13. desember - Skansinn
Skansinn í Vestmannaeyjum var fallbyssuvirki sem Danakonungur lét reisa undir
lok 16. aldar. Lét hann reisa virkið til þess að verja höfnina í Vestmannaeyjum
fyrir ágangi enskra útgerðar- og kaupmanna, hvort sem þeir hyggðu á rán eða verslun
í leyfisleysi. Í heimildum hefur Skansinn einnig verið nefndur Kornhólsskans
vegna nálægðar hans við hól sem nefndur er Kornhóll.
Upp úr 1600 hafði ásókn Englendinga á eyjarnar minnkað og var virkinu því ekki mikið haldið við. Á sama tíma var þó farið að bera á öðru vandamáli fyrir sjófarendur og eyjaskeggja en það voru sjóræningjar sem farnir voru að herja á eyjar um allt Atlantshaf. Þó svo að ásókn Englendinga á eyjarnar hafi minnkað þurftu Vestmannaeyingar því enn á vörnum að halda og var hafist handa við að endurreisa virkið. Þær framkvæmdir voru enn á frumstigi þegar Tyrkjaránið átti sér stað árið 1627. Eftir Tyrkjaránið þótti fullljóst að varnir fyrir eyjarnar væru nauðsynlegar og voru þá gerðar miklar breytingar á Skansinum og hann endurbyggður á árunum 1630-1637. Var hann hlaðinn úr grjóti og var þá um 32 m á lengd og um 15 m á breidd. Hæð grjótveggjarins var um 2 m og þykkt hans um 5 m. Enn fremur var dönskum herþjálfa falið að hafa umsjón með landvörnum þaðan. Var Herfylking Vestmannaeyja síðar stofnsett, eða um miðja 19. öld, og fóru æfingar fylkingarinnar fram á Skansinum. Í síðari heimsstyrjöldinni varð Skansinn svo að bækistöð breska herliðsins í Eyjum.
Ætla má að endurhleðsla og viðgerðir hafi farið fram á virkisveggjum í
gegnum aldirnar, án þess þó að heimildir séu fyrir því. Hluti af þeim fóru þó
undir hraun í eldgosinu í Heimaey árið 1973. Hleðslur virkisins voru síðast
lagfærðar árið 1992 af Víglundi Þorsteinssyni. Enn má þó glöggt sjá eldri
hleðslur í kantinum meðfram stígnum sem liggur í gegnum virkið og einnig eru
eldri hleðslur í brekkunni upp að austurhlið virkisveggjarins. Virkisminjarnar
á Skansinum voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni, þáverandi þjóðminjaverði,
þann 25. október 1930.
Við endurhleðsluna árið 1992 var reynt að gæta þess að hreyfa ekki við hleðslum að óþörfu og mun það hafa tekist að mestu leyti. Þó mun það hafa gerst að traktorsgrafa, sem notuð var til að fjarlægja jarðveg úr vegg Skansins, rakst í mannabein við sunnanverðan vegginn að innan. Var gröfin talsvert sködduð þegar fornleifafræðingur kom á staðinn til að rannsaka hana. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar var gröfin tekin í gegnum gjóskulag, líklega landnámslagið svokallaða, sem og annað svart gjóskulag, sem talið var vera frá fyrri hluta 10. aldar. Í gröfinni fundust nokkrir gripir, þ.m.t. armband, kambur og þrír steinar. Út frá niðurstöðu gjóskulagarannsóknarinnar og þeim gripum sem í gröfinni fundust, var talið að gröfin væri frá síðari hluta 10. aldar, þ.e. fyrir kristnitöku. Enn fremur segir þó að ekki sé hægt að útiloka að gröfin gæti verið aðeins yngri, e.t.v. frá upphafi 11. aldar, enda ekki víst að grafsiðir hafi breyst snögglega við kristnitökuna.
Á Skanssvæðinu má í dag finna Stafkirkjuna, eftirlíkingu norskrar stafkirkju
en kirkjan var gjöf frá Norðmönnum, byggð árið 2000 í tilefni af 1000 ára
afmæli kristnitökunnar. Á Skansinum er einnig að finna Landlyst, fyrsta
fæðingarheimili landsins og eitt elsta hús í Vestmannaeyjum, byggt árið 1847. Það má með sanni segja að á
Skansinum í Vestmannaeyjum sé að finna áhugaverða blöndu af bæði eldri og yngri
minjum.
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Heimildir
Halldór Baldursson. 1997. Vígbúnaður á Skansinum 1586-1997. Fylkir,(3. tbl.), 19-21.
Katrín Gunnarsdóttir. 2009. Fornleifaskráning á Skansinum í Vestmannaeyjum vegna lagningar háspennustrengs. Reykjavík.
Mjöll Snæsdóttir. 1992. Beinafundur á Skansinum í Vestmannaeyjum. Rannsókn 30.1 – 2.2. 1992. Fornleifadeild ÞjóðminjasafnsÍslands: Reykjavík.
Skansinn í Vestmannaeyjum. Vísir, (186. tbl.), 9-13.