Friðlýstar fornleifar

Rétt í landi Brekku

Hluti fornleifa hefur verið sérstaklega friðlýstur þar sem minjavarslan hefur álitið að sérstaka áherslu skuli leggja á varðveislu þeirra til framtíðar. Flestar þessara fornleifa voru friðlýstar áður en almenn friðun minja var fyrst tryggð með lagasetningu 1989. Unnið er að endurskoðun friðlýstra minja, en viðmið um hvað beri sérstaklega að friðlýsa hafa breyst. Þannig mun áhersla nú verða á að friða stærri minjaheildir, svo sem búskaparleifar í heild með bæjarhúsum, útihúsum og garðhleðslum. Auk þess verður leitast við að friðlýsa bestu dæmi um hina ýmsu minjaflokka.

Hér má nálgast friðlýsingaskrána frá 1990.

Þrjú flök og eitt minjasvæði hafa verið friðlýst eftir að þessi skrá var gefin út:

  • Flugvélarflak af gerðinni Northrop N-3PB Torpedo Bomber á botni Skerjafjarðar, sjá friðlýsingarskjal.
  • Flak franska rannsóknarskipsins Pourquoi Pas? sem fórst við skerið Hnokka út af Álftanesi á Mýrum, sjá friðlýsingarskjal.
  • Flak póstskipsins Phönix sem fórst í óveðri í upphafi árs 1881 við Syðra Skógarnes í Eyja- og Miklaholtshreppi, sjá friðlýsingarskjal. Í Morgunblaðsgrein 29. maí 2011 er fjallað um skipið, strandið og flakið og í tímaritinu International Journal of Naudical Archaeology má lesa grein eftir Ragnar Edvardsson og Arnar Þór Egilsson.
  • Fornleifar og hús á Hvanneyrartorfunni svokölluðu í Borgarfirði. Minjasvæðið er það fyrsta sem friðað er á þennan hátt á Íslandi, þ.e. samþætt friðlýsing fornleifa og húsa á stóru svæði. Nánar er fjallað um friðlýsinguna hér.