18. desember - Hegningarhúsið

18des

 

"Í kaupstaðnum Reykjavík skal byggja hegningarhús, í því skulu útteknar vinnuhegningar þær, sem menn eru dæmdir í fyrir afbrot sem mál er höfðað út af á Íslandi"

 

… segir í konunglegu tilskipuninni árið 1871, en þá hafði gamla fangelsið við Arnarhól (Stjórnarráðshúsið) ekki verið notað sem fangelsi frá því 1813. Hegningar- og fangelsismál á landinu höfðu því verið í ólestri í yfir 50 ár! Á þeim tíma voru afbrotamenn annað hvort hýddir, vistaðir til skamms tíma í svartholum eða sendir til Danmerkur til afplánunar. Mikil umbylting varð í fangelsismálum á 19. öldinni í hinum vestræna heimi þar sem mannúðarsjónarmið settu mark sitt á þá stefnumótun sem átti sér stað. Þau sjónarmið snérust að mestu leyti um greinarmuninn á hegningu og betrun. Eðli glæpa var að breytast þar sem morðum og líkamsmeiðingum hafði fækkað og brotum sem snéru að eignarrétti fjölgaði. Áherslur innan byggingarlistar breyttust einnig þar sem hugmyndir um að byggingarnar sjálfar, rými og umhverfi gætu mótað atferli fanganna á jákvæðan hátt og breytt þeim að vilja valdhafanna og til að verða betri menn. Í nágrannalöndunum var farið að byggja fangelsi sem búin voru mjög mikilli hreinlætis- og hitunartækni. Húsin voru oft uppbyggð sem hringlaga byggingar þar sem auðvelt var að hafa eftirlit með föngum við skylduvinnu innan veggja fangelsisins.

Joladagatal-2021

Árið 1866 var skipuð nefnd hér á landi til að koma fangelsismálunum í lag, en athyglisvert álit nefndarmanna var að ef íslenskir afbrotamenn tækju út hegningu sína hér á landi þá myndi það hræða aðra frá því að lenda á glapstigum. Fangelsisvist í Danmörku var jafnvel talin upphefð og eftirsóknarverð að þeirra áliti. Greinilegt var að ráðamenn litu til nágrannalandanna og þessara nýrra sjónarmiða í fangelsismálum, þegar kom að skilgreiningu á hlutverki hins nýja fangelsis. Gera átti greinarmun á betrun, hegningu og varðhaldi. Einnig átti að byggja yfir helstu valdastofnanir landsins og í húsinu voru því auk fangelsis önnur starfsemi um styttri eða lengri skeið, svo sem ráð- og dómhús Reykjavíkur, Landsréttur og Hæstiréttur. Einnig var í húsinu Bæjarþingssalur þar sem fram fóru kosningar, bæjarstjórnarfundir og jafnvel dansleikir. Húsið var samt lengst af nýtt sem fangelsi eða í 144 ár.

Hegningarhus_baejarthingsalur_21062016_GGG

Bæjarþingssalurinn

Eftir langan aðdraganda varð svo úr að húsið var byggt árið 1872 eftir teikningum Klents byggingarmeistara. Ekki tókst þó að fylgja eftir hugmyndum um að gera greinarmun á betrunar-, hegningar- eða varðhaldshúsakynnum. Embættismenn ríkisins töldu að erfitt yrði að koma upp heraga í fangelsinu eins og tíðkaðist í nágrannalöndunum þar sem Íslendingar hefðu enga reynslu af her og töldu þeir að heimilisagi mundi henta betur. Ekki var heldur gerður mikill greinarmunur á þeim hluta hússins sem innihélt valdastofnanir eða fangelsi. Húsið var heldur frumstætt og með frekar gamaldags ofnum án vatnsveitu og vatnssalerna. Það má því segja að langur vegur hafi verið frá þeim nýju fangelsisbyggingum sem risu erlendis og þessa nýja fangelsis á Skólavörðustíg. Engu að síður er Hegningarhúsið sögulegt tákn aukinnar mannúðar í refsingum hér á landi þar sem að aflagðar voru líkamlegar refsingar á sama tíma og húsið reis. Húsið er byggt í nýklassískum stíl og svipar mikið til húsa sem byggt voru í Kaupamannahöfn á sama tíma. Það sker sig frá flestum öðrum steinhlöðnum húsum á Íslandi þar sem notað var bæði grágrýti og hraungrýti við byggingu þess. Ætla má að ástæðan fyrir að hraungrýti hafi verið notað sé vegna þess að grágrýtið var bæði dýrt í vinnslu og seinlegt að vinna með það.

Hegningarhus_21062016_GGG_10

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur árið 1967 stóð til að rífa húsið en ekki varð af þeim áformum og húsið var friðað í B-flokki af menntamálaráðherra 18. ágúst 1978 samkvæmt þjóðminjalögum nr. 52/1969 og telst því nú friðlýst.

Ákveðið var að loka fangelsinu árið 2016 og finna því nýja notkun. Um þessar mundir standa yfir endurbætur á húsinu á vegum Minjaverndar. Spennandi verður að sjá hvaða hlutverk Hegningarhúsið fær í framtíðinni og hvernig það muni áfram setja svip sinn á miðbæ Reykjavíkur, nú vonandi meira opið almenningi þar sem hægt verður að upplifa sögu þess.

Hegningarhus_21062016_GGG_5

Texti unninn upp úr greinargerðinni Saga Hegningarhússins við Skólavörðustíg, sem tekin var saman af Hjörleifi Stefánssyni arkitekt vegna undirbúnings að viðgerðum Hegningarhússins. Minjastofnun veitti styrk úr Húsafriðunarsjóði til verksins sem kom út í ágúst 2017.