12. desember - Hlíðarhús, Vesturgata

12des

Vesturgata er ein af elstu götum Reykjavíkur og á hún sér langa og fjölbreytta sögu sem meðal annars má lesa úr húsunum sem við hana standa. Eins og nafnið bendir til þá liggur Vesturgatan í vesturátt frá því sem kalla má „Hornstein Reykjavíkur“, gatnamót Aðalstrætis og Hafnarstrætis, elstu gatna bæjarins. Lagning Vesturgötu hófst 1840 og var hún upphaflega kölluð Læknisgata því hún náði upp að bústað landlæknis (þar sem Garðastræti er nú). Um 1860 var gatan framlengd til vesturs og sá hluti hennar nefndur Hlíðarhúsastígur, kenndur við hina svonefndu Hlíðarhúsabæi, en þeir voru þyrping torfbæja sem stóðu þar sem nú eru Vesturgata 24 og 26 og skáhallt niður að gatnamótum Ægisgötu og Nýlendugötu. Heimildir eru um byggð í Hlíðarhúsalandi frá því um 1500 en húsin eru nú að mestu horfin fyrir utan lítinn hluta af yngstu húsunum, „Hlíðarhús b“, við Nýlendugötu 9 sem glittir í á milli húsa austan megin Ægisgötu. Eins og önnur torfhús hafa Hlíðarhúsabæirnir þurft reglulegt viðhald og húsin hafa breyst í áranna rás, stækkað og minnkað eftir efnum og þörfum.

Nordurbaer-Hlidarhusa

Í Hlíðarhúsum, eins og víða við ströndina í landi Víkur og Sels, bjuggu aðallega tómthúsmenn eins og þeir kölluðust sem ekki höfðu skepnur og hefðbundinn búskap heldur stunduðu daglaunavinnu og róðra.

Hlíðarhúsabæirnir voru jafnan taldir til fyrirmyndar um alla gerð og umgengni. Árið 1703 bjuggu í Hlíðarhúsum 15 manns en 1762 voru íbúar orðnir 39. Þessa fjölgun má rekja til stofnunar Innréttinganna árið 1751. Þá fjölgaði tómthúsum á svæðinu og byggðin þéttist. Árið 1835 voru Hlíðarhús og Ánanaust lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Hægt er að rekja uppbyggingu Hlíðarhúsalands að mestu til ársins 1866, en þá tók bæjarstjórnin við jörðinni af ekkju ábúanda ásamt hjáleigunni Ánanaustum. Einnig ákvað bæjarstjórnin að leggja Hlíðarhúsastíg, byggja brunn og skipta Hlíðarhúsatúni upp til áframhaldandi leigu og uppbyggingar. Árið 1888 hlaut gatan svo lögfest nafnið Vesturgata eftir höfuðátt frá Aðalstræti.

ABS-10-431

Árið 1907, Hlíðarhús við Vesturgötu og Ægisgötu, síðar Nýlendugata 7.  Til vinstri sést í turn húss á horni Norðurstígs og Tryggvagötu.  © Ljósmyndasafn Reykjavíkur,  ÁBS 10 431. Ljósmyndari óþekktur.

Undir lok 19. aldar var timburhúsum farið að fjölga í Reykjavík en einnig komu til skjalanna svokallaðir steinbæir, ný húsagerð sem talin er sérreykvísk. Uppruni hennar er rakinn til þess er Íslendingar fengu tækifæri til að taka þátt í byggingu Alþingishússins. Þannig lærðu Íslendingar þá iðn að höggva til grjót og byggja úr því hús auk þess sem verkfæri hinna dönsku handverksmanna voru boðin upp eftir að byggingu Alþingishússins lauk og Íslendingar fengu þá einnig aðgang að verkfærum til handverksins. Steinbæir tóku víða við af torfhúsum bæði austan og vestan við læk en með byggingu þeirra gátu menn bætt húsakynni sín með endingarbetri byggingartækni en hinum hlöðnu torf- og grjótveggjum sem sífellt þurfti að endurhlaða og það úr efni sem hægur vandi var að sækja í næsta nágrenni. Form steinbæjanna byggði þó að miklu leyti á gerð burstabæja. Langveggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti en gaflarnir voru úr timbri þar sem auðveldara var að koma fyrir gluggum. Húsið sem nú stendur eitt eftir af Hlíðarhúsum má kalla „hálfan steinbæ“ en það var byggt árið 1898 upp úr torfbæ sem þar stóð áður og tilheyrði Hlíðarhúsabænum. Sá bær var byggður árið 1883 og er norðurveggur hans enn sýnilegur í núverandi húsi. Hús þetta er mjög góður vitnisburður um þróun reykvískrar húsagerðar úr torfbæ í steinbæ. Þó að einungis annar hliðarveggja Hlíðarhúsa b sé hlaðinn, telst húsið til steinbæja. Aðrir steinbæir sem enn standa við Vesturgötu eru Götuhús við Vesturgötu 50, Félagshús við Vesturgötu 57 og Litla Sel og Jórunnarsel, sambyggð hús við Vesturgötu 61. Eftir að Hlíðarhúsabæirnir byrjuðu að týna tölunni risu þar fjölmörg timburhús og enn standa heillegar raðir timburhúsa báðum megin við hina merku Vesturgötu og í nágrenni hennar.

Texti unninn upp úr skýrslum Minjasafns Reykjavíkur nr. 76, 98 og 109.