5. desember - Helgustaðanáma

5des

Í landi Helgustaða við Reyðarfjörð, í brattri hlíð um 100 m ofan við veginn út fyrrum Helgustaðahrepp, er gömul silfurbergsnáma sem gengur undir nafninu Helgustaðanáma. Náman er sérstök að því leyti að í henni hafa fundist stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum. Silfurberg eru tærir kristallar af steindartegundinni kalsít. Bergið hafði veigamikið hlutverk í þróun margvíslegra rannsókna á eiginleikum ljóss og leiddu margar þeirra til uppgötvana á sviði eðlis-, efna- og jarðfræði á 19. og 20. öld. Silfurbergið hafði meðal annars áhrif á verk söguþekktra vísindamanna, t.d. Isaac Newton, Jean-Baptise Biot og Albert Einstein.

20210831_104558

Upphaf silfubergstöku í námunni má rekja aftur til 17. aldar þegar Friðrik þriðji danakonungur sendi danskan steinhöggvara til að starfa við silfurbergstöku og afla annarra fágætra steintegunda á svæðinu árið 1668. Frá þeim tíma var þessi fágæta steintegund sótt í námuna allt fram á miðja 20. öld. Fyrst var öllum heimilt að sækja sér berg á svæðið en um miðja 19. öld var náman sett á leigu og var stórtækasti námurekstur hennar á tímabilinu 1855-1872. Námurekstri var hætt á Helgustöðum árið 1924. Það voru þó ekki endalok iðnaðar á svæðinu en á fimmta áratug 20. aldar var þar settur upp búnaður til að mala afgangssilfurbergsmola.

Náman samanstendur í raun af tveimur námum, þeirri efri og eldri annars vegar og þeirri neðri og yngri hins vegar. Efri og eldri náman er sporöskjulaga geil í fjallshlíðinni og liggur inngangur hennar í gegnum klettavegg. Ummerki um námurekstur eru sjáanlegar á milli námunnar og svokallaðs Silfurlækjar. Þar er grjót- og torfhlaðin kofatóft sem talin er tilheyra eldra skeiði námurekstursins. Framan og austan við efri námumunnann eru minjar frá 1947-1948 þegar sett var upp aðstaða og búnaður til að mala afgangsmola silfurbergsins, þ.e. steinsteyptir húsgrunnar og hluti af mótor sem knúði myllu sem muldi silfurbergsmolana.

IMG_0532

Neðri náman var grafin út á árunum 1921-1925 og var um leið tengd efri og eldri námunni með göngum. Gangamunni yngri námunnar er um 60 m neðan við þá eldri og er sú náma öðruvísi en sú eldri að því leyti að göng hafa verið gerð inn í hlíðina, á meðan eldri náman er geil í fjallshlíðinni. Inn í göngunum er hlaðinn og steyptur veggur en sams konar veggur er hlaðinn út frá austurhlið ganganna í gangaopinu. Göngin á milli námanna tveggja hafa fyllst af grjóti vegna hruns og vatnsframburðar í gegnum tíðina. Í dag eru aðeins um 10 m af göngunum aðgengilegir. Gólfbotn ganganna hefur verið hreinsaður að nokkru leyti. Sagt er að þar undir leynist járnteinar frá vinnslutíma námunnar.

Helgustaðanáma er ekki aðeins mikilvægt náttúruvætti heldur er hún einnig mikilvægur minjastaður. Staðurinn telst til blandaðra minja, þ.e. menningarminja sem einnig teljast til náttúruminja. Helgustaðanáma er eitt fárra dæma um námugröft og nýtingu jarðefna á Íslandi og er gildi námunnar ótvírætt fyrir atvinnusögu landsins sem og alþjóðlega vísindasögu.

20210831_105743

 

Texti byggður á upplýsingum úr fornleifaskráningarskýrslu Byggðasafns Skagafjarðar og af heimasíðum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Umhverfisstofnunar.