Reglur um veitingu leyfa

Reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér

Nr. 339/2013

11. apríl 2013

1. gr.

Minjastofnun Íslands fjallar um og veitir leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012.

2. gr.

Minjastofnun Íslands fjallar um leyfisumsóknir, veitir leyfi eða hafnar umsókn. Stofnunin getur krafist viðbótarupplýsinga áður en umsókn er afgreidd og áskilur sér rétt til að fallast á umsókn að öllu leyti eða að hluta. Eftir atvikum getur Minjastofnun Íslands fallist á umsókn með skilyrðum.

3. gr.

Umsókn skal skila inn á þar til gerðum eyðublöðum sem fást hjá Minjastofnun Íslands, minnst 4 vikum áður en ætlað er að rannsókn hefjist á vettvangi, en óheimilt er að hefja framkvæmdir áður en leyfi er fengið.

4. gr.

Skilmálar leyfis til fornleifarannsókna eru eftirfarandi:

1.     Leyfi til fornleifarannsókna er ekki framseljanlegt og skulu rannsóknirnar fara fram undir beinni stjórn og eftirliti fornleifafræðings þess sem skráður er sem stjórnandi. Fornleifarannsókn telst ekki lokið fyrr en gengið hefur verið frá rannsóknarstað, gripum og gögnum skilað til Þjóðminjasafns Íslands og gefin hefur verið út lokaskýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar.

2.     Minjastofnun Íslands áskilur sér rétt til að líta til þekkingar, reynslu og menntunar við veitingu leyfa.

3.     Leyfi til fornleifarannsókna gildir almennt í eitt ár frá útgáfudegi, en heimilt er að veita leyfi til allt að þriggja ára sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2012. Fornleifarannsókn skal fara fram á þeim tíma sem fram kemur í umsókninni. Ef breyting verður þarf að tilkynna breyttan rannsóknartíma.

4.     Vettvangsrannsóknir utanhúss skulu fara fram við bestu mögulegar aðstæður, svo að menningarverðmæti liggi ekki að þarflausu undir skemmdum vegna veðurs. Æskilegur tími utanhússrannsókna er frá maíbyrjun til septemberloka. Reynist nauðsynlegt að rannsaka utan þess tíma skal tryggja með viðeigandi umbúnaði að minjar skemmist ekki. Minjastaðir sem verið er að rannsaka skulu að jafnaði girtir af þannig að ekki sé hætta á að minjar skemmist af völdum dýra eða manna.

5.     Sýna skal starfsmönnum Minjastofnunar Íslands öll gögn og gripi rannsóknar æski þeir þess við eftirlit.

6.     Við vettvangsrannsóknir skal fara fram ítarleg skráning og ljósmyndun á jarðlögum, mannvistarlögum og forngripum, sem í ljós koma. Hvert atriði skal hljóta auðkenni eða númer við skráningu. Gera skal forngripaskrá yfir alla fundna forngripi á vettvangi, geta fundartíma, fundarstaðar og lýsa helstu einkennum hvers forngrips.

7.     Öll gögn og rannsóknarskýrslur skal afhenda Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu. Meðhöndlun gagna skal vera í samræmi við reglur Þjóðminjasafns Íslands um afhendingu gagna og gripa. Öll gögn skulu vera merkt rannsóknarnúmeri Minjastofnunar Íslands og/eða safnnúmeri Þjóðminjasafns Íslands. Leyfishafi heldur afritum hjá sér. Gögn og gripi, ásamt yfirlitsskýrslu til Minjastofnunar Íslands um gang rannsóknanna á leyfistímanum, skal afhenda innan árs. Ef forvarsla gripa tekur lengri tíma skal gerð grein fyrir því við afhendingu annars efnis og afhenda gripina þegar forvörslu þeirra lýkur.

8.     Alla fundna forngripi skal afhenda Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu, eftir forvörslu og í stöðugu ástandi, sbr. 40. gr. laga nr. 80/2012. Meðhöndlun þeirra á vettvangi og frágangur skal vera í samræmi við Leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands um umhirðu forngripa og frágang sýna. Forvarsla skal hefjast strax að lokinni vettvangsrannsókn hvers árs.

9.     Öll sýni sem ætluð eru til langtímavarðveislu skal afhenda Þjóðminjasafni Íslands og skal meðhöndlun þeirra vera í samræmi við Leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands um umhirðu forngripa og frágang sýna .

10. Ekki er veitt leyfi til nýrra vísindarannsókna hafi umsækjandi ekki fullnægt kröfum Minjastofnunar Íslands um skil á útgefnu efni, gögnum og gripum og um birtingu lokaskýrslu um fyrri fornleifarannsóknir sínar, sem veitt hefur verið leyfi til.

11. Að lokinni vettvangsrannsókn hvers árs skal skila inn til Minjastofnunar eyðublaði þar sem fram koma grunnupplýsingar um gang rannsóknarinnar það árið. Minjastofnun Íslands mun gefa út yfirlit yfir fornleifarannsóknir hvers árs sem byggir á þessum upplýsingum.

12. Ef um þriggja ára leyfi er að ræða skal skila áfangaskýrslu undangengins vettvangstímabils áður en vinna hefst á vettvangi árið eftir.

13. Endurnýjun rannsóknarleyfis er háð afhendingu gagna og gripa frá fyrra leyfistímabili og því að skilyrði þau sem fjallað er um í reglum þessum séu uppfyllt. Þó skal tekið tillit til þarfa rannsakenda á gögnum og gripum vegna samhengis og endanlegrar úrvinnslu rannsóknar.

14. Leyfishafi skal birta niðurstöður rannsóknar innan fimm ára frá afhendingu gagna og gripa. Þó er heimilt að framlengja ofangreindan frest ef fullnægjandi ástæður eru fyrir hendi að mati Minjastofnunar Íslands. Senda skal Minjastofnun Íslands endurgjaldslaust þrjú eintök af öllu efni, svo sem bókum og greinum í blöðum og tímaritum, sem leyfishafi birtir um rannsóknina.

15. Leyfishafi skal eiga fyrsta útgáfurétt um gögn og gripi í fimm ár frá lokum vettvangsrannsóknar. Sýningar um rannsóknina skulu ekki settar upp innan þess tíma án samþykkis leyfishafa rannsóknarleyfis. Eftir þann tíma skal efnið vera aðgengilegt öðrum vísinda- og fræðimönnum til rannsókna og útgáfu.

16. Leyfishafi skuldbindur sig til að ganga vel frá rannsóknarstað milli ára og að rannsókn lokinni. Skal frágangur miða að því að varðveita sem best það, sem eftir er af minjum og að minjastaðurinn sé snyrtilegur í hvívetna. Rannsóknarstaður er í umsjón Minjastofnunar Íslands sbr. lög nr. 80/2012 og skulu allar ráðstafanir varðandi rannsóknarstaðinn að lokinni rannsókn gerðar í samráði við Minjastofnun Íslands.

17. Vakin er athygli á 26. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 um að allir forngripir (þ.e. lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri) eru eign íslenska ríkisins. Ennfremur er vakin athygli á 36. og 45. gr. sömu laga um að eigi megi flytja úr landi sýni og gripi úr fornleifarannsóknum nema með formlegu leyfi Minjastofnunar Íslands.

18. Fari leyfishafi ekki að greindum skilmálum eða ákvæðum laga um menningarminjar að mati Minjastofnunar Íslands áskilur stofnunin sér rétt til að afturkalla leyfið þegar í stað og krefjast afhendingar gagna og gripa til Minjastofnunar Íslands. Það sama gildir ef í ljós kemur að ekki er faglega staðið að rannsóknunum að mati eftirlitsmanna Minjastofnunar Íslands og vinnubrögð eru slík að hætta er á að heimildagildi fornleifanna glatist.

5. gr.

Reglur þessar eru settar af Minjastofnun Íslands með vísan til 36. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 411/2012.

Minjastofnun Íslands, 11. apríl 2013.

Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður.

B-deild - Útgáfud.: 18. apríl 2013