22. desember - Illþurrka

22des

Skarð er í fjalllendinu utarlega á Skarðsströnd, á milli höfuðbýlisins Skarðs og Búðardals sem er fjær sjó. Eftir skarði þessu er leið á milli bæjanna. Leiðin liggur nokkuð hátt, yfir háls. Ef haldið er eftir götunni að austan, frá Búðardal, og gengið áleiðis að Skarði verður fyrir manni regluleg grjótdreif og varða í um 160 m hæð y/s. Grjótdreifin – eða hringurinn – er tæpir sjö metrar í þvermál og þótt grjótið liggi á yfirborðinu virðist það vera meira en aðeins eitt umfar. Varðan er ekki miðjusett á grjóthringnum heldur stendur vestan við miðju, er um 1,5 m í þvermál neðst og mjókkar lítillega upp. Hæðin er um 1,4 m en hrunið hefur úr henni til vesturs. Varðan er ekki vönduð smíð því krossbindingu er aðeins að finna neðst í henni, sem gæti bent til að kunnáttumaður hafi upphaflega hlaðið lága vörðu en ferðamenn svo bætt við hana með því að grípa upp litlar steinhellur úr hringnum og bæta í vörðuna með misjöfnum árangri. Varla er um leiðarvörðu að ræða því leiðin er að öðru leyti ekki vörðuð og væri varðan miðunarvarða hefði hún verið hlaðin upp í skarðinu þar sem hún bæri við himin frá hlíðinni Búðardalsmegin.

Illthurrka

Hér segir ein sagan að kona Geirmundar Heljarskinns landnámsmanns á Skarði (Geirmundarstöðum), Herdís eða Herríður Gautsdóttir, sé grafin. Frá vörðunni sér ekki heim að Skarði því landi hallar enn að Búðardal og Barmi. Gæti einhverjum þótt einkennilegt að velja slíkan legstað þar sem ekki sér á milli leiðis og heimalands Skarðs. Innan fornleifafræðinnar er til sú kenning að fólk hafi í heiðnum sið gjarnan verið jarðsett á landamerkjum og oft einmitt við leiðir. Mögulega hafa landamerki verið þarna á hálsinum milli Skarðs og Barms eða Búðardals í fyrndinni. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá Illþurrkudys hvar galdrakona eða völva á að liggja sem ekki vildi heyra í klukknahljómi frá Skarði né Búðardal, en leiti ber á milli dysjarinnar og Búðardal.

IMG_7160Afstaða Illþurrku og leiðarinnar á milli bæjanna, horft í átt að Barmi og Búðardal.

Í tengslum við söguna af konu Geirmundar er sagt að svæðið þar sem grjóthringurinn og varðan eru kallist Illþurrka og telur Árni Björnsson að þar hafi verið mýri í fyrndinni og leiðir að því líkum að steinadreifin s´se til komin vegna samgöngubóta; reynt hafi verið að þurrka mýrina til að komast þurrum fótum yfir kelduna. Séra Friðrik Eggerz segir í sóknalýsingu sinni frá 1846 að talið sé að Herdís/Herríður hafi fólgið fé sitt í gili þar skammt frá, Illþurkugili eða Harisargili, og sjálf verið dysjuð þar sem varðan er nú. Í sýslu- og sóknalýsingu Kristjáns Magnúsens frá 1842 nefnir hann dys á hálsinum í skarðinu þar sem Illþurrka hafi forðum verið heygð á þessum sama stað. Þarna er komin fram hugmyndin um að Illþurrka sé nafn á konu sem hvorki sr. Friðrik né Árni taka upp.

IMG_1038-MagnusIllþurrka og grjóthringurinn, horft til suðurs.

Bergsveinn Birgisson gerir Illþurrku að umfjöllunarefni í bók sinni Leitin að svarta víkingnum. Kvennamál Geirmundar eru nokkuð á huldu og málum blandið hvort hann hafi átt fleiri en eina konu og þá jafnvel samtímis. Í gegnum tíðina hafa heimamenn tengt meint leiði við konu Geirmundar heljarskinns. Spurningin sem Bergsveinn veltir upp er hverslags nafn Illþurrka sé og hvaðan sú kona er komin? Af bók Bergsveins má skilja að þjóðerni einnar konu Geirmundar – Illþurrku – sé mikilvægt púsl í kenningum hans um Bjarmalandsferðir föður Geirmundar og hans sjálfs og tengingu þeirra við fólkið þar. Bjarmaland var heiti á löndunum í kringum Hvítahaf. Ef rétt reynist að um legstað sé að ræða og að kona Geirmundar, Illþurrka, liggi í gröfinni gæti DNA/strontíum ísótópa-rannsókn á beinum/tönnum veitt upplýsingar um hvar í heiminum grafarbúinn var upprunninn.

Textinn er unninn upp úr Árbók Ferðafélags Íslands 2011, Sýslu- og sóknalýsingum – Dalasýsla 2003, Þjóðsögum Jóns Árnasonar 1885, Leitin að svarta víkingnum 2016 (bls. 296-306) og Adolf Friðriksson í Hlutavelta tímans 2004.