7. desember - Ásvallagata 67

7des

Árið 1932 voru samþykkt á Alþingi lög um byggingarsamvinnufélög. Tilgangur laganna var að auðvelda efnaminna fólki aðgang að lánsfé til húsbygginga án beins ríkisstyrks. Fyrsta félagið sem stofnað var á grundvelli hinna nýju laga var Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur og var það stofnað árið 1932. Sama ár hóf félagið undirbúning að byggingu 33 húsa á reit í vesturbæ Reykjavíkur. Húsin sem þar risu voru annars vegar tvíbýlishús og hins vegar einbýlishús í tveimur stærðum. Tvíbýlishúsin og stærri einbýlishúsin voru byggð eftir teikningu Axels Sveinssonar verkfræðings en minni einbýlishúsin voru hönnuð af Þóri Baldvinssyni arkitekt. „Þórishúsin“ sem svo voru kölluð voru í teningsstíl í anda Bauhaus-skólans, tvílyft með horngluggum, inndregnum svölum og lágreistu skáþaki, alls tuttugu að tölu. Tíu Þórishúsanna voru steinsteypt en hin voru timburhús, ýmist klædd bárujárni eða forsköluð. Þórir nam arkitektúr í San Francisco og kynntist þar forskölun, aðferð til að verja útveggi timburhúsa með múrhúð. Utan á borðaklædda timburgrind er lagður bikpappi og sinkhúðað net. Á netið var kastað venjulegri múrhúð svo fullbúið bar húsið öll útlitseinkenni steinhúss. Forskölun var fyrst notuð hér á landi árið 1934 í verslunarhúsi sem Þórir teiknaði fyrir KRON í Bankastræti 2.

Asvallagata-67

Samvinnuhúsin í Vesturbænum vöktu athygli bæjarbúa á árum heimskreppunnar enda fólst í þeim fyrirheit um hagkvæmt og fallegt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Múrhúðuðu timburhúsin voru kölluð Eysteinshús með vísan í nafn Eysteins Jónssonar ráðherra sem bjó í hverfinu. Bygging fyrstu samvinnuhúsanna tók aðeins átta mánuði sem þótti tíðindum sæta. Vonir stóðu til að múrhúðin á timburhúsunum yrði í senn fegurri og endingarbetri en bárujárn. Frágangur stoðnets og lista undir múrhúðinni reyndist þó misvandaður og með tímanum mynduðust sprungur í múr margra húsa. Flestum Þórishúsum sem í upphafi voru með forskölun hefur síðar verið breytt með misjöfnum árangri. Einungis eitt hús af þeirri gerð hefur varðveist með upphaflegri múráferð, heimili Eysteins Jónssonar ráðherra við Ásvallagötu 67 sem byggt var árið 1934. Ytra borð þess var friðað af mennta- og menningarmálaráðherra árið 2011.

PastedGraphic-1

Texti byggður á upplýsingum úr nýútgefinni bók um Þóri Baldvinsson arkitekt.