1. desember - Hvanndalir
Um aldir voru Hvanndalir ein afskekktasta byggð á
Íslandi, staðsett á Tröllaskaga milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar. Aðkoma var
erfið en oftast var farið um Hvanndalaskriður frá Héðinsfirði. Einnig var lending
frá sjó varasöm nema í veðurblíðu. Jarðarinnar er fyrst getið í máldaga
Hólakirkju frá 1374 en ekki er vitað hvenær byggð hófst á staðnum. Þó er ljóst
að hún var stopul þar til árið 1896 en þá keypti hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps
jörðina gagngert til að koma í veg fyrir að byggð héldist þar lengur. Sumarið
2006 voru Hvanndalir skráðir af Fornleifastofnun Íslands ses. (FSÍ) sem hluti
af heildarskráningu fornleifa í Hvanneyrarhreppi hinum forna. Sú umfjöllun sem
hér fylgir um minjarnar er byggð á þeirri vinnu en alls voru skráðar yfir 30
fornleifar af ýmsu tagi á jörðinni.
Fyrst má nefna bæjarstæðið sjálft en í örnefnalýsingu
Helga Guðmundssonar segir: „Stóð bærinn niður frá mynni hins ytri og meiri, eða
aðaldalsins, mót norðaustri. Er þar útsýn og byggðarstæði hið fegursta.
Túnvöllur mikill, sléttur og fagur, en sjávarbakkar hvarvetna háir að neðan.“
Bæjarstæðið er á grösugu flatlendi, víðast hvar dálítið mýrlendu. Þar eru
greinilegar þrjár tóftir; bæjarhóllinn 001, fjárhús 002 og fjós 003. Enginn
hóll er undir bæjarrústinni og því fátt sem bendir til að bærinn hafi staðið
þar lengi og líklega hafa síðustu bæjarhúsin verið að mestu úr timbri. Fjárhúsið
er frammi á þverhníptum sjávarbakka 40-50 m suður af bæjartóftinni. Dálítill
hóll, allt að rúmlega 1 m hár, er undir tóftinni sem gæti verið vísbending um að tóftin standi
á eldri minjum. Þriðja tóftin á bæjarstæðinu er skammt ofan eða vestan við
slysavarnarskýli, hún er tvískipt og hefur líklega verið notuð sem fjós. Hugmyndir
eru um að bærinn hafi áður staðið þar sem nú heitir Ódáinsakur. „Eru nokkuð
stórar bæjartóftir, og enn fremur niðurgrafin tóft á bakkabrúninni, kannski
naust, eða hjallveggir“ segir í örnefnaskrá Björns Grímssonar. Þar segir enn fremur:
„Þjóðsagan um Ódáinsakur er á þá leið, að enginn hafi þar getað dáið, svo að
bera varð hina deyjandi menn út fyrir ána, svo að þeir fengju losnað úr
líkamsböndunum. Þessi átti svo að vera ástæðan fyrir því að bærinn var fluttur
norður fyrir ána.“ Í fornleifaskráningunni segir að greinilegur og stór
bæjarhóll sé á Ódáinsakri, á suðurbakka Hvanndalaár. Mjög grösugt er umhverfis
hólinn en ekkert bendir til að vísun um „akur“ í örnefninu sé til vitnis um
ræktun, a.m.k. eru engin sjáanleg ummerki um slíkt. Alls er hóllinn 25 x 25 m að
stærð og um 2 m hár. Allt bendir til þess að hér hafi lengi verið
aðalbæjarstæðið í Hvanndölum, enda er uppsöfnun jarðvegs margfalt meiri en á
yngra bæjarstæðinu.
Fleiri áhugaverðar minjar eru í Hvanndölum sem vert
væri að fjalla um en stöldrum hér við einn stað enn sem er á leiðinni ef gengið
er frá Hvanndölum til Ólafsfjarðar, leið sem nefnd hefur verið að fara gjána
úr Sýrdal. Þá er gengið í suðaustur frá slysavarnarskýlinu að Selskál og
upp á brún Hádegisfjalls. Þar er Sýrdalurinn suður og austur af Selskálinni og
þar „... dálítið skarð eða einstigi ... að vestan sem hægt var að
komast um niður í hann. Þangað voru lömb rekin á vorin, hlaðið upp í skarðið,
og þau látin ganga þar yfir sumarið," segir í örnefnaskrá. Hleðslurnar eru
enn nokkuð sýnilegar. Ekki er um heila garðhleðslu að ræða heldur hefur verið
hlaðið í gloppur og göt efst í skarðinu, á svæði sem er um 15 m langt. Beggja vegna
við hleðslurnar eru mjög brött, grýtt og vel gróin gil.
Í
dag eiga fáir aðrir en útivistarfólk erindi í Hvanndali, en þau sem þangað koma
upplifa náttúrufegurð svæðisins og geta einnig staldrað við og reynt að setja
sig í spor þeirra sem lifðu við þessa einangrun.
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Heimildir
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/242672/ sótt 16.11.2022
Birna Lárusdóttir (Ritst.) Fornleifaskráning í Hvanneyrarhreppi II: Minjar í Siglufirði (sunnan Siglufjarðarbæjar og austan fjarðar), Héðinsfirði og Hvanndölum Fornleifastofnun Íslands FS391-04042 Reykjavík 2008