4. desember - Bláskeggsárbrú

4des

Bláskeggsárbrú í Hvalfirði var upphaflega byggð árið 1907 og þótti þá brautryðjendaverk. Hún var fyrsta steinsteypta brúin sem byggð var á Íslandi, utan Reykjavíkur. Í tilefni af 100 ára afmæli brúarinnar árið 2007 var ákveðið að lagfæra hana og sumardaginn fyrsta árið 2010 var brúin tekin í notkun á ný eftir að hafa verið færð í upprunalegt horf.

Notkun steinsteypu við byggingu Bláskeggsárbrúar var frumraun í efnisvali. Á þeim tíma timburbrýr, sem margar höfðu verið byggðar seinustu 20-30 árin áður. Á þeim var brúarhafið yfirleitt ekki langt en þegar brýrnar voru farnar að nálgast um og yfir 20 m var erfitt að koma nægilega traustum timburbrúm við. Þá var ekki síður vandamál að þær þurftu mikið viðhald. Byrjað var að brúa stærstu ár landsins með stálbrúm og þá einna helst hengibrúm, en þær voru dýr mannvirki á þeim tíma. Það var svo að frumkvæði Jóns Þorlákssonar, þáverandi landsverkfræðings, að ákveðið var að nota steinsteypu við brúarsmíðina. Jóni hugnuðust ekki timburbrýrnar og var hann jafnframt áhugamaður og frumkvöðull við notkun steinsteypu til bygginga. Hins vegar hafði Jón fengið litla menntun í hönnun og notkun steinsteypu í burðarvirkjum, því þessi fræði voru ný á námstíma hans í Kaupmannahöfn um aldamótin 1900. Í Reykjavík höfðu þó skömmu fyrr verið steyptir bogar yfir Lækinn, sem kunna að hafa verið fyrirmynd að brúnni að einhverju leyti. Notkun steinsteypu í vitum og húsum var þá einnig hafin hérlendis.

Ákvað Jón að byggja steypta bogabrú yfir Bláskeggsá en sleppti að hafa í henni járnalögn. Útsjónarsemi hefur þurft hjá vinnuhópnum til þess að komast fram úr verkinu með þeim fábrotnu verkfærum sem þá var að hafa. Ekki eru tiltækar frásagnir af brúarsmíðinni, en hún virðist hafa gengið vel því brúin reyndist mun ódýrari en gert var ráð fyrir. Brúarsmíðin virðist því hafa heppnast vel og hinn hái aldur hennar, full hundrað ár, með bogann heilan og óraskaðan, staðfestir það.

DSCN1363

Ákveðið var að endurgera hina 100 ára gömlu brú eins og hún var upphaflega byggð. Verkið var unnið sumrin 2008 og 2009 og sá Vegagerðin um verklegar framkvæmdir. Byrjað var á því að fjarlægja seinni tíma viðbætur og styrkingar. Afgangurinn af timburpalli og járnbitum sem settir höfðu verið á brúna var tekinn ofan af brúnni og jarðefnum mokað ofan af henni og frá endunum. Þá voru byggðir verkpallar undir bogann til þess að tryggja að hann brotnaði ekki. Bogabreikkun var söguð frá og fjarlægð, ásamt steyptu vængjunum. Komu þá gömlu grjóthleðslurnar í ljós inni í fyllingunni á bak við steyptu vængina. Hressa þurfti upp á hleðslurnar, lagfæra steypta bogann lítillega og steypa nýjan vegg að ofanverðu við bogann, en sá að neðan var inni í fyllingunni en reyndist of lélegur, svo einnig þurfti að steypa hann á ný. Smíðað var handrið að fyrirmynd þess gamla eins og það leit út á mynd sem tekin var í kringum 1920. Að lokum var aðkomuvegurinn lagaður lítillega.

Brúin er eina brúin á Íslandi sem hefur verið friðlýst sem fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti brúna árið 1978.

030PB200016-Copy

Textinn er unninn upp úr grein eftir Jakob Hálfdanarson sem birt var í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar.