11. desember - Fengsæll
Þeir sem hafa átt leið um Álftafjörð á leið til Súðavíkur hafa kannski rekið augun í bát sem liggur í fjörunni á Langeyri. Þetta er Fengsæll, elsti varðveitti eikarbátur á Íslandi. Á kreppuárunum 1930-1940 var lítil endurnýjun á stærri bátum og togurum á Íslandi. Öðru máli gegndi með minni báta og var Fengsæll einn af yfir 20 svipuðum bátum sem smíðaðir voru í Friðrikssundi í Danmörku og fluttir inn til Íslands á árunum 1929-1938. Fengsæll er sá eini sem eftir er.
Fengsæll var smíðaður árið 1931 og hóf feril sinn á Íslandsmiðum undir nafninu Huginn hjá Útgerðarfélagi Vatnsleysustrandar í Vogum ásamt systurskipi sínu Muninn. Báturinn flokkast eins og áður segir með minni bátum en hann er 15,86 m á lengd, 4,36 m á breidd og 1,76 m á dýpt og er alls 30 brúttólestir. Eftir að hafa verið gerður út frá Vogum um nokkra hríð færðist hann til annarra bæjarfélaga á vesturströnd Íslands en alls hafa eigendur verið 15 í gegnum tíðina. Stuttu fyrir aldamótin 2000 var hann kominn til Súðavíkur þaðan sem hann var gerður út á rækju.
Árið 2000 var Fengsæll orðinn elsti eikarbátur á floti á Íslandi. Samkvæmt skipaskrá 2005 var Fengsæll langelsta þilfarsskipið í flokki fiskiskipa á Íslandi. Þá var hann einnig elsti sléttsúðungurinn á skipaskrá og elsta eikarskipið. Á árunum 1971-72 fór Fengsæll í slipp í Njarðvík þar sem hann var endursmíðaður. Á þeim tíma gekk hann undir nafninu „Torfbærinn“ líkast til vegna aldursins sem þá þegar þótti hár. Báturinn er nú aldursfriðaður skv. menningarminjalögum. Í umfjöllun í Fornbátaskrá um Fengsæl kemur einmitt fram að sjómenn tali um að gömlu trébátarnir hafi svipað menningarlegt gildi og torfbæirnir og mikilvægt sé að augu manna opnist fyrir því áður en þeir hverfa allir.
Frá árinu 2010 hefur Fengsæll verið skráður í núllflokki hjá Fiskistofu og árið 2013 var búið að sigla honum upp í fjöru við Langeyri. Haustið 2021 höfðu eigendur Fengsæls samband við Minjastofnun en þá höfðu þeir í nokkur ár reynt að koma Fengsæl í varanlegt fóstur án árangurs. Var niðurstaðan sú að Sögufélagið í Vogum á Vatnsleysuströnd, þar sem Fengsæll hóf Íslandsferil sinn, mun taka við bátnum. Nú bíður hann þess að verða fleytt til Ísafjarðar innan skamms þaðan sem hann verður fluttur suður á gömlu heimaslóðir sínar á Reykjanesinu og komið í slipp. Það standa því allar vonir til að hægt verði að bjarga þessum elsta eikarbáti Íslands og sigla honum enn á ný við Íslandsstrendur.
Smelltu hér til að skoða staðsetningu Fengsæls í minjavefsjá
Heimildir
Helgi Máni Sigurðsson. 2019. Skip eldri en 1950 á skipaskrá Samgöngustofu, skýrsla nr. 27. Fornbátaskrá 2019. Samband íslenskra sjóminjasafna.
Samgöngustofa: Skipaskrá 2005 og 2006.