13. desember - Krosslaug

13des

Krosslaug er heit náttúrulaug (42°C), staðsett á landamerkjum jarðanna Brennu og Reykja. Aldur laugarinnar er ekki þekktur en nafnið Krosslaug kemur fyrir í bréfum á 17. öld. Samkvæmt Kristni sögu, sem sennilega var samin á 13. öld, segir að í lauginni hafi Vestlendingar látið skírast til kristni er þeir komu af Alþingi árið 1000. Það sumar var allur þingheimur skírður er menn riðu heim. Ráða má af sömu heimild að þeir vildu frekar láta skíra sig í hlýju vatni Krosslaugar en köldu, venjulegu vatni. Talið var að laugin hefði þá verið vígð samkvæmt kirkjunnar lögum og reistur hjá henni kross, sem hún hafi síðan verið kennd við, en í Kristni sögu er laugin nefnd Reykjalaug. Var af þessum sökum einnig talið að laugin hefði yfirnáttúrlegan lækningarmátt. Laugin var friðlýst árið 1978 af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni, og var ástæða friðlýsingarinnar sögnin um skírn Vestlendinganna.

DJI_0011-MAS

1980-Vidgerd-Krosslaug-Teikn-GO

Laugin er hlaðin úr 3-4 lögum af stórum steinum. Hún er nær sporöskjulaga, um 1,2 m að breidd og um 2 m á lengd. Dýpt laugarinnar er um 0,8 m. Inntak laugarinnar er við norðausturhornið og gengur þar grjóthlaðinn stokkur upp af lauginni til austurs. Ólafur Þorsteinsson frá Kambhól sagði að efst í lauginni væri upphlaðið sæti sem nefnt var Biskupssæti. Ekki sést það nú. Mögulegt er að kofarúst sé á hólnum ofan við laugina og má sjá tilgátu að staðsetningu hennar á teikningunni hér til hægri.

Á fyrri hluta 20. aldar drukknaði ungur piltur í lauginni og var þá rofið stórt skarð í suðurhorn laugarinnar til að koma í veg fyrir frekari óhöpp. Árið 1979 var ástand laugarinnar orðið mjög bágborið og var laugin lagfærð árið eftir að frumkvæði Ingimundar Ásgeirssonar á Hæli í Flókadal, en undir eftirliti Guðmundar Ólafssonar, fornleifafræðings á Þjóðminjasafni Íslands. Síðar létu Ásgeir Sigurðsson frá Reykjum og Jón Böðvarsson í Brennu girða svæði umhverfis laugina af og voru þar gróðursett tré. Í kringum árið 2000, í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi, stóðu Borgarfjarðarsveit og Borgarfjarðarprófastsdæmi fyrir frekari gróðursetningu og lagningu stígs að lauginni. Nokkru seinna var sett upp hlið við bílastæðið.

1980-Vidgerd-Krosslaug-GO

Árið 2020 var umhverfi laugarinnar farið að láta verulega á sjá vegna ágangs ferðamanna. Minjastofnun Íslands ákvað því að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir á svæðinu með hellulögn framan við laugina og að henni frá göngustígnum. Einnig var sett upp nýtt skilti við bílastæði.

IMG_4686-MAS

Fyrir viðgerð.

IMG_0405-MAS

Eftir viðgerð.

Texti unninn upp úr rannsóknarskýrslum Guðmundar Ólafssonar (2011 og 2013), riti um friðlýstar fornleifar í Borgarfjarðarsýslu, vinnuskýrslu Þjóðminjasafns 1980 og Kristni sögu.

Eldri mynd og teikning birt með leyfi Guðmundar Ólafssonar.