15. desember - Papós
Stór hluti fornleifa á Íslandi er enn óskráður eða hefur ekki verið mældur upp og áætlað er að enn sé eftir að skrá um 65-70 prósent fornleifa. Einn þessara óskráðu staða er verslunarstaðurinn Papós í Papafirði í Lóni.
Áður en Papós kom til sögunnar var enginn verslunarstaður allt frá Eyrarbakka í vestri að Djúpavogi í austri og þurftu bændur, sérstaklega í Skaftafellssýslu, að fara langa og erfiða leið í kaupstað. Árið 1848 komu allir prestar og prófastar Skaftafellssýslu saman til að ræða um leiðir til úrbóta í verslunarmálum sýslunnar og í framhaldi var bænarskrá undirrituð af 150 íbúum og afhent Alþingi með ósk um löggildingu verslunarstaðar á Papósi eða Hornafjarðarósi. Þeirri bænarskrá var hafnað. Lítið gerðist í verslunarmálum fyrr en árið 1861 þegar þingmaður Austur-Skaftafellssýslu lagði fram frumvarp til Alþingis um löggildingu verslunarstaðar á Papósi. Frumvarpið var að þessu sinni samþykkt og sent til konungs. Papós varð löggiltur verslunarstaður með konungsbréfi þann 19. janúar 1863 og risu fyrstu verslunarhúsin á staðnum árið eftir.
Aldrei varð fjölmennt á Papósi og þegar mest var samkvæmt manntali bjuggu þar 15 manns í íbúð verslunarstjóra og húsunum Von og Nýjabæ. Auk þessara húsa voru reistar tvær vöruskemmur og lítil verslun.
Eigendur Papósverslunarinnar voru lengst af Jörgen Johnsen kaupmaður í Hafnarfirði og síðar sonur hans, Johnsen yngri. Þeir bjuggu þó aldrei á staðnum heldur réðu verslunarstjóra til að sjá um verslunina fyrir sig. Árið 1895 keypti Ottó Tulinius verslunarreksturinn á Papósi og flutti þangað sjálfur ásamt konu sinni. Ekki var hægt að koma stórum skipum inn í ósinn og var því róið með húsbúnað hjónanna og töluvert af „jurtapottum með blómum“ frá skipi inn á Papós. Fylgir sögunni að allir jurtapottarnir hafi komist heilir í land. Ekki hefur hjónunum líkað vistin á Papósi nógu vel því tveimur árum síðar var verslunin flutt á Höfn í Hornafirði. Allur húsakostur á Papósi var þá tekinn niður og reistur aftur í Hornafirði. Gamlabúð sem byggð var á fyrsta ári verslunarinnar á Papósi árið 1864 stendur nú við höfnina á Höfn og hýsir gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs.
Á Papósi sjást enn greinilega tóftir verslunarstaðarins sem þar var rekinn í rúm 30 ár.
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Heimildir
Alþingistíðindi 1861 og 1863.
Alþýðublaðið, 173. t.bl. 16. ágúst 1961, bls. 4.
Sjómannablaðið Víkingur, 2. tbl. 1942, bls. 12-13.