Fréttir


25. jan. 2011

Friðun Bergstaðastrætis 1 í Reykjavík


Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, Bergstaðastræti 1 í Reykjavík, 17. desember 2010, að tillögu Húsafriðunarnefndar. Friðunin tekur til ytra byrðis hússins.

Bergstaðastræti 1Árið 1903 byggði Benedikt Stefánsson húsið að Laugavegi 12, sem hefur nú einnig verið friðað. Árið eftir fékk hann leyfi til að byggja geymsluhús sunnan við hús sitt. Árið 1906 fékk hann leyfi til að innrétta íbúð á efri hæð hússins og verslun á jarðhæð þess. Þetta hús fékk síðar númerið 1 við Bergstaðastræti.

Við friðun hússins var jafnframt horft til þess að mikilsvert er að varðveita byggingarsögulega fjölbreytni þessa hluta miðbæjarins og tengsl Laugavegar við aðliggjandi götur sem margar hafa varðveitt upphaflegt svipmót sitt.