17. desember - Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiði

Gamla-leidin-2

Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur Hellisheiði verið einn af fjölförnustu fjallvegum á Íslandi. Elsta gatan yfir heiðina blasir við af Hringveginum þar sem hann liggur yfir Hellisheiðina en fáir munu þó þekkja gömlu leiðina af raun. Víða á heiðinni sjást djúpar götur markaðar ofan í stálharða klöppina, þær dýpstu allt að ökkla djúpar, sem sýna hversu fjölfarin heiðin hefur verið.

17des_1671182774308

Sumir hafa talið að nafn Hellisheiðar sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli. Þar er að finna miklar sléttar hellur og nafnið því dregið af kvenkynsorðinu 'hella'. Nafn heiðarinnar hefði þá átt að vera „Helluheiði” eða „Hellnaheiði” en síðan breyst í Hellisheiði. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni.

Efst uppi á heiðinni, rétt norðan við gömlu leiðina, er Hellukofinn, gamla sæluhúsið á heiðinni. Kofinn er til að sjá eins og kúptur, stór steinn. Hellukofinn var gerður á árunum milli 1830 og 1840 og stendur skammt frá þeim stað er svokölluð Biskupsvarða stóð. Var grjótið úr vörðunni notað í kofann. Þórður Erlendsson, síðasti bóndi á Tannastöðum (d. 1872) í Ölfusi, hlóð kofann og ber hann meistara sínum fagurt vitni. Kofinn er ferhyrndur að lögun, 1.85 m á hvern veg og hæðin upp í mæni um 2 m. Hann er einvörðungu byggður úr hraunhellum. Eftir að fullri veggjarhæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið. Efst er stór hraunhella sem lokar opinu. Dyrnar eru um 60 cm á breidd og 1 m á hæð. Til að þétta veggina var mosa troðið í glufurnar. Kofinn veitti oft hröktum mönnum skjól og til er rituð frásögn er greinir frá því að veturinn 1884 hafi gist þar sex ferðamenn nótt eina í hríðarbyl. Er tekið fram að þeim hafi liðið ágætlega.


Hellukofinn

Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiðina eru friðlýstar fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti minjarnar árið 1971. Á friðlýsingarskjalinu stendur: „Gamla sæluhúsið, „Hellukofinn“ svonefndi, er stendur við hinn varðaða veg vestan til við miðja heiði. [(Hellisheiði).] Einnig vörðurnar og vegurinn, troðin hestaslóð sem víða markar fyrir í hrauninu“.

Vörður eru við götuna frá Hellukofanum og í austur. Þær fylgja götunni í fyrstu en víkja frá hinni sýnilegu rás til norðurs þegar austar dregur. Ástæður þessa munu vera þær að fyrir nokkrum áratugum voru vörður meðfram leiðinni enduhlaðnar og nýjum bætt við en svo virðist sem menn hafi ekki vitað hvar gamla gatan lá þegar austar dró.

Gamla-leidin-1Gamla-leidin

Gamli vegurinn yfir Hellisheiði og sambærilegar götur annars staðar á landinu eru einstakar minjar. Gatan er afrakstur umferðar manna og dýra yfir heiðina frá upphafi byggðar í landinu. Hægt er að fullyrða að fulltrúar allra kynslóða Íslendinga sem lifað hafa í landinu hafi komið að mótun götunnar. Gamli vegurinn yfir Hellisheiði er mannvirki sem á sér upphaf þegar fyrstu kynslóðir landnámsmanna og -kvenna lögðu leið sína yfir heiðina og enn mótar t.d. útivistarfólk veginn á göngu sinni yfir heiðina. Gatan er því ekki einungis slóð í klöppinni yfir Hellisheiðina heldur einnig þráður sem tengir saman kynslóðirnar.

 

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

 

Heimildir

[Án höfundar]. „Gamla gatan yfir Hellisheiði“. Morgunblaðið 26. júní 1980, bls. 22.

Ágúst Ólafur Georgsson. 1990. Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Fornleifanefnd: Reykjavík.

Skúli Helgason. 1959. Saga Kolviðarhóls. Prentsmiðja Suðurlands: Selfoss.

Svavar Sigmundsson. 2004. „Hvers vegna heitir Hellisheiði þessu nafni“. Vísindavefur Háskóla Íslands: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4308

Þorsteinn Bjarnasonar. 1936. „Saga Kolviðarhóls“. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. Sögurit XVII, bls. 362-170.

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti. Afréttur Ölfushrepps. Örnefnaskrá. Örnefnastofnun: Reykjavík.