Fréttir


20. des. 2017

Menningararfsár Evrópu 2018

EYCH2018_Logos_Green-EN-300Árið 2018 hefur verið útnefnt „Menningararfsár Evrópu“ af Evrópuráðinu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Á menningararfsárinu fer fram fjöldi viðburða sem einblína á evrópsk tengsl og sameiginlegan menningararf okkar. Árið var sett formlega í Mílanó á Ítalíu 7. og 8. desember sl.

 

Á Íslandi hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið falið Minjastofnun Íslands að sjá um skipulagningu menningararfsársins. Sér Minjastofnun því um að veita upplýsingar um árið, halda utan um og samhæfa dagskrá.

Meginþema menningararfsársins er gildi menningararfsins fyrir einstaklinga og samfélög.  Á Íslandi hefur verið ákveðið að leggja sérstaka áherslu á strandmenningu. Undir strandmenningu geta fallið handverk, fornleifar, hús og mannvirki, gripir, bátar, sögur og ótal margt fleira.

 

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í dagskrá ársins með því að setja viðburð á dagatal þess eru hvattir til að láta Minjastofnun vita af þeim áhuga í síðasta lagi 31. desember á netfangið asta@minjastofnun.is. Viðburðurinn þarf þá ekki að vera fullmótaður heldur viljum við sjá sem fyrst hve margir hafa áhuga á að vera með. Þó er gott að láta líkleg efnistök og mögulega tímasetningu fylgja ef möguleiki er á því. Áhugayfirlýsingin er ekki bindandi. 

 

Evrópuráðið hefur gefið út sérstakt merki fyrir viðburði menningararfsársins og mun Minjastofnun Íslands sjá um að útdeila því til þeirra viðburða sem verða á dagskrá ársins hér á landi. 

 

Enginn sérstakur sjóður mun veita fjármunum í verkefni tengd menningararfsárinu.

 

Markmið menningararfsársins

Markmið menningararfsársins 2018 er að hvetja fólk til að

-        kynna sér auðugan og fjölbreyttan menningararf Evrópu

-        fagna, skilja og varðveita einstæð gildi hans

-        ígrunda þann sess sem menningararfur hefur í lífum okkar allra

 

Með því að gera menningararfi hátt undir höfði á árinu 2018 munum við leggja áherslu á

-        hvernig menningararfurinn byggir upp sterkari samfélög

-        hvernig menningararfurinn skapar störf og hagsæld

-        mikilvægi menningararfsins fyrir samskipti okkar við aðra hluta heimsins

-        hvað við getum gert til að vernda menningararf okkar

 

Allar frekari upplýsingar veitir Ásta Hermannsdóttir, verkefnastjóri, á tölvupóstfanginu asta@minjastofnun.is.

 

Upplýsingar um menningararfsárið má m.a. finna á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins: https://ec.europa.eu/culture/european-year-cultural-heritage-2018_en


#EuropeForCulture