Gleðileg jól! 24. desember - Hóladómkirkja

24des

Dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal er elsta kirkja landsins, reist á árunum 1757-1763, í biskupstíð Gísla Magnússonar (1755-1779). Á Hólum var biskupssetur í tæpar sjö aldir, 1106-1801, en á þeim tíma sem Gísli sat þar var fjárhagur stólsins frekar bágur. Því var ákveðið að hver kirkja í Danmörku og Noregi skyldi láta tvö mörk af hendi til að styðja við uppbyggingu á Hólum og smíði nýrrar dómkirkju.

Hólar í Hjaltadal eru ekki nefndir í Landnámu en talið er að menn hafi flutt þangað frá Hofi, sem er næsti bær í dalnum, á 11. öld. Um miðja þá öld bjó þar maður, Oxi Hjaltason, afkomandi Hjalta á Hofi, en hann lét byggja fyrstu kirkjuna á Hólum og þótti hún nokkuð vegleg. Síðan þá hafa verið byggðar sex kirkjur á staðnum og er því núverandi kirkja sú sjöunda í röðinni (en fimmta dómkirkjan).

Holadomkirkja-eHóladómkirkja er friðlýst en veggir hennar eru hlaðnir úr óhöggnu holtagrjóti innst en tilhöggnum rauðum íslenskum sandsteini yst. Sandsteinninn var sóttur úr fjallinu Hólabyrðu, sem gnæfir yfir Hólastað. Hönnuður kirkjunnar var danski húsameistarinn, Laurids de Thurah, en meðal verka hans eru Hróarskelduhöll og spíralturninn á Kirkju frelsarans (Vor Frelsers Kirke) á Amager í Kaupmannahöfn. Hóladómkirkja er barokkhús af einföldustu gerð, ekki háreist en formið er fagurt og stórt í sniðum að innanverðu. Það sem gerir kirkjuna ekki síður heillandi eru seinni tíma viðbætur t.a.m. var forkirkju bætt við að ósk heimamanna og klukkuturn byggður þó nokkru síðar, vígður árið 1950 og reistur til minningar um Jón Arason biskup á Hólum 1524-1550. Sigurður Guðmundsson arkitekt teiknaði turninn en hann var fyrsti sjálfstætt starfandi arkitektinn á Íslandi og teiknaði m.a. elliheimilið Grund, Austurbæjarskóla og Þjóðminjasafn Íslands.

Holadomkirkja-c

Innanstokksmunir í kirkjunni eru mjög vandaðir og eru þeir flestir innfluttir en sumir framleiddir hérlendis. Milligerðin, sem er milli kórs og kirkju, ásamt kirkjubekkjum er endurgerð eftir innréttingu sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands. Á steinaltarinu í kór kirkjunnar stendur altaristaflan Hólabríkin. Hún kemur úr eldri kirkju á Hólum og er talið að Jón Arason hafi útvegað bríkina. Ekki er vitað hvar bríkin var framleidd en ýmis einkenni hennar benda til Þýskalands. Bríkarskápurinn er úr eik, 1,70 m á hæð og 3,40 m breiður þegar hann er opinn. Inni í bríkinni er fjöldi útskorinna líkneskja, myndverk, súlur og skrautverk, sem að meginstofni er útskorið jurtaskraut úr fugla-kirsuberjaviði (Prunus avium). Bakhlið miðbríkarinnar er ómáluð en málverk eru aftan á vængjunum. Stærri stytturnar í vængjunum eru af postulunum tólf, en minni stytturnar fjórar, efst á vængjunum, eru af dýrlingum. Í miðbríkinni eru til hliðanna fjórar helgar konur en í miðjunni er myndverk af krossfestingunni á Golgata. Viðurinn er allur lagður krít og ýmist málaður á ýmsa vegu eða lagður blaðmálmi; fyrst og fremst gulli en einnig silfri.

Holadomkirkja-i

Í kór beggja vegna Hólabríkurinnar eru tvær ljósaplötur úr messing frá 17. öld og munu þær vera gjöf frá Guðríði Þórðardóttur, ekkju Jóns biskups Vigfússonar. Á suðurvegg hangir róðukross með Jesú krossfestum í miðju og pari beggja vegna við hann. Er það minningarmark um Einar biskup Þorsteinsson og konu hans. Það er líklega frá fyrri hluta 17. aldar og smíðað erlendis, sennilega í Þýskalandi. Skírnarsárinn er höggvinn í einu lagi úr gráu klébergi, líklega innfluttu frá Noregi. Hann er gamall en nákvæmur aldur er óviss. Fóturinn undir honum er frá 1886. Meðal annarra gripa í kirkjunni eru tveir kertahjálmar frá 17. öld eða byrjun þeirrar 18. Hanga þeir í framkirkju og ljósahjálmur Jóns biskups Vigfússonar frá 1690 í kórnum.

Holadomkirkja-b

Kirkjan hefur að geyma fleiri áhugaverða og merka gripi en fræðast má nánar um Hóladómkirkju, innréttingar og muni í 6. bindi ritverksins Kirkjur Íslands frá 2005. Ljósmyndirnar sem hér birtast eru teknar af Guðmundi Ingólfssyni ljósmyndara/Ímynd og birtar með leyfi hans. Tónverkið í myndbandinu er flutt af Kór Akureyrarkirkju og heitir Aðfangadagskvöld jóla. Tónlistin er eftir Sigvalda Kaldalóns við texta Stefáns frá Hvítadal og í viðhafnarútgáfu Victors Urbancic. Organisti er Eyþór Ingi Jónsson og stjórnandi er Þorvaldur Örn Davíðsson. Verkið er birt með heimild kórsins. Kærar þakkir fyrir það og jólaóskir frá Minjastofnun Íslands.

Hóladómkirkja