8. desember - Kirkjugarðurinn á Bæ í Trékyllisvík

8des

Í Árneshreppi á Ströndum, nyrsta hreppi Strandasýslu, er að finna mikilfenglegt landslag. Lítið er um undirlendi en hrikaleg fjöll þeim mun meira áberandi. Í Trékyllisvík er að finna nánast eina undirlendið í Árneshreppi og þar hefur landbúnaður verið í öndvegi. Sagan segir að hingað hafi Finnbogi rammi, söguhetja Finnboga sögu ramma, flutt og reist sér bæ fríðan sem talinn er vera bærinn Bær. Í túninu fram af bæjarhólnum á Bæ er kirkjugarður afmarkaður af ferhyrndu garðlagi úr torfi. Sagnir herma að um sé að ræða kirkjugarð Finnboga ramma og telja margir sig jafnvel vita hvar hann hvíli í garðinum. Talið er að kirkja hafi verið á Bæ í Trékyllisvík áður en Árneskirkja var byggð einhvern tímann á 13. öld. Talið er að kirkjan hafi síðan verið flutt að Árnesi og sett niður þar sem fólk hafi séð ljós loga á kvöldin. Var þar talinn heilagur staður.

BaerTrekyllisvik

Garðurinn er um 20 x 22 m að stærð og mynda veggir hans því sem næst beina línu en eru bogmyndaðir í hornunum. Útveggir garðsins eru töluvert hærri en þúfurnar innan veggja og ná allt að 0,7m hæð. Hlið er á garðlaginu í suðvestri í átt að bæjarhólnum. Stórþýft er í garðinum og því erfitt að greina leiði á yfirborði en fyrir miðju hans er að finna ógreinilega tóft. Ekkert grjót er að sjá í tóftinni, sem snýr í norðaustur-suðvestur og er um 8 m á lengd og 7 m á breidd. Hér er talin vera tóft kirkjunnar á Bæ.

Kirkjugarðurinn á Bæ er talinn vera mjög forn og hefur notkun á honum að öllum líkindum lagst af þegar kirkjan var flutt að Árnesi á 13. öld. Hér er því að finna heillegar minjar kirkjugarðs frá mjög afmörkuðu tímabili, eða frá um 1000-1300. Góða varðveislu garðsins í dag má rekja til framsýni Elíasar Guðmundssonar, bónda á Bæ frá 1918-1942, sem leyfði minjunum að standa óhreyfðum þegar hann sléttaði túnin í kringum garðinn. Kirkjugarðurinn var friðlýstur af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði árið 1930.

Kirkjugardur_1638976689945

Texti unninn upp úr Kirkjum Íslands og fornleifaskráningu í Árneshreppi sem unnin var af Fornleifastofnun Íslands ses.