19. desember - Skollahringur

19des

Yst í Hofsárdal í Vopnafirði er jörðin Hof, gamalt höfuðból sem getið er í Landnámu. Jörðin hefur skipað stóran sess í sögu Vopnafjarðar frá fyrstu tíð. Þaðan kemur ætt Hofverja, en þeir ásamt Krossvíkingum fóru með goðorð í Vopnafirði. Talið er að kirkja hafi verið reist á Hofi fljótlega eftir kristnitöku en kirkjan sem þar stendur í dag var reist árið 1901.

Með svo langa byggðasögu kemur það ekki á óvart að töluvert sé um menningarminjar á jörðinni. Þar má í dag greina ummerki um garða, tóftir af útihúsum, mögulegt hof og ýmislegt fleira sem eftir stendur sem vitnisburður um líf fyrrum ábúenda jarðarinnar. Matthías Þórðarson, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti árið 1930 fjóra minjastaði í landi Hofs. Þar má nefna hoftóft, ferhyrnda girðingu, fornlega girðingu og hringlaga tóft fyrir ofan bæinn sem gengur undir nafninu Skollahringur.

Skollahringur

Nafngift þessarar hringlaga tóftar hefur vakið athygli og margir velt fyrir sér hvert hlutverk hennar hefur verið fyrst hún fékk slíka nafngift. Orðið Skollahringur finnst ekki í orðabókum og ekki er vitað um annan stað á Íslandi sem ber þetta nafn. Tóft Skollahrings er staðsett skammt vestan við gamla bæinn á Hofi, en í túninu þar er lægð sem bæjarlækurinn rennur eftir og kallast Grófardalur. Skollahringur er grasi vaxinn en gróðurfar á veggjum sker sig úr umhverfinu. Suðvesturhluti tóftarinnar er þó nokkuð sokkinn en á suðurhlið hennar hefur verið inngangur. Sigurður Vigfússon segir í lýsingu sinni árið 1893: „Fyrir ofan bæinn, í framhaldi af geilinni sem áðr er nefnd, er kringlótt tóft allmikil, með veggjum miklum og vallgrónum. Stórar dyr eru á tóftinni, er snúa til suðrs; hún er um 9 faðma í þvermál. Ekki verðr séð til hvers þessi girðing hefir verið höfð. Enn tóftin er nú kölluð Skollahringr.“

Afstodumynd-ur-drona

Skollahringur er innan rauða hringsins.

Hlutverk tóftarinnar hefur því verið óþekkt um aldamótin 1900 en flestum heimildum ber saman um að hún sé forn. Hvert hlutverk hennar hefur verið er enn tilgátum háð, og þær eru ófáar. Nafngift tóftarinnar kemur þar sterkt inn en flestar ályktanir um hlutverk hennar hafa verið dregnar út frá Skollahringsnafninu.

Orðið skolli getur þýtt kölski, djöfull eða refur. Með kristnitökunni breyttist merking orða eins og blót og ragn yfir í gerólíka og jafnvel neikvæða merkingu. Hafa menn velt vöngum yfir því hvort meiningin með að kalla tóftina Skollahring hafi verið að eigna hana kölska. Í ljósi þess hafa sumir einnig velt upp þeim möguleika að þarna hafi gamla hofið staðið.

Önnur tilgáta um hlutverk tóftarinnar byggð á nafninu tengist gömlum munnmælum þar sem sagt er að minjarnar séu leifar varnarvirkis frá fornöld. Á fyrsta áratug 20. aldar þegar verið var að leiða vatn inn að bæ sagði verktakinn að við skurðargerðina hefðu komið í ljós samanhrunin jarðgöng sem höfðu stefnu frá bænum og að rústinni. Lengi var hægt að sjá móta fyrir lægð í túninu þar sem göngin höfðu mögulega verið. Því var dregin sú ályktun að jarðgöngin hefðu verið leynigöng sem lágu frá bænum yfir í varnarvirkið. Nafngift tóftarinnar er þá nokkuð rökrétt því skolli gat einnig þýtt óvinur.

DSC05234

Skollahringur fyrir miðri mynd, horft til suðausturs.

Aðrar rannsóknir en fornleifaskráning hafa ekki verið gerðar á Skollahring, svo aldur tóftarinnar og gerð eru enn á huldu. Við fáum því áfram að velta vöngum yfir því hver tilgangur þessa mannvirkis kann að hafa verið. Hvað heldur þú?

Textinn er byggður á upplýsingum úr sunnudagsblaði Tímans frá 1970, heimildaskráningu fornleifa sem unnin var af Byggðasafni Skagfirðinga 2004, Sveitir og jarðir í Múlaþingi, heimildasíðu Vopnafjarðarhrepps og grein Sigurðar Vigfússonar um rannsókn í Austfirðingafjórðungi 1893.