fyrir ágangi eins og hægt er. Hluti svæðisins var girtur af fyrir nokkrum árum og hefur sú tilraun gefið góða raun, en plöntur eru farnar að skjóta niður rótum í sandinum. Því var talið mikilvægt að víkka girðinguna út og freista þess að hjálpa til við endurheimt gróðurs á svæðinu með þeirri aðgerð.

Hey var sett í verstu rofabörðin á svæðinu til að hindra frekari uppblástur og flýta uppgræðslu svæðisins.

Gert var útskot fyrir bíla við veginn, en erfitt var að leggja bílum á staðnum svo vel væri.


Vatnsfjörður (Vestfirðir)

Stór hluti skilta var endurnýjaður auk þess sem útsýnispallar voru málaðir.


Skilti fyrir endurnýjun.                                                   Skilti eftir endurnýjun.

Borgarvirki (Norðurland vestra)

Gert var deiliskipulag fyrir Borgarvirki og lögð upp hönnun fyrir aðgengismál á staðnum.

Hegranesþingstaður (Norðurland vestra)

Gert var deiliskipulag fyrir Hegranesþingstað og lögð upp hönnun fyrir aðgengismál á staðnum, s.s. staðsetning göngustíga og upplýsingaskilta.

Vatnsdalur (Norðurland vestra)

Gert var stórt skilti með upplýsingum um þjónustu og friðlýstar minjar í Vatnsdal og Þingi. Skiltið var sett upp við Ólafslund.


Örlygsstaðir (Norðurland vestra)

Gert var umhverfisskipulag fyrir svæðið þar sem lögð var fram tillaga að göngustíg um svæðið, endurbótum á bílastæði og staðsetningu skilta.

Hlíðarrétt (Norðurland eystra)

Aðhald réttarinnar, sem var illa farið og ekki fjárhelt, var endurhlaðið.

Hofstaðir í Mývatnssveit (Norðurland eystra)

Gert var deiliskipulag fyrir Hofstaði og lögð upp hönnun fyrir aðgengismál á staðnum, s.s. göngustíga, útsýnispalla og skiltastaðsetningar.

Hvannalindir (Austurland)

Gerð var áætlun fyrir eftirlit og ástandsmat friðlýstra minja í Hvannalindum og umhverfi þeirra. Gerð voru upplýsingaskilti um fornleifar, sögu og náttúru, sem sett voru upp á áningarstað við Lindarsel.

Naustin í Papafirði (Austurland)

Gert var bílastæði á staðnum, en aðgengi að staðnum var erfitt vegna slæmrar staðsetningar afreinar af þjóðvegi og grýtts undirlags. Sett var upp skilti um minjar á svæðinu við bílastæðið.


Aðgengi að svæðinu fyrir framkvæmdir.                  Aðgengi að svæðinu eftir framkvæmdir.