10. desember - Baðstofuhellir í Reynishverfi

10des

Baðstofuhellir, einnig þekktur sem Bæjarhellir, er staðsettur fast við eyðibýlið Hellur í Reynishverfi í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu, sunnan í Hellnaskaga. Hellirinn er manngerður, höggvinn í sandsteinsberg og vísar vestur til sjávar, að Dyrhólaósi og Dyrhólaey en í austri eru Reynisfjall og Reynisfjara. Talið er að bærinn Hellur hafi byggst upp úr kirkjujörðinni Reyni og samkvæmt heimildum var þar tvíbýlt árið 1703. Var þá búið þar með 25 nautgripi, 33 kindur og 11 hross. Líkt og nafn hellisins bendir til hefur verið innangengt úr honum inn í sjálfan bæinn en út við dyr hans má enn sjá útskot og göng upp í rústir bæjarins. Býlið fór að lokum í eyði árið 1909.

IMG_5115

Sr. Jón Steingrímsson bjó í hellinum ásamt Þorsteini bróður sínum fyrsta vetur þeirra bræðra á Suðurlandi, veturinn 1755 – 1756 þegar Kötlugos geysaði. Hellirinn er merkilegur í sjálfu sér sem manngerður hellir en einnig er hann hluti af lífi og starfi sr. Jóns Steingrímssonar sem gegndi lykilhlutverki sáluhjálpara í móðuharðindunum á Íslandi. Veturinn sem Jón dvaldi í hellinum fékk hann mikinn áhuga á eldgosum og lagði drög að rannsókn á Kötlugosinu og skrifaði um það skýrslu. Samtímalýsing hans um eldsumbrotin í Lakagígum 1783-1785 (Skaftáreldar) og áhrif þeirra í nærliggjandi sveitum var svo gefin út í Eldriti hans árið 1788. Jón hlaut nafnbótina „Eldklerkur“ í kjölfar „eldmessu“ sinnar 20. júlí 1783 sem talin var hafa valdið því að hraunstraumur stöðvaðist og draga tók úr gosvirkni í Lakagígum. Í hellinum lærði hann einnig þýsku og lagði margt til samfélagsins í Reynishverfi, svo sem þekkingu á bátasmíði og hleðslu varnargarða. Jón varð síðar bóndi á Hellum 1756-1761 þangað til hann var vígður til prests og fluttist þá að Felli í Mýrdal. Í lok 19. aldar voru hreppaskilaþing Hvammshrepps haldin í Baðstofuhelli en síðar var hann notaður sem skjól fyrir sauðfé.

Badstofuhellir

Baðstofuhellir er u.þ.b. 6 m langur, tæplega 3 m breiður og 2 m á hæð. Hleðsla er fyrir munna hellisins og var þar einnig viðarþil með dyrum og gluggum. Bogadregna skotið innst í honum er líklega verk Jóns en í ævisögu sinni segir hann sjálfur frá því þegar hann hjó út fyrir skotinu:

„Þá eg nú eptir veturnætur 1755 settist að á Hellum, fékk Einar mér íveru skemmustofu vestan bæjardyrnar. Hún var höggvin inn í bergið, en eg hjó hana svo stóra inn lengra í bergið, að eg kom þar fyrir rúmi mínu, borðkorni og bekk og öllu því, er þar meðferðis hafði, og vorum við þar bræður báðir um veturinn, og áttum þar það bezta og rólegasta líf.“

IMG_5101

Baðstofuhellir ásamt rústum bæjarins voru friðlýst árið 1983 af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni.

Manngerðir hellar við bæi eru vel þekktir á Suðurlandi og telja hátt annað hundrað, allt frá Ölfusi og austur í Mýrdal. Í mörgum þeirra eru gamlar veggjaristur, fangamörk, ártöl, krossmörk og rúnir en erfitt getur þo verið að aldursgreina hella út frá slíkum ristum einum saman. Hellarnir hafa gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina og m.a. verið nýttir sem fjárhús, hlöður og geymslur. Manngerðir hellar eru forn húsakostur og þannig hluti af byggingararfi þjóðarinnar sem mikilvægt er að varðveita og rannsaka.

Hellur

Umfjöllunin er unnin upp úr friðlýsingarskrá, bókinni Manngerðir hellar eftir Árna Hjartarson, Guðmund J. Guðmundsson og minningum Eyjólfs Guðmundssonar Minningar úr Mýrdal.