3. desember - Krókur á Garðaholti

3des

Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Krókur stendur í næsta nágrenni samkomuhússins á Garðaholti. Sjálft húsið byggðist upp í áföngum. Árið 1923 var aðeins baðstofa og eldhús í einni burst auk lítils skúrs við útidyrnar en síðar bættust við burstir við báða enda. Um vorið 1934 fékk Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir ábúð á Króki, en maður hennar var Vilmundur Gíslason. Þau hjónin áttu fjögur börn og Guðrún Sveinsdóttir móðir Vilmundar bjó einnig hjá þeim. Í Króki var búið allt til ársins 1985 þegar Þorbjörg lést.

Krokur-PHA

Afkomendur Þorbjargar og Vilmundar í Króki gáfu Garðabæ bæjarhúsin í Króki ásamt útihúsum og innbúi árið 1998 með því skilyrði að bærinn yrði endurbyggður. Jón Nordsteien arkitekt stjórnaði endurgerð bæjarins og Einar Hjartarson húsasmíðameistari var fenginn til að vinna verkið. Systurnar Elín og Vilborg Vilmundardætur höfðu umsjón með uppröðun húsmuna. Bærinn er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar. Bærinn er opinn almenningi til sýnis á sunnudögum á sumrin og oft einnig á aðventunni. Í einni burst Króks er vinnuaðstaða fyrir fræðimenn eða rithöfunda sem Fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar hefur umsjón með. Krókur stendur innan marka verndarsvæðis í byggð í Garðahverfi á Álftanesi sem nýtur sérstakrar verndar í samræmi við lög nr. 87/2015. Skjal til staðfestingar á ákvörðun bæjarstjórnar í Garðabæ um að gera Garðahverfi að verndarsvæði í byggð var staðfest af Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra þann 24. október 2017. Krókur er enn sem komið er eina húsið innan marka verndarsvæðisins sem hefur verið endurgert í upprunalegri mynd.

Garaholt-20101002-055_rni-G_Alta_okt2010Ljósmynd: Alta. Tekin í tengslum við vinnslu verndarsvæðis í byggð.

(Texti byggður á upplýsingum á heimasíðum Garðabæjar, Stjórnarráðs Íslands og Minjastofnunar Íslands.)