11. desember - Betuhús í Æðey


11desÍ norðanverðu Ísafjarðardjúpi kúrir Æðey undir fjöllum Snæfjallastrandar, sem skýlir henni fyrir norðanáttinni. Þar má m.a. finna reisulegt íbúðarhús sem byggt var árið 1864 og annað enn eldra hús sem á sér athyglisverða sögu, svokallað Betuhús

Betuhús 3

Sagan segir að hús þetta hafi verið hluti af byggingum sem reistar voru í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp í tengslum við saltframleiðslu sem þar fór fram á árunum 1773-1793 samkvæmt fyrirmælum Danakonungs. Soðið var salt úr sjó við hverahita. Þarna voru reist tvö íbúðarhús, annað fyrir forstöðumann og hitt fyrir saltkarla, fimm eða sex suðuhús, tvö þurrkunarhús, stórt salthús og hús yfir sjógeymi, tvö dæluhús, vatnshjól og trérör. Saltsuðan var lögð niður því reksturinn bar sig ekki. Saltið tók í sig blýsambönd úr pönnunum sem notaðar voru og ekki hægt að nota það til að salta fisk því hann varð bláleitur. Reyndist því erfitt að selja saltið. Árið 1799 voru eignir saltverksins boðnar upp. Húsin keyptu kaupmennirnir Busch og Paus.

Betuhús 5Betuhús 1

Ekki er vitað hvenær eða hverjum Busch og Paus seldu húsið, sem nú er í Æðey og hefur væntanlega verið annað íbúðarhúsanna í Reykjanesi. Heimildum ber heldur ekki saman um flutnings­árið, né hver flutti það, en annað hvort var það Rósinkar Árnason eða faðir hans Árni Jónsson sem flutti húsið út í Æðey og gerði að íbúðarhúsi árið 1874 eða 1878 og hafði það þá staðið lengi autt í Reykjanesi. Hjónin Jónas Jónasson (1875-1939) og Elísabet Guðmundsdóttir (1880-1963) bjuggu  í húsinu frá 1907 þar til þau fluttu til Reykjavíkur árið 1935. Líklega hefur húsið þá fengið nafn sitt og kallað Jónasarhús eða Betuhús, en síðara heitið virðist hafa náð yfirhöndinni. Byggt hefur verið við húsið sunnan­vert og skúr við vesturhlið. Eftir að hætt var að búa í húsinu árið 1935 var hreinsaður dúnn í húsinu og síðar var það geymsla. Húsið var komið í mikla niðurníslu í kringum 1980. Þá var húsið einangrað, settir í það nýir gluggar með plexigleri og skúrbygging stækkuð. Árið 2018 var síðan hafist handa við endurgerð hússins og það fært í það horf sem vænta má að húsið hafi verið í um 1910. Sú vinna stendur enn yfir en afar skemmtilegt hefur verið að fylgjast með hve mikil natni, kunnátta og virðing hefur verið lögð í það verk.

Betuhús 4

Eins og nafn Æðeyjar ber með sér er þar mikið æðarvarp og dúnninn talinn til mikilla hlunninda. Æðardúnssængur hafa um aldir verið álitnar svo mikil eign að þær gengu í erfðir, gefnar ungbörnum, í fermingar- og brúðargjafir, þjóðhöfðingjum og öðrum fyrirmennum. Enginn yrði vonsvikinn ef hann fengi æðardúnskodda í jólagjöf, svo ekki sé nú minnst á sæng!

Betuhús var friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, sem kveður á um að öll hús sem reist voru fyrir 1850 skulu vera friðuð. Í dag er húsið því friðlýst.

Texti unninn upp úr greinum Lýðs B. Björnssonar um saltvinnslu á Vestfjörðum, spjalli Finnboga Hermannssonar við Guðrúnu Lárusdóttur sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1981, upplýsingum á heimasíðu Snjáfjallaseturs, bók Engilberts S. Ingvarssonar Undir Snjáfjöllum og greinargerð landeigenda um ástandsmat og uppmælingar og upplýsingum frá núverandi eiganda hússins, Jónasi Jónassyni.

Húseigandi hefur veitt Minjastofnun heimild til að nota ljósmyndir í hans eigu.