15. desember - Skagagarður

15des

Skagagarðinn má rekja um 1500 metra leið frá Útskálum og þvert yfir Garðskaga, þar sem hann hefur endað við túngarða hjá Kirkjubóli. Enn sést vel fyrir honum sunnan Skagabrautar en að norðanverðu, í átt að Útskálum, hefur hann verið sléttaður við túnrækt. Á loftmyndum má þó sjá móta óglöggt fyrir honum nokkurn spöl ofan við íbúðarhúsið. Hann er talinn hafa verið hlaðinn til varnar akurlöndum fyrir ágangi búfjár. Akrarnir hafa tekið yfir töluvert svæði nyrst og vestast á skaganum. Hluti þeirra, yst á skagatánni í kringum Garðskagavita, var friðlýstur árið 1930 eftir rannsóknir Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi árið 1902 (sjá teikningu hér fyrir neðan til hægri). Má enn greina ummerki akurreina í túnum austur af vitanum.

Skagagardur-teikning-Brynjulfs

Kristján Eldjárn vakti athygli á þessum merka garði og fjallaði ítarlega um hann í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977. Síðan þá hafa farið fram nokkrar rannsóknir á aldri og gerð hans, fyrst af jarðfræðingunum Hauki Jóhannessyni og Guðrúnu Larsen árið 1988. Garðurinn var hlaðinn úr torfi en ofan á honum er grjóthleðsla. Telja þau að hann hafi náð meðalmanni í öxl þegar hann var í notkun. Var garðurinn hafður stöllóttur að innanverðu en slétthlaðinn að utan, en þannig mátti reka fé út fyrir garðinn án þess að það kæmist inn aftur. Af gjóskulögum að dæma hefur garðurinn verið hlaðinn á 10. – 11. öld, en Haukur bendir á að hið „svokallaða miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.” Þetta vekur spurningar um hvenær Skagagarðurinn lauk hlutverki sínu. Í fornu bréfi frá 1340 segir að Bjarni bóndi í Útskálum hafi gefið Skálholtsbiskupi fjórðung jarðarinnar ásamt akurlöndum í próventu með syni sínum. Brynjúlfur Jónsson telur að það muni vera þeir akrar sem hann sér móta fyrir nyrst á Skaganum.

20200812_120609-copy

Um 450 metrum sunnan Skagabrautar eru rústir fornbýlisins Skálareykja og liggja túngarðar þess beggja vegna Skagagarðsins. Þegar Brynjúlfur var við rannsóknir sínar árið 1902 stóð fjárrétt á þessum stað, en sagnir herma að þar hafi fyrrum staðið bær og hafi sú skylda hvílt á ábúanda að verja akrana fyrir ágangi búfjár. Spyrja má hvort bær þessi hafi byggst eftir að Skagagarðurinn hafði þjónað hlutverki sínu og í stað þess að viðhalda þessu mikla mannvirki hafi einfaldlega verið settur maður á vakt við að halda fé í skefjum frá ökrunum. Í Skálareykjum er að finna töluverðar rústir, en frekari rannsóknir þarf til að skera úr um aldur þeirra.

Skagagardur

Minjarnar eru vitnisburður um forna búskaparhætti og er Skagagarðurinn einkennandi mannvirki í búsetulandslagi svæðisins, enda ber byggðin nafn eftir garðinum og kallast Garður. Suðurnesjabær hefur nú tekið frumkvæðið að því að gera þessum minjum til góða, bæta aðgengi að þeim og upplýsingagjöf og stuðla þannig að varðveislu þeirra til framtíðar.


Kanon_1639494695146

Efnið er sótt úr ýmsum heimildum, en ítarlegast er fjallað um Skagagarðinn í ofangreindu riti Kristjáns Eldjárns, í fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands ses. fyrir sveitarfélagið Garð (FS404-08011) og í umfjöllun Ómars Smára Ármannssonar á vefnum ferlir.is. Einnig var stuðst við frétt og viðtal við Hauk Jóhannesson í Morgunblaðinu frá 14. júní 1988 og umfjöllun Brynjúlfs Jónssonar; Rannsókn í Gullbringu- og Árnessýslu 1902 (Árb. forn. 1903).