9. desember - Hafnabúðir á Skaga

9des

Jörðin Hafnir er norðvestast á skaganum sem skilur að Húnaflóa og Skagafjörð, um 32 km norðan Skagastrandar. Hafnir eru gamalt höfuðból og ein mesta hlunnindajörð Húnavatnssýslu. Mikið útræði var frá fornu fari frá Hafnabúðum og sóttu menn þangað til sjóróðra víðs vegar að framan úr innsveitum héraðsins. Allmargar varpeyjar eru einnig úti fyrir jörðinni, mikill reki og seltekja góð. 

DJI_0809Horft til suðvesturs yfir Hafnabúðir. Stekkjarnes lengst til vinstri, þá Hjallanes og því næst Kólkunes.

Jarðarinnar er fyrst getið í reka- og landamerkjaskrá Þingeyrarklausturs frá því um 1285 ásamt býlinu Rifi í Hafnarlandi. Umfangsmiklar mannvistarleifar eru víða út við ströndina sem vitna um mikil umsvif á staðnum í aldir. Þéttustu minjasvæðin eru á Stekkjarnesi, Hjallanesi, Kólkunesi, Innri-Þrándarvík, en gert var út frá öllum þessum stöðum og einu nafni talað um Hafnabúðir. Auk tímabundinnar búsetu í tengslum við sjóróðra var einnig föst búseta í Hafnabúðum með hléum fram undir miðja 19. öld í það minnsta. Einnig var búið á Rifi og gert út frá Rifsbúðum sem eru á svonefndu Rifsnesi nokkru vestar í landi Hafna.

Teikningar-BSK

Örnefnið Kólkunes hefur orðið uppspretta þjóðsagna og er ýmist sagt kennt við tröllkonu með því nafni sem á að hafa búið og gert út frá nesinu eða þá landnámsmanninn Þorbjörn kólku. Um Þorbjörn er næsta lítið vitað en í Landnámabók segir aðeins að hann hafa numið Kólkumýrar og búið þar meðan hann lifði. Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar er hann hins vegar tengdur við örnefnin Kólkunes og Kólkusker á Höfnum og sagður hafa verið þar í veri haust og vor og haft búð sína á Kólkunesi. En þegar hann gerðist gamall og ófær til sjóróðra á hann að hafa hvolft skipi sínu sem var steinnökkvi úti fyrir nesinu en vaðið sjálfur til lands og heitir það síðan Kólkusker.

Mynd-3

Horft til norðvesturs yfir Hjallanes, Kólkunes í baksýn og Kólkusker til hægri við nesið. 

Þótt lítið sé að byggja á þjóðsögunni um Þorbjörn kólku og jarðarinnar sé ekki getið í rituðum heimildum eldri en frá 13. öld er víst að þar hefur búseta og útræði hafist miklu fyrr. Í rofabökkum út við ströndina eru greinileg mannvistarlög undir gjóskulagi úr Heklu frá 1104 og því ljóst að þar hafa verið einhver umsvif a.m.k. svo snemma sem á 11. öld og mögulega allt frá landnámi. 

Það er mikið landbrot á svæðinu og því miður er stór hluti þessara minja í verulegri hættu af þeim sökum. Á vordögum 2021 barst Minjastofnun ábending um að gripir væru að koma í ljós þar í rofabakka og var í framhaldinu gerður út leiðangur til að rannsaka þær minjar sem þar voru að koma í ljós.

Mynd-4

Hægt er að horfa á viðtal við minjavörð Norðurlands vestra með því að smella hér.

Textinn er unninn upp úr Sturlubók Landnámu, Íslenzku fornbréfasafni, Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar og Föðurtún eftir Pál Kolka.