20. desember - Laugarbrekkuþing

20des

Laugarbrekka er fornt bæjarstæði á sunnanverðu Snæfellsnesi, stutt vestan við þorpið Hellnar. Laugarbrekku er getið í Landnámu þegar Sigmundur, sonur Ketils þistils, settist þar að eftir að hafa numið land milli Hellishrauns og Beruvíkurhrauns. Sagnir segja að Sigmundur hafi verið heygður við bæinn og á þar að heita Sigmundarhaugur. Ekki hefur þó tekist að staðsetja hann nákvæmlega. Byggð á Laugarbrekku lagðist af árið 1887 en stuttu áður, árið 1881, hafði kirkjusetrið og kirkjan verið færð til Hellna. Enn má vel sjá rústir bæjar og kirkju á Laugarbrekku, ásamt að minnsta kosti einni þinghústóft. Á Laugarbrekku var lengi vel þingstaður undir nafninu Laugarbrekkuþing og á þinghald að hafa farið fram á Þinghamri svokölluðum sem er stuttu sunnan við bæjarstæðið.

Laugarbrekka

Nokkrar sögufrægar persónur, aðrar en Sigmundur landnámsmaður, eiga rætur sínar að rekja til Laugarbrekku. Þeirra þekktust er Guðríður Þorbjarnardóttir sem kemur mikið við sögu í Eiríks sögu rauða. Á hún meðal annars að hafa verið fyrsta hvíta konan til að eignast barn í Ameríku, nánar tiltekið á Vínlandi. Síðar á Guðríður að hafa lagt leið sína í pílagrímsferð til Rómarborgar fótgangandi þvert yfir Evrópu. Guðríður er því talin hafa verið ein víðförlasta kona heims á sínum tíma. Stendur nú minnisvarði um Guðríði skammt frá bæjarstæði Laugarbrekku. Á honum er stytta sem sýnir Guðríði standandi á skipi með son sinn á herðum sér.

Minnisvardi

Þótt Guðríður sé vel þekkt úr fornsögunum er hún þó eflaust ekki þekktasti Íslendingurinn sem hefur tengingu við Laugarbrekku, sér í lagi Laugarbrekkuþingstaðinn. Þann heiður á líklega Björn Pétursson, betur þekktur sem Axlar-Björn. Björn hefur lengi verið þekktur sem eini fjöldamorðingi Íslandssögunnar. Samkvæmt heimildum viðurkenndi Björn að hafa orðið níu manns að bana, en þjóðsögur segja að raunveruleg tala gæti hafa verið á bilinu 14 til 18 manns. Axlar-Björn var tekinn af lífi á Laugarbrekkuþingi árið 1596. Til eru áreiðanlegar heimildir um að allavega fimm aðrir hafi einnig verið teknir þar af lífi, en þeir eru:

Gísli Tómasson - 1635

Ónafngreind kona - 1636

Sigríður Gunnarsdóttir - 1656

Ingimundur Illugason & Valgerður Jónsdóttir - 1659

Þó að brot Axlar-Bjarnar hafi verið hrottaleg má segja að aftaka hans hafi ekki síður verið hrottaleg. Í annálum má finna eftirfarandi lýsingu:

Þennan vetur urðu morðverk Björns í Öxl vestur uppvís. Axlar-Björn viðurkenndi að hafa myrt 9 menn, suma til fjár en einnig aðra fátæka sem voru í vegi hans. Þegar honum varð aflskortur veitti kona hans honum lið. Hún brá snæri um háls manna og rotaði þá með sleggju. Björn gróf hina dauðu í heygarði og fjósi. Fundust bein fleiri manna en Björn viðurkenndi að hafa drepið en hann kvaðst hafa fundið þá dauða og ekki nennt að fara með þá til kirkju. Björn var dæmdur og tekinn af lífi á Laugarbrekkuþingi. Var hann fyrst limmarinn með sleggjum og síðan afhöfðaður. Loks var hann sundur stykkjaður og festur á stengur. Kona Björns var ólétt og því ekki deydd. Yfirdómari var Jón Jónsson lögmaður.

Annálar I, bls. 180 (Skarðsannáll)

Meinta dys Axlar-Bjarnar má finna við Laugarbrekkuþing, stuttu austan við kirkjugarðinn. Dysina og ýmsar aðrar minjar á jörðinni, s.s. kirkjugarð, bæjarstæði og þingstað, friðlýsti Matthías Þórðarson þáverandi þjóðminjavörður árið 1928.

Meint-dysMeint dys Axlar-Bjarnar.

Texti byggður á upplýsingum úr Landnámabók, Skarðsannál, Eiríks sögu rauða og heimasíðu rannsóknarverkefnisins Dysjar hinna dæmdu – dhd.hi.is.