17. desember - Þingmannavegur

17des

Vaðlaheiði var löngum nokkur farartálmi milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Fjórar leiðir voru helst farnar yfir heiðina: Leiðin um Gönguskörð upp úr Garðsárdal yfir í Bleiksmýrardal, yfir Bíldsárskarð á milli Kaupangs í Eyjafirði og Grjótárgerðis í Fnjóskadal, Þingmannavegur frá Eyrarlandi (Vaðlaþingi) í Eyjafirði að Hróarsstöðum í Fnjóskadal og leiðin um Steinsskarð, en þar var lagður bílvegur árið 1930.

Fjölförnust þessara leiða fram eftir öldum var Þingmannavegurinn. Nafn þessarar leiðar gæti verið tilkomið vegna þess að þetta var leiðin á milli Vaðlaþings í Eyjafirði og Leiðarness, en þar voru héraðsþing til forna og er þar að finna tóftir sem taldar eru leifar þingbúða. Báðir þessir staðir voru friðlýstir af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði á árunum 1930 og 1931.

IMG_2282

Horft suður yfir Eyjafjörð af Þingmannavegi.

Þingmannaleiðar er getið í Ljósvetningasögu og er trúlega sama leið og síðar hefur verið nefnd Þingmannavegur. Leiðin er vel vörðuð og vegurinn hlaðinn í köntum í brekkunum beggja vegna heiðarinnar. Þá eru langir kaflar uppi á heiðinni, sem liggja um mýrar og leirbleytur, einnig upphlaðnir. Breidd vegarins þar sem hann er upphlaðinn er um þrír metrar, svo trúlega hafa menn ætlað að hafa hann kerrufæran. 

IMG_2295

Upphlaðinn vegurinn á Vaðlaheiði.

Þingmannavegur hefur verið fjölfarinn. Til marks um það birtist eftirfarandi auglýsing í Norðanfara 20. febrúar 1872:

Heyrið góðir hálsar! Fyrir þá skuld að Þingmannavegur liggur allur í mínu landi að vestanverðu ofan Vaðlaheiði frá efstu brún hennar og ofan að Eyjafjarðará; hafa ferðamenn undanfarin ár áð í áðurnefndu landi beggja vegna vegar svo fleiri eða færri tugum hesta hefur skipt, nótt eptir nótt og viku eptir viku fyrirfarandi sumar og það fleiri af þeim án leyfis enn flestir án borgunar. Fyrir þennan heimildarlausa yfirgang er fullur þriðjungur af því litla landi sem jörðinni tilheyrir lagður í mér gagnlausa örtröð.

Fyrirbýð ég því að sleppa hér eptir að sleppa nokkru hrossi í mínu landi án leyfis og borgunar, borgunin er 2 sk. fyrir dægrið en 4 sk. fyrir sólarhringin og svo að tiltölu hvort hrossin eru lengur eða skemur.

Leifstöðum 15. febrúar 1872
Jón Rögnvaldsson.

Vel má vera að auglýsing Jóns tengist vegabótum á Þingmannaveginum sem unnar voru af Þingeyingum, vegurinn var þá lagfærður talsvert. Þessar vegabætur hafa væntanlega ekki dregið úr umferð ferðamanna í landi Leifstaða. 

Í bréfasafni Jónatans Þorlákssonar hreppstjóra frá Þórðarstöðum í Hálsahreppi, er að finna bréf frá Lárusi Sveinbjörnssyni sýslumanni Þingeyjarsýslu frá 1870 og 1871 þar sem talað er um kostnað við brúarbyggingu á Vaðlaheiði. Upphaflega var ætlunin að byggja trébrú yfir Systralæk þar sem hann rennur eftir dálitlu gili uppi á heiðinni. Að betur athugðu máli þótti hentugra að byggja grjóthlaðna brú yfir gilið og mun hún hafa verið hlaðin sumarið 1871. Brúin er mikið mannvirki og fagmannlega hlaðin. Lengd að ofan er um 20 metrar og breidd rúmlega 3 metrar. Hæð hennar er 2,5 til 3 metrar. Ræsi voru á brúnni, en þau hafa fyllst, þannig að nú hefur myndast dálítið uppistöðulón sunnan við hana.

IMG_2446

Steinbrúin yfir Systralæk á Vaðlaheiði. Horft til suðurs.

Vega- og brúargerðin á Þingmannavegi er dæmi um þann mikla framfarahug Íslendinga sem ríkti á þessum árum.

Á amtsráðsfundi norður- og austuramtsins 1880 var lagt til við landshöfðingjann að Þingmannavegur yrði skilgreindur sem fjallvegur. Fram kemur í fundargerðinni að sama tillaga hafði verið gerð á hverju ári frá árinu 1876 en án árangurs. Ef vegurinn hefði verið skilgreindur sem fjallvegur hefði kostnaður við gerð og viðhald hans komið frá landssjóði en ekki sýslusjóðum eins og önnur vegagerð á þessum árum. Líklega hefur einhver hreppapólitík verið í málinu því að í fundargerð amtsráðsfundar árið 1881 kemur fram að landsstjórnin hafi ákveðið að veita 2000 kr. í fjallveg yfir Vaðlaheiði, en jafnframt fallist á rök sýslumanns Eyfirðinga um að hentugra væri að vegur yrði lagður utar á heiðinni yfir Geldingsárskarð, sem er skammt sunnan við Steinaskarð en þar var gerður bílvegur 1930 og var það þjóðvegurinn þar til hann var færður yfir í Víkurskarð. Var hafist handa við vegagerð yfir Geldingsárskarð rúmum 10 árum eftir að brúin yfir Systralæk var gerð. Framkvæmdir Þingeyinga við vega- og brúargerð á heiðinni nýttist því ekki eins og hugur stóð til. Jón Rögnvaldsson á Leifstöðum hefur mátt vel við una þar sem varla hefur verið mikill ágangur ferðamanna í landi hans eftir að vegurinn yfir Geldingsárskarð var gerður.

IMG_2445

Steinbrúin. Horft til suðurs.

Í dag er Þingmannavegur vinsæl gönguleið. Lengd hans er um 11 km og er hækkunin um 600 metrar þegar gengið er austur yfir en töluvert lægri ef gengið er vestur yfir. Þetta er því þægileg dagleið og fjölmargir hlaupa- og útivistarhópar leggja leið sína um veginn í dag. 

Thingmannavegur

Textinn er unninn upp úr eftirfarandi tímaritum: Stjórnartíðindi fyrir Íslands 1880, Fróði útg 2. febrúar 1881 og Norðanfari 20. febrúar 1872.