16. desember - Hofgarðar í Bárðardal
Hofgarðar í Bárðadal er eitt af áhugaverðustu og innstu þekktu eyðibýlum
landsins. Staðsetning þess sýnir að landnámið náði miklu lengra inn til
landsins en áður var talið, en byggð þar lagðist í eyði á 11. öld. Af þeim
sökum friðlýsti þáverandi þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, „Leifar hins forna eyðibýlis Hofgarða, við
suðurenda Íshólsvatns, austanmegin.“, þann 25. október 1930. Staðurinn hefur vakið athygli margra í gegnum tíðina
og til eru nokkrar heimildir um athuganir á honum.
Í Jarðabók
Árna Magnússonar og Páls
Vídalín frá 1712 stendur: „Horngardur
eður Hofgardur heitir fornt eyðiból hjer skamt fyrir framan, þar eru
mikil garðlög og margar rústir, og atla menn, að þetta hafi stór jörð verið.
Ekki má hjer aftur byggja, því túnið er allt víði vaxið.“[1] Höfundum
Jarðabókarinnar hefur þótt umfang minjanna árið 1712 benda til þess að
þarna hafi verið stundaður töluverður búskapur fyrr á öldum.
Daníel Bruun kannaði eyðibýli í Bárðardal í ágústmánuði 1897. Hann vildi meina að flest eyðibýlin þar hefðu farið í eyði fyrir ómunatíð, en hann lýsir Hofgörðum á eftirfarandi hátt: „Hofgarður (XXI. tafla) stendur fyrir austan Rangá og gegnt Íshóli. Þar sjást miklar tóftir og margar.
Rústir bæjarins að Hofgörðum Bárðardal (Króksdal). 1, 2, 3, 6 og 7) peningshús o.fl., 4) svonefnt hoftótt, 5) bæjarhús, 8) rétt, 9) a, b, c, d, e girðingar, 10) túngarður, 11) garður, 12) túngarður, gamall (?).
- Lítil (6 x 8 skref) og fremur óglögg tóft, er sýnist vera tvískift.
- Mjög lítil og óglögg tóft.
- Löng tóft og mjó, 13 x 4 skref.
- Tóft með þvervegg nær vesturenda og dyr á við nyrðri hliðvegg (16 x 8 skref). Ef hér hefir hof verið, þá er þessi tóft líklegust til að vera af hofinu, en engin hinna.
- Bærinn. Tvísett tóft (118 x 7 x 6 skref); í neðri tóftinni, þeirri er veit að ánni, er þverveggur nær norðurenda; efri tóftin er óglögg.
- Lítil tóft, 10 x 6 skref.
- Tóft, sem er 17 skref að lengd; við efri enda hennar er önnur tóft um þvert, nær jafnlöng hinni, og enn önnur minni þar innan í; þar hefir verið heygarður eða hlaða.
- Stór og mikil tóft, 37 skref að lengd og 12 að breidd, og önnur lítil 6 x 6 skref, við suðurhlið hennar, í norðausturhorni stóru tóftarinnar er lítil kró.
- a-e og 10-12. Girðingar í túninu og túngarðar.“ [2]
Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur rannsakaði staðinn að hluta til í ágúst 1972. Hann átti auðvelt með að átta sig á minjunum eftir uppdrætti Daniels Bruun. Hann gróf holu í tóft nr. 5 og mældi auk þess jarðvegssnið í brekkunni upp af bænum til samanburðar. Einna merkilegast við þessa könnun er að hann fann gjósku úr Heklugosi frá árinu 1104 (H1104), ofan á mannvistarleifum og „sýnir það, svo eigi verður um villst, að hér hefur verið búið á 11. öld, og það alllöngu fyrir 1104. En sniðið uppi í brekkunni sýnir, að uppblástur hefur verið kominn í fullan gang þarna um 1100.“[3]
Árið 2016 er gerð fornleifaskráning í Bárðardal
og lýsir Orri Vésteinsson fornleifafræðingur staðháttum á eftirfarandi hátt:
„Bæjarstæðið er á sléttum árbakka ofan við
mjög bugðótta á. Suðvestan við er lægra nes til vesturs sem virðist hafa blásið
upp og gróið aftur. Suðaustan við er Hofgarðamýri og nær hún alveg norður að
túngarðinum, allmikill mýrarfláki neðst í brekkunni, sá nyrðri af tveimur
austanmegin í dalnum. Túnið liggur upp í lyngmóabrekkuna neðst ener annars mest
á sle‘ttu. Brekkan ofan við er gróin 60-80 m beint ofan við bæjarstæðið
en blásin þar fyrir ofan og neðar til beggja handa. Túnið er vaxið kjarri -
víði og fjalldrapa - allþéttu á köflum og er samskonar gróðurfar í kring,
einkum til norðurs. Innan túnsins eru lindarpollar á amk tveimur stöðum og
rennur úr þeim í læk sem bugðast eftir endilöngu túninu til norðurs. Lágt
rofabarð er ofan við þar sem Rangá gengur lengst til austurs og gæti hafa tekið
af tóft 03.“[4]
Úr skráningaskýrslunni 2016. Minjar á Hofgörðum. Kortagerð: Gísli Pálsson.
Niðurstaða skráningarinnar
er að allar tóftirnar sem Bruun
teiknaði sjást enn vel og þótt fleiri gætu leynst í þykku kjarrinu bættust engar
ótvíræðar minjar við þegar staðurinn var skráður og mældur upp 2016. Einnig er
talið óhætt að bæta Hofgörðum, Íshóli,
Mjóadal og Hólkoti við skrána um býli sem voru í byggð í Bárðardal á 10. og 11.
öld.[5]
En Sigurður Þórarinsson taldi að eftirfarandi lærdóm mætti draga af
bráðabirgðaathugunum sínum á eyðibýlum: „Svo virðist sem byggð hafi allvíða snemma, eða
á tíundu öld og sumstaðar jafnvel þegar á landnámsöld náð að teygja sig lengra inn
í landið en hún hefur nokkru sinni síðar gert, þótt útbreiðslan
nálgist víða að verða hin sama, er nálgast miðbik 19.
aldar.“[6]
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Heimildir
Árni Magnússon og Páll Vídalín. 1943. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, 11. Bindi. Hið íslenska fræðafjelag: Kaupmannahöfn.
Bruun, Daniel. 1898. „Gennem affolkede bygder pa Islands indre höjland“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. Fylgirit. 13. árg. Reykjavík,bls. 3-27.
Bruun, Daniel. 1987. Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Fyrra bindi. Örn & Örlygur: Reykjavík.
Brynjúlfur Jónsson. 1906. „Rannsókn í Norðurlandi sumarið 1905“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 21. árg. Reykjavík,bls. 3-27.
Orri Vésteinsson. 2016. Fornleifar fremst á Bárðardal vestanmegin: Mýri, Mjóidalur, Íshóll og Litlatunga. FS630-04193. Fornleifastofnun Íslands: Reykjavík.
Sigurður Þórarinsson. 1976. „Gjóskulög og gamlar rústir“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 73. árg. Reykjavík, bls. 5-38.
[1] Árni Magnússon 1943, 144
[2] Bruun, Daniel 1987, 241
[3] Sigurður Þórarinsson 1976, 19-20
[4] Orri Vésteinsson 2016, 85
[5] Orri Vésteinsson 2016, 89
[6] Sigurður Þórarinsson 1976, 35-36