14. desember - Kambstún

14des

Skammt vestan við bæinn Hestgerði í Suðursveit gengur klettahryggur að nafninu Hestgerðiskambur niður suðvesturhlið Hestgerðismúla. Vestan við hann er grasivaxinn hvammur og kallast svæðið Kambstún. Þar var verstöð vermanna hér á árum áður og enn í dag sjást þar rústir beggja vegna lækjarins. Sagt er að þær hafi verið fleiri fyrir fáeinum árum en lækurinn hafi borið möl yfir þær.

IMG_20190301_134737

Fiskimiðin úti fyrir Suðursveit þóttu gjöful auk þess sem stutt var að sækja þau. Aðstæður gátu þó verið erfiðar og fá afdrep fyrir úthafsbriminu. Í Hálsalóni, ekki langt frá Hestgerði, mynduðu tvö sker ásamt boðum og grynningum einhvers konar kví sem var opin mót norðaustri. Þar var því góð höfn frá náttúrunnar hendi, varin af náttúrulegum brimbrjótum. Fiskimiðin í Suðursveit voru ekki aðeins sótt af heimamönnum heldur einnig af Eyfirðingum, Þingeyingum og Fljótsdælingum. Þar á meðal voru vermenn sem komu frá Skriðuklaustri en jörðin Borgarhöfn tilheyrði Skriðuklaustursumboðinu fram til ársins 1743. Talið er að vertíðin hafi byrjað í febrúar og varað fram í maí. Fyrir vermenn frá Skriðuklaustri var talsverður vegur úr Fljótsdal, yfir Vatnajökul og niður í Suðursveit. Heimildir benda þó til þess að leiðir þarna á milli hafi verið mun greiðari á klausturtímanum en nú er og því ekki mikill farartálmi. Vegna veðurfarsbreytinga og framrásar jökla lokuðust leiðirnar smátt og smátt.

Ýmsar sögusagnir gengu um vermennina í Suðursveit. Daniel Bruun og Sigfús Sigfússon skráðu meðal annars nokkrar þeirra. Auk sagna um fyrirboða og reimleika er sagt er að vermennirnir hafi þótt frekar uppvöðulssamir þegar þeir voru í landlegu og þóttu leiknir og „djarftækir til kvenna“. Til er orðtækið „Komdu í Kambtún ef þér finnst langt“ en það gefur til kynna að það hafi oft verið glatt á hjalla í verbúðunum.

IMG_20190301_133439

Hálsahöfn er talin hafa lagst af á ofanverðri 16. öld í kjölfar mikils manntjóns á miðunum árið 1573. Líklega er það þó ekki eina ástæða þess að höfnin lagðist af. Skerin sem mynduðu kvína höfðu einnig lækkað með tímanum, hvort sem það var vegna landbrots eða landsigs, og þar með hafa gæði hafnarsvæðisins dvínað með tímanum. Í kjölfar manntjónsins á 16. öld hefur höfnin mögulega verið orðin það léleg að ekki hafi þótt ráðlegt að hefja sjósókn þar aftur. Í jarðabók um svæðið milli Lónsheiðar og Skeiðarársands sem tekin var saman eftir aldamótin 1700 segir að útræði sé á jörðinni við Hálsahöfn og að vermannaskálar hafi verið þar til forna. Það bendir til þess að enn hafi þá verið róið frá svæðinu. Á 18. öld er staðan hins vegar orðin sú að landbrot og sandburður höfðu endanlega eyðilagt hafnaraðstöðuna. Árið 1931 friðlýsti Matthías Þórðarson þjóðminjavörður verbúðaminjarnar í Kambstúni.

Kambstun

Minjastofnun Íslands tók þátt í samstarfsverkefni níu aðila og tíu aukaaðila frá Noregi, Íslandi, Írlandi og Skotlandi sem fjallaði um stafræna skráningu og miðlun menningararfs og gekk undir nafninu CINE á árunum 2017-2020. Gunnarsstofnun (Skriðuklaustur) leiddi þá vinnu hér á Íslandi og var einn þáttur í verkefninu miðlun leiðarinnar sem vinnumenn frá Skriðuklaustri fóru til verstöðvanna í Hálsahöfn fyrir 500 árum síðan. Hér fyrir neðan er hægt að skoða 360° mynd af Kambstúni.

https://www.youtube.com/watch?v=rG_uIsHDUd8

Textinn er unninn upp úr vefsíðu CINE verkefnisins, vefsíðunni Heimaslóð, vefsvæði Þórbergsseturs, Tímariti Máls og menningar 1964, Lesbók Morgunblaðsins 1946 og Sögu 2010.