14. desember - Biskupavörður á Biskupahálsi

Biskupavordur-Horft-i-SSV-Herdubreid-i-baksyn

Biskupavörður standa á mörkum Norðlendingafjórðungs og Austfirðingafjórðungs. Eftir að biskupar urðu tveir á Íslandi, árið 1106, voru þessi fjórðungamörk jafnframt mörk biskupsdæmanna, því biskupinn á Hólum hafði Norðlendingafjórðung undir sér en Skálholtsbiskup hina þrjá fjórðungana.

14des_1670949215787

Um aldur varðanna er lítið vitað en til er skemmtileg þjóðsaga um tilurð þeirra. Þar segir að bóndi nokkur hafi gefið Gottskálki grimma Nikulássyni Hólabiskupi (1496 – 1520) og Stefáni Jónssyni Skálholtsbiskupi (1491 – 1518) sömu jörðina. Olli þetta deilum biskupanna um jarðeignina og segir sagan að þeir hafi hist á mörkum biskupsdæmanna til að útkljá þessi mál. Á meðan biskupar ræddu málin kepptu lið biskupsveina í vörðuhleðslu og eru biskupavörðurnar tvær afrakstur þeirrar keppni. 

Vörðurnar gætu verið ævagamlar. Þær eru frekar ólögulegar og líkari hrúgöldum en vörðum, sem þykir styðja sannleiksgildi þjóðsögunnar því ætla mætti að þær hafi verið gerðar af meira kappi en forsjá. Því hefur einnig verið haldið fram að þær hafi verið betur hlaðnar í upphafi og hafi hrunið með tímanum en nánari athugun bendir hins vegar til að þær hafi ekki hrunið mikið. Einnig er hugsanlegt að vörðurnar hafi verið hlaðnar til einhvers konar merkinga. Þannig gæti verið að vörðurnar hafi verið tvær til að marka stefnu, og var miðið þá fundið með því að láta vörðurnar bera hvora í aðra svo bein stefna fengist. Efst í báðum vörðunum er að finna hellur sem standa upp á rönd og eru þær sérstaklega áberandi í nyrðri vörðunni. Gætu hellurnar hafa gegnt hlutverki við stefnutökuna.


Biskupavordur-Kristun-Huld-Sigurdardottir-vid-nyrdri-vorduna

Örnefnin Biskupavörður og Biskupaháls ásamt staðsetningu varðanna á mótum biskupsdæmanna gætu bent til að þær hafi í raun verið hlaðnar til að marka skil þeirra. Vörðurnar eru þó jafnframt á fjórðungs-, sýslu- og jarðamótum og gætu því allt eins átt að marka þeim skil. Undarlegt er hversu óvandaðar þær eru ef haft er í huga að þær hafi verið gerðar að tilstuðlan biskupa, sem voru einna valdamestu menn landsins fyrr á öldum. Ætla mætti að þeir hefðu haft metnað til að vanda betur til verksins. Þjóðsagan gefur skýringu á þessari mótsögn og hvort hún er sönn eður ei gefur hún vörðunum aukið gildi.


Biskupavordur-Horft-i-NV-Takid-eftir-hellunni-efst-i-nyrdri-vordunni


Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá


Heimild

Einar Ólafur Sveinsson. 1940. Um íslenskar þjóðsögur. Sjóður Margrétar Lehmann-Filhés: Reykjavík.