Viðburðir

Varðveisla strandminja og húsagerðarlist vita

  • 5.4.2017, 20:00 - 22:00, Ægisgarður

Fræðslufundur Vitafélagsins verður haldinn miðvikudaginn 5. apríl kl. 20:00 í Ægisgarði, Eyjarslóð 5.

Á fræðslufundinum mun Magnús Skúlason, arkitekt, ræða um friðun vitabygginga og þá húsagerðarlist sem einkennir þá og Guðmundur Stefán Sigurðsson, fornleifafræðingur, tala um strandminjar og stefnu Minjastofnunar Íslands í varðveislu og verndun strandminja.

Magnús Skúlason, arkitekt og stjórnarmaður Vitafélagsins, þekkir öðrum betur sögu þeirrar byggingarlistar sem einkennir íslenska vitann. Magnús var forstöðumaður Húsafriðunarnefndar um árabil og það var fyrir hans tilstuðlan sem fyrstu vitar landsins voru friðlýstir árið 2003. Nú liggur fyrir tillaga að friðlýsingu á 11 vitum til viðbótar en það er einmitt gert að frumkvæði Magnúsar sem formanns húsafriðunarnefndar.   

Guðmundur Stefán Sigurðsson, fornleifafræðingur, er fyrsti starfsmaður Minjastofnunar Íslands sem eingöngu vinnur með strandmenningu. Hann hefur m.a. það hlutverk að kortleggja helstu staði sem nú þegar eru þekktir, meta hættu og forgangsraða stöðum til rannsókna og/eða verndunar og skipuleggja skráningu strandminja á óskráðum svæðum. Mikið landbrot af völdum sjávar er víða við strendur landsins og fjöldi menningarminja horfnar eða á leið í sjó. Guðmundur Stefán mun m.a. fræða okkur um framtíðarsýn Minjastofnunar sem lýtur að strandminjum.