1. desember - Hólavallagarður

1desember-cropped

Hólavallagarður, gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu í Reykjavík, er einn af merkustu kirkjugörðum landsins. Í honum er fjöldi friðaðra minningarmarka yfir fólkinu sem þar hvílir.

Hólavallagarður var vígður þann 23. nóvember 1838. Fram að þeim tíma voru Reykvíkingar fyrst og fremst grafnir í „kirkjugarðinum forna“ við Aðalstræti, eða Víkurgarði eins og hann er nefndur. Sá garður var orðinn útgrafinn þegar í upphafi 19. aldar. Þá komu víðast hvar upp í honum heilar líkkistur og beinahrúgur þegar nýjar grafir voru teknar og þurfti að hylja leifarnar áður en syrgjendur komu og jarðsettu sitt fólk. Garðurinn var stækkaður eitthvað en hann dugði engan veginn sem framtíðar kirkjugarður Reykvíkinga. 

IMG_6179

Við upphaf 19. aldar var farið að huga að nýjum kirkjugarði. Öflugasti baráttumaðurinn fyrir slíkri framkvæmd var Lorentz von Krieger stiftsamtmaður sem hóf vinnuna við að fá nýjan kirkjugarð um 1830. Svæðið sem hann taldi æskilegast var suðausturhluti vesturtúna bæjarins. Svæðið sem nefnt var Hólavellir. Lorentz gekk ekki vel að koma málinu hratt áfram, eins og hann hafði óskað sér, og var m.a. óeining um kostnaðinn sem hlytist af trégrindverki utan um garðinn. Viður var mjög dýr á þessum tíma og tregt um fjármagn. Niðurstaðan var að hlaða vegg úr torfi og grjóti eftir suður-, norður- og vesturhlið garðsins en setja trégirðingu að austan, Suðurgötumegin, þar sem sáluhliðið var. Síðar var einnig reist líkhús með klukknaturni. Garðurinn var að lokum tilbúinn síðsumars 1838.

Það var trú manna að sá sem væri fyrstur grafinn í nýjum kirkjugarði yrði ,,vökumaður“ hans. Átti vökumaðurinn ekki að rotna, en taka á móti öllum er síðar væru þar grafnir og vaka stöðugt yfir garðinum. Voru sagnir um að vökumenn væru sýnilegir í garðinum rauðklæddir eða í grænum kjól. Vegna þessarar hjátrúar var fólk óviljugt að að láta grafa ættingja sína fyrsta í garðinn. Af þessum sökum og einnig vegna þess að yfirvöldum þótti skipta máli hver yrði fyrstur jarðsettur í garðinum var hann ekki vígður og tekinn í notkun fyrr en í nóvember. Frá síðsumri og fram að þeim tíma voru það fyrst og fremst fátæklingar sem létust í Reykjavík og þóttu ekki æskilegir vökumenn.

Þann 23. nóvember 1838 var Guðrún Oddsdóttir jarðsett í garðinum og varð við það vökumaður hans. Guðrún var af góðum ættum, dóttir Odds Þorvarðarsonar prests á Reynivöllum í Kjós. Hún giftist fyrst Stefáni Stephensen amtmanni á Hvítárvöllum, en að honum látnum giftist hún Þórði Sveinbjörnssyni. Hann varð yfirdómari í Landsréttinum 1834, síðar háyfirdómi og gegndi fjölda annarra virðingarembætta. Þau bjuggu á Nesi á Seltjörn. Guðrún eignaðist fimm börn með Þórði sem öll létust. Hún varð upp úr því sjúklingur og lést í Nesi, 11. nóvember 1838, þá 59 ára gömul.


IMG_6193

Þórður blés á ofangreinda hjátrú og var því ekki smeykur við það að kona sín yrði vökumaður Hólavallagarðs. Garðurinn var vígður þegar hún var jarðsungin og var haldin mikil athöfn í garðinum. Guðrúnu var valið grafarstæði þar sem hæst bar í kirkjugarðinum, lengst norður frá líkhúsinu og rétt við torfvegginn sem skildi á milli garðsins og Melshúsbæjanna. Á gröfinni er minnisvarði úr steyptu járni í nýgotneskum stíl.

Í dag er ekki algengt að grafið sé fyrir kistum í garðinum en heimilt er að grafa duftker í gömlu grafarstæðin, mest átta ker í hvert leiði. Talið er að um 14.000 einstaklingar hvíli í Hólavallagarði.