2. desember - Drumbabót

2desember

Drumbabót er um 100 hektara landsvæði við eyrar Þverár í Fljótshlíð. Á síðustu öld hafa miklir trjábolir komið þar upp úr sandinum sem bera þess vitni að á svæðinu hafi áður vaxið gróskumikill skógur. Árhringjarannsóknir sýna að skógurinn hefur fallið í einum atburði og hefur hann því að öllum líkindum fallið í miklu jökulhlaupi sem komið hefur úr Mýrdalsjökli og orsakaðist af Kötlugosi. Um mikið hamfarahlaup hefur verið að ræða þar sem Drumbabót er í um 45 km fjarlægð frá jaðri Mýrdalsjökuls. Mikið hefur því þurft að ganga á til að eyða þeim mikla skógi sem þarna stóð.

Drumbabot-Uggi

Drumbarnir standa flestir um 40 cm upp úr jarðveginum og hafa allir lurkarnir svipaða hallastefnu, eða til suðvesturs. Gjóskublandað sandlag sem þeir standa í er um 50 cm þykkt frá rótum trjánna. Má því ætla að gjóskulagið sem féll í tengslum við hamfarirnar hafi verið um 90 cm þykkt eða jafnvel þykkara. Hefur gjóskulagið varðveitt drumbana og forðað þeim frá rotnun í um 1200 ár, en sá hluti bola og greina birkitrjánna sem stóð ofan gjóskunnar hefur eðli málsins samkvæmt, grotnað í tímanna rás. 

Drumbabot

Drumbabót. Mynd fengin af vef Sunnlenska fréttablaðsins

Tekist hefur að aldursgreina hamfarirnar sem orsökuðu eyðingu skógarins nákvæmlega með notkun C-14 geislakolsmælinga og talningu árhringja og sýna þær niðurstöður að eyðing skógarins hafi átt sér stað árið 822-823. Nákvæmari tímasetning hefur enn fremur fengist með rannsóknum á ysta árhring trjánna en þær sýna að ysti árhringurinn var fullskapaður en sá næsti ekki byrjaður að myndast sem þýðir að eldgosið átti sér ekki stað á vaxtartíma trésins, heldur einhvern tíma frá hausti 822 og fram á vor 823. Enn fremur bendir fjöldi árhringja til þess að trén hafi flest öll verið um 70-100 ára gömul þegar jökulhlaupið átti sér stað.

Drumbabot-sel

Árið 2015 fór fram fornleifarannsókn í Drumbabót á vegum Fornleifastofnunar Íslands ses. Þar voru rannsakaðar seljaminjar sem voru mjög illa farnar vegna vind- og vatnsrofs auk þess sem þær þóttu vera í hættu vegna aukins fjölda ferðamanna sem leið sína leggur um svæðið. Á einum stað í Drumbabót eru tveir hólar og í þeim stærri hefur fundist fjöldi forngripa sem vindrof hefur afhjúpað á síðustu áratugum. Í rannsókninni voru grafnir sex könnunarskurðir í hólana tvo og snið þeirra rannsökuð. Niðurstöður bentu til að þarna hafi verið sel þar sem merki um árstíðarbundna búsetu fundust, en sand og áfok var að finna í torfveggjum, yfir gólfum og á milli öskulaga. Minjarnar eru taldar vera frá 16. til 17. öld þar sem þær eru rétt fyrir ofan gjóskulag úr Heklu frá árinu 1510. Það er því ljóst að u.þ.b. 700 árum eftir hamfarirnar miklu var svæðið nýtt til seljabúskapar og væri áhugavert að vita hvaða kenningar fólkið sem þar dvaldi hafði um drumbana í sandinum og tilurð þeirra.

Upplýsingar fengnar úr ritum og vefsíðum hjá Morgunblaðinu, Fornleifastofnun Íslands ses. og Náttúrufræðingnum.