6. desember - Forna-Lá

6des_1638872363314

Dr. Kristján Eldjárn er afmælisbarn dagsins en hann fæddist á þessum degi árið 1916.  Af því tilefni er í umslagi dagsins kotið Forna-Lá í Eyrarsveit (Grundarfjarðarbæ) á Snæfellsnesi. Forna-Lá er gangabær frá síðmiðöldum, enn örfárra slíkra sem rannsakaður hefur verið í heild sinni. Kristján gróf í bæinn sumarið 1942 og taldi sig í fyrstu vera að rannsaka hoftóft, en annað kom í ljós.

Forna-Lá stendur á tungu, sem virðist gamalt tún, austan við bæinn á Neðri-Lá undir fjallinu Stöð. Neðan við Lárbæina er Lárvaðall, sem gengur inn úr sjávarlóninu Lárósi. Neðri-Lá fór í eyði fyrir 1940 og voru þá þekktar allmiklar rústir austan bæjarins, nefndar Forna-Lá. Sagt er að landnámskonan Sleif hafi numið land í Lá og haft bæ sinn í Fornu-Lá. Sá bær sem Kristján gróf upp er ekki meintur landnámsbær Sleifar, en hann taldi ljóst að eldri minjar væru undir bænum, þótt hann treysti sér ekki til að grafa þær upp á þeirri stundu.

Bæjarhúsin að Fornu-Lá samanstanda af fjórum húsum tengdum með göngum. Þegar komið er inn úr bæjardyrunum er fjós til vinstri og skáli til hægri, sé gengið inn eftir bæjargöngunum er eldhús til vinstri, innan við fjósið, og baðstofa til hægri, innan við skálann. Helsta byggingarefni hússins er grjót og var það bæði að finna í miklu magni í veggjum en einnig voru gólfin hellulögð að hluta. Sérkennilegast þótti Kristjáni við bæinn hið mikla ræsakerfi sem finna mátti í gólfum hans. Ræsi liggur úr öllum húsum bæjarins nema baðstofunni. Ræsin sameinast í aðalræsi sem liggur fram bæjargöngin og út. Göngin halla fram og hafa því haft sæmilegan vatnshalla. Ræsin eru öll lögð steinum og hellur yfir. Hafa þau verið ætluð til að taka við leka og „ræsta“ húsið.

Forna-la-teikning

Bæjarrústirnar voru aldursgreindar bæði út frá formgerð hússins, rituðum heimildum og þeim gripum sem þar fundust. Uppgröfturinn fór fram fyrir tíma kolefnisaldursgreininga og því voru þetta þær bestu aðferðir sem til voru til aldursgreiningar á þessum tíma. Þess ber að geta að á Snæfellsnesinu finnast sjaldnast nothæf, söguleg gjóskulög sem sagt geta til um aldur minja. Þeir gripir sem fundust og var skilað til Þjóðminjasafns Íslands eru: þrjú brot af litlum, steyptum eirpotti, met úr blýi, snældusnúður, sleggjuhaus, þrjú brýni, tvö ókennileg járnstykki. Af þessum gripum var eirpotturinn sá eini sem hægt var að tímasetja, en hann er frá 15.-17. öld. Þar sem bæjarins er ekki getið í Jarðabók Árna og Páls frá upphafi 18. aldar má gera ráð fyrir að hann hafi verið kominn í eyði löngu fyrir þann tíma og út frá þessum upplýsingum tímasetur Kristján þetta yngsta búsetuskeið í Fornu-Lá til 1450-1550.

Adrir-gripir

Fornleifauppgröfturinn á Fornu-Lá er einn af fáum sem fram hafa farið í Eyrarsveit. Að lokinni rannsókn fyllti Kristján upp í bæjarrústina og er hún því ógreinileg á yfirborði. Minjarnar voru skráðar árið 2004 við aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu, hafði þá trjáplöntum verið plantað ofan í minjarnar sem því miður gerist alltof oft hér á landi.

Pottur

Textinn er unninn upp úr grein Kristjáns í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1949-50: Tvennar bæjarrústir frá seinni öldum.