16. desember - Hraunsrétt

16des

Í lágum hraunkrika í Aðaldal í landi bæjarins Hrauns stendur hin forna Hraunsrétt. Talið er að réttin hafi verið reist á árabilinu 1830-1838. Réttin er hlaðin úr hraungrýti sem sennilega hefur verið tekið úr hrauninu umhverfis hana, þótt eitthvað af byggingarefninu hafi verið flutt lengra að. Lengi hefur verið réttað að Hrauni því í túnjaðrinum má sjá rústir enn eldri réttar. Við upphaf framkvæmda við réttina samdi sveitastjórn við Jóhann Ásgrímsson um að hlaða almenninginn. Í laun fékk hann eitt lamb frá hverjum ábúanda hreppsins. Bændur hlóðu sjálfi sína dilka.

IMG_0443

Réttin er mjög stór í grunninn en hefur verið minnkuð síðustu ár til að bregðast við fækkun sauðfjár á svæðinu. Árið 1977, þegar sauðfjárbændur voru fleiri en í dag, var almenningurinn 1.800 fermetrar og dilkarnir 34 að tölu og stærð þeirra samtals 5.432 fermetrar. Á þeim tíma voru veggir almenningsins og mestur hluti dilkanna tvíhlaðnir úr hraungrjóti. Norðan við réttina er hringlaga aðhald, að nokkru myndað frá náttúrunnar hendi, nefnt safnhringur. Árið 1913 var hlaðinn hraungarður um safnhringinn sem enn stendur og er nýttur til að hvíla féð nóttina fyrir réttardag.

Hraunsrett-med-almenningi

Deilur um Hraunsrétt hafa oft skotið upp kollinum og um tíma voru uppi háværar raddir innan sveitar um að hætta að nota réttina og byggja nýja úr nútímalegra byggingarefni á öðrum stað, en að lokum fékkst fjármagn til að gera réttina upp og er hún því enn nýtt sem skilarétt sveitarinnar. Henni hefur verið breytt gegnum árin og aðlöguð að kröfum hvers tíma. Hraunsrétt er mjög gott dæmi um friðaðar menningarminjar sem enn nýtast í sínu upprunalega hlutverki.

Upplýsingar fengnar úr BA ritgerð Sigurlaugar Dagsdóttur, Menningararfur í formi íslensks hraungrýtis. „Hraunsréttardeilan“ í Aðaldal frá 2012.