12. desember - Dysjar Þorgeirs og Gauts

Thorgeirsdys-Hraunhafnarviti-i-bakgrunniÍ Fóstbræðra sögu segir frá Þormóði Bersasyni, Kolbrúnarskáldi, og Þorgeiri Hávarssyni sem saman ólust upp á Ísafirði og tengdust snemma sterkum vinaböndum. Þeir gengu í fóstbræðralag og sóru með því eið að hefna hvors annars ef annar yrði veginn. Fóstbræðurnir voru taldir miklir vígamenn og sagan segir frá ferðum þeirra og afskiptum á Íslandi.

12des_1670843986217

Hér ætlum við þó að einblína á seinni hluta sögunnar sem gerist á Melrakkasléttu og þá aðallega Hraunhafnartanga. Á Hraunhafnartanga er að finna tvær dysjar sem eru nátengdar Fóstbræðra sögu, Þorgeirsdys og Gautsdys. Dysjar eru upphækkaðar grafir sem venjulega hafa verið huldar með grjóthrúgu og þekkist sú hefð vel frá heiðinni tíð, þótt oft reynist erfitt að finna þær.

Þeir sem heimsótt hafa Hraunhafnartanga vita að Þorgeirsdys blasir þar við á tanganum miðjum – há varða ofan á stórum grjóthaug. Er þetta talin vera dys Þorgeirs Hávarssonar sem drepinn var í heilmiklum bardaga við Hraunhöfn. Í þessum bardaga lést reyndar fjöldi manna og eru þeir einnig sagðir dysjaðir á Hraunhafnartanga, líkt og segir í Fóstbræðra sögu:

Sléttukarlar ruddu kaupskipið og fluttu til lands og jörðuðu þar í höfninni allra manna lík, þeirra er þar höfðu fallið á skipi og á landi, því að þeir nenntu eigi til kirkju að færa líkin því að í þenna tíma voru engvar kirkjur í nánd höfninni.


Thorgeirsdys-Arbok

Ljósmynd af Þorgeirsdys úr Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1924, bls. 56. Ljósmynd: Heinrich Erkes. 1909?

Þó svo að í sögunni segi að á tanganum hafi fjöldi manna verið dysjaður þá er þar aðeins eina önnur þekkt dys. Gautsdys er skammt frá Þorgeirsdys, en hún er þó ekki jafn auðfinnanleg. Gautsdys hefur ekki verið skráð með nútímatækni en lýsingu á staðsetningu hennar má finna í grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags frá árinu 1924. Hún er sögð lág og grasi vaxin og að umhverfis hana sé einfaldur steinahringur. Gautsdys er talin vera dys Gauts Sleitusonar sem Þorgeir Hávarsson myrti eftir að Gautur notaði spjót og skjöld Þorgeirs sem eldivið.

Og er menn voru sofnaðir þá rís Þorgeir upp og tekur exi sína í hönd sér og gengur til tjalds þess er Gautur var í og sprettir tjaldskörum og gengur inn í tjaldið og að rúmi Gauts og vekur hann. Gautur vaknar og spratt upp og vildi taka til vopna. Og í því bili höggur Þorgeir til Gauts og klýfur hann í herðar niður. Fékk Gautur af því sári bana. Þorgeir gengur á brott og til búðar sinnar. Búðunautar Gauts vakna við brestinn er hann var veginn. Styrmdu þeir yfir líki hans og bjuggu um.


Fóstbræðra saga hefur almennt verið talin skrifuð undir lok 13. aldar, en atburðarrás þessi sem lýst var hér að framan er talin hafa átt sér stað sumarið 1024.

Bæði Þorgeirsdys og Gautsdys voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni árið 1930, friðlýsingin er tilkomin vegna tengingar minjanna við Íslendingasögurnar líkt og algengt var á fyrri hluta 20. aldar.


Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá


Heimildir

Fóstbræðra saga

Matthías Þórðarson. 1924. Smávegis: Um staði og fornminjar. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1924, bl.s 56-57. Ísafoldarprentsmiðja: Reykjavík

Þorgeirsdys í Sarpi, Menningarsögulegu gagnasafni Þjóðminjasafns Íslands