10. desember - Rútshellir
undir Eyjafjöllum, Rangárþingi eystra
Rútshellir kúrir neðst í fjallshlíð undir Eyjafjöllum. Til er munnmælasaga af hálftröllinu eða risanum Rúti sem sagður er hafa gert hellinn í fyrndinni og búið í honum. Hann hafi komist upp á kant við menn í sveitinni sem hafi sótt að honum í hellinum en áður grafið holuna sem er á milli aðalhellisins og rúmbálksins og ætlað að koma spjótslagi á hann sofandi í gegnum gatið. Ýmsum sögum fer af því hvernig áhlaupinu lauk. Eggert Ólafsson og Páll Vídalín segja mennina hafa drepið Rút en aðrar sögur segja hann hafa komið að mönnunum, tvístrað þeim, hlaupið þá uppi og drepið þá alla hist og her í nágrenni hellisins. Hann hafi svo þurft að elta Guðna nokkurn upp á Eyjafjallajökul og drepa hann þar undir steini sem síðan heitir Guðnasteinn.
Rútshellir hefur lengi vakið athygli fólks, sumpart vegna legu sinnar, svo nálægt alfaraleið, en hann þykir líka falleg og býsna flókin smíð. Hann er holaður út í fíngert móberg sem er að mestu leyti laust við bergganga og eitla. Sérstakt við hellinn er að enginn strompur skuli vera á honum sem nær upp í gegnum bergið og út. Eftir að fjárhúsið var byggt framan við hellinn um 1920 hefur meginhellirinn verið notaður sem hlaða en fyrir þann tíma fer ekki miklum sögum af hlutverki hellisins. Meginhellirinn er einn geimur sem einhvern tímann hefur verið þiljaður af því nóg er bæði af berghöldum (78 stykki) sem og sporum í bergið eftir timburrafta. Í botni meginhellisins má sjá leifar þess sem gæti hafa verið set eða rúmbálkur. Hugsanlega jata.
Köntuðu holurnar í afhellinum – Stúkunni – hafa verið útskýrðar sem aflgröf og nóstokkur, en þríhyrndi steinninn sem steðjasteinn. Einkennilegt er þó strompleysið, hafi verið eldsmíðað í Stúkunni. Auðvitað má ímynda sér að aflinn hafi verið nálægt opinu og reykurinn á einhvern hátt leiddur út stutta vegalengd eða að gegnumtrekkurinn hafi náð að blása reyknum út.
Eftir valdatöku nasista í Þýskalandi árið 1933 varð til nokkurskonar vísindaakademía innan SS-sveitanna undir stjórn Heinrich Himmlers. Einhverra hluta vegna gerði þessi nasista-akademía út rannsóknarleiðangur til Íslands undir stjórn Paul Burkerts sem fékk til liðs við sig Walter Gehl sem hafði lokið háskólaprófi í norrænum fræðum við Leipzig-háskóla. Sá náungi hafði verið í sambandi við Matthías Þórðarson þjóðminjavörð fyrir stríð í því augnamiði að koma til Íslands og rannsaka hofrústir. Upphaflega stóð til að fara vestur á firði og rannsaka hof þar en einhverra hluta vegna enduðu þeir félagar í Rútshelli. Þeir dvöldu hér við rannsóknir og skiluðu skýrslu til nasista-akademíunnar þess efnis að Rútshellir væri heiðið hof af þróaðri gerð, steðjasteinninn þríhyrndi væri fórnarsteinn þar sem fórnardýrið væri bundið á og svo þegar dýrið væri skorið á háls fylltist bollinn – steðjaakkerið – og þvínæst hafi blóðið verið látið renna eftir gróp frá bollanum ofan í köntuðu holuna í gólfinu. Í hinni holunni hafi verið öndvegissúla. Þeir kumpánar veittu því athygli að gólf meginhellisins hækkar til hliðanna og sáu því í hendi sér að hellirinn hafi verið veislusalur þar sem blótgestir sátu meðfram langveggjum með langeld á milli sín en Stúkan hafi verið sérstakt blóthýsi þar sem fórnarathafnir fóru fram.
Á árunum 2015-16 var ráðist í framkvæmdir við Rútshelli og hafði Minjastofnun Íslands milligöngu um það. Ákveðið var að hlaða upp fjárhúsið framan við hellinn, en það er miklu yngra en hellirinn, um 100 ára gamalt. Timburþil var endurgert í hellismunnanum ofan við fjárhúsið og taði mokað úr gólfi. Hleðsla við „bakdyr“ var einnig lagfærð. Til verksins réðust bræður af Ströndum, Guðjón hleðslumeistari og Benjamín smíðameistari Kristinssynir. Verkið var unnið í góðu samráði og samstarfi við heimamenn, Fannar á Hrútafelli, Magnús á Steinum og Grétar á Seljavöllum. Staðurinn er nú mikil prýði við þjóðveginn og sækir þangað fjöldi fólks.
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Heimildir
Textinn er byggður að mestu upp úr punktum frá Þórði Tómassyni og bókinni Manngerðir hellar á Íslandi eftir Árna Hjartarson, Guðmund J. Guðmundsson og Hallgerði Gísladóttur. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík, 1991.