21. desember - Nonnahús

21desNonnahús, við Aðalstræti 54A, er eitt elsta hús Akureyrar. Það var byggt árið 1849 og var friðlýst á seinni hluta 20. aldar. Jósef Grímsson gullsmiður byggði húsið og bjó í því til 1858. Þekktasti íbúi hússins var hins vegar Jón Sveinsson, betur þekktur sem Nonni. Hann var aðeins barn að aldri þegar hann flutti í húsið þann 7. júní 1865 ásamt foreldrum sínum og systkinum. Faðir hans lést þegar Nonni var aðeins 11 ára og stóð Sigríður móðir hans þá ein eftir með fimm börn. Tvö yngstu börnin voru tekin í fóstur, elsta dóttirin var send í vist til Kaupmannahafnar en bræðrunum Nonna og Manna bauðst að halda til Frakklands til náms við kaþólskan menntaskóla. Nonni varð síðar heimsfrægur barnabókahöfundur og í dag er æskuheimili hans þekkt undir nafninu Nonnahús. 

Nonna var boðið á Alþingishátíðina 1930 og við það tækifæri var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar. Heimsótti hann þá bæinn sinn og gamla heimilið í fyrsta sinn síðan hann fór þaðan 1869. Húsið var þá nokkuð minna en hann minnti og ástand þess orðið hrörlegt. Fjölmargar fjölskyldur bjuggu í húsinu eftir að fjölskylda Nonna hvarf á braut og flutti síðasti ábúandinn þaðan 1944.

Nonnahús er einlyft timburhús með risþaki og mæniskvisti á framhlið. Viðbygging með skúrþaki er við bakhlið hússins en hún var byggð árið 1859. Húsið stendur á steinhlöðnum og steyptum sökklum og er kjallari undir eldhúsi. Skúrþakið er bárujárnsklætt en önnur þök lögð pappa og listum.

Nonni4

Um miðbik 20. aldar hafði viðhaldi Nonnahúss verið illa sinnt og var húsið því frekar illa farið. Árið 1952 gáfu eigendur hússins Zontaklúbbi Akureyrar húsið þannig að gera mætti þar safn, en meðlimir klúbbsins höfðu áður haft hugmyndir um að heiðra minningu Nonna á einhvern hátt. Konur í Zontaklúbbnum hófust strax handa og tókst þeim að opna safn í húsinu þann 16. nóvember 1957. Safnið hefur verið starfrækt allar götur síðan og ófáir gestir hafa lagt þangað leið sína. Zontakonur gáfu Akureyrarbæ húsið árið 2007 og er það í dag hluti af söfnum Minjasafnsins á Akureyri.

Upplýsingar frá Minjasafninu á Akureyri.