23. desember - Skaftafell

23des

Náttúruöflin hafa lengi haft mikil áhrif á búskap á Íslandi. Ef til vill er eitt sýnilegasta dæmið um það að finna í Skaftafelli undir Vatnajökli.

Eldstöðin Grímsvötn er í Vatnajökli og hlaupin frá henni eru kennd við Skeiðará. Skeiðarárjökull er stærstur þeirra jökla sem ganga frá Vatnajökli. Að formi til er hann daljökull, hinn mesti í Evrópu. Undir jöklinum er stór og mikil á sem hefur upptök sín í Grímsvötnum. Milli Skeiðarárjökuls og sjávar breiðir úr sér víðfeðmasti jökulsandur Íslands. Flatarmál hans er um 1.000 ferkílómetrar. Skeiðarárhlaup hafa frá landnámi verið um 45 talsins, bæði stór og smá. Skeiðarárhlaupið 1996 var til dæmis mjög stórt, enda breyttist Skeiðará þá í næst stærsta fljót í heimi í tvo daga, það var einungis Amasonfljótið sem var stærra.

Afleiðingar Skeiðarárhlaupa á mannlíf í Skaftafelli hafa verið miklar í gegnum tíðina. Skaftafell er gömul bújörð og er meðal annars nefnd í Brennu-Njáls sögu. Ekki er vitað hvar bærinn stóð upphaflega en fram á 19. öld var bærinn neðst í Skaftafellsbrekkum. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson komu að Skaftafelli árið 1757 og sögðu umhverfi bæjarins „hið fegursta, alvaxið jurtum, birki, víði og reynivið“. Þeir greina frá því að ævaforn hús séu í Skaftafelli og Svínafelli og sagt sé að þau séu frá 11. öld. Þeir efast þó um það þótt húsin séu stærri en venja er til og viðir þeirra úr hinu gamla rauðgreni. Ætla þeir að bæir þessir hafi sennilega verið endurreistir oftar en einu sinni.

Um aldamótin 1800 var orðið ljóst að ekki væri lengur hægt að halda bænum á gamla bæjarstæðinu í byggð vegna ágangs Skeiðarár og var undirlendið undir brekkunum þá nánast alveg horfið undir sand. Síðasti ábúandinn í gamla bænum var Guðný Þorsteinsdóttir, ekkja Bjarna Jónssonar, sem bjó í gamla Skaftafelli árin 1833-1849.

Svo vel vill til að varðveitt er ein úttekt jarðarhúsa bæjarins í gamla Skaftafelli, gerð eftir fráfall Bjarna Jónssonar, 20. maí, 1834. Þar eru talin upp eftirtalin hús:

1. Skálahús,

2. Búrhús,

3. Bæjardyrnar,

4. Eldhúsið,

5. Fjósið,

6. Heyhlaða,

7. Eitt hús í selinu

Skaftafell var lengi einbýli en árið 1832 byggði Jón, sonur Bjarna og Guðnýjar, sér bæ ofar í brekkunum þar sem heitir Sel og var líklega áður selstaða frá gamla bænum. Brynjólfur, mágur Jóns, virðist hafa byggt sér bæ í Gömlutúnum beint upp af gamla Skaftafell árið 1833, sá bær var síðan fluttur upp í Hæðir um 1864. Þegar Þorsteinn Bjarnason tók svo við Skaftafelli af móður sinni árið 1849/1850 flutti hann bæinn upp að Bölta.

BoltiBæjarstæði Bölta.

Gamli bærinn er nú nánast alveg horfinn undir sand eða blásinn burt og það eina sem sést er nyrsti hluti bæjarhólsins sem liggur í boga á um 16 m löngum kafla neðst í svokölluð Gömlutúnum. Hæstur er hóllinn um 3 m. Um 3-4 hólf voru greinileg í hólnum árið 2004, en þau voru ekki jafn greinileg við skráningu 10 árum seinna og gróður var þá orðinn verulegur á og við tóftina.

110-1018_IMG

Enn standa hús á þessum þremur stöðum í brekkunum í Skaftafelli; Bölta, Seli og Hæðum, þótt búskapur sé löngu aflagður. Núverandi hús í Seli voru byggð árið 1912 og friðlýst árið 1972. Þau eru nú í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands ásamt tveimur hlöðum byggðum um og fyrir miðja 19. öld. Byggð lagðist af í Seli árið 1946.

Þjóðgarður var stofnaður í Skaftafelli árið 1967 og þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008 rann Skaftajökulsþjóðgarður inn í hann.

Búsetulandslag Skaftafells er ungt en afar merkilegt fyrir þær sakir að þar má sjá greinileg áhrif náttúruaflanna á búsetu mannsins. Gömlu túnin eru nú að hverfa í sinu og kjarr og eftir örfáa áratugi verður þetta stórmerkilega sýnidæmi um samspil manns og náttúru horfið að mestu ef ekkert verður að gert.

110-1044_IMG

Texti er unninn upp úr fornleifaskráningu Fornleifaverndar ríkisins 2005, fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands ses. 2014, byggingarlýsingu Sels frá 2008, heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs og riti Þórðar Tómassonar Skaftafell. Þættir úr sögu ættarseturs og atvinnuhátta.