18. desember - Breiðavíkurver

Breidavikurverstod-Fridlystar-minjar-a-leid-i-sjo

Í Breiðavík á Vestfjörðum er að finna merkan minjastað er nefnist Breiðavíkurver. Þar er að finna tugi fornleifa; byggingar og mannvirki sem tengjast útræði á staðnum, s.s. verbúðir, fiskgarðar, uppsátur, naust, lendingarmerki, spil, saltfiskverkunarhús, varir og fiskreitir. Alls ná minjarnar yfir svæði sem er um 6-700 m langt og allt að 70 m breitt. Haf og vindar hafa þó leikið verstöðina grátt í gegnum aldirnar og ljóst er að fjöldi verbúða og annarra mannvirkja er nú horfin. Breiðavíkurver er ein af fjölmörgum verstöðvum við strandlínu landsins sem eru í stórhættu vegna sjávarrofs og er því þekking um þetta helsta lífsviðurværi Íslendinga að hverfa í sjó fram.

Verstodvar-BW

18des_1671197175685

Í Jarðabókinni frá 1703 segir að á vorin hafi ábúendur í Breiðavík legið þar við þrjár verbúðir en aðtökuskip nýtt þá fjórðu, sem byggð var árið 1702. Lending skipa er þá sögð góð á staðnum. Síðar bættust við fleiri verbúðir og geymsluhús meðal annarra mannvirkja. Byggingarefnið sem notað var endurspeglar efnisnotkun hvers tíma; torf, grjót og steypu. Margar búðanna eru kenndar við nafngreinda menn og þótt þær séu ekki tímasettar nákvæmlega má ætla að meirihluti sýnilegra rústa á svæðinu sé frá lokum 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Minjarnar voru friðlýstar árið 1971 sem merkar sjávarútvegsminjar og njóta þar með hæstu verndar skv. lögum.

Í verstöðvum var ýmislegt brallað; verk unnin er tengdust sjómennsku og útgerð, s.s. gert að fiski, netum, bátum og seglum. Þar styttu menn sér þó einnig stundir við ýmis konar dægradvöl og hafa gripir því tengdir, t.a.m. taflmenn, fundist við fornleifarannsóknir á öðrum verstöðvum, t.d. Gufuskálum á Snæfellsnesi og Siglunesi við Siglufjörð.


Langabud-Large-

Árin 2012 og 2015 fóru fram fornleifarannsóknir í Breiðavíkurveri á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum en þær voru hluti af stærri þverfaglegri rannsókn, Cod Story. Markmið rannsóknarinnar er að tengja saman náttúrufars- og mannfræðilega þætti til að skilja betur náttúrulegar sveiflur og gagnkvæm áhrif manna og dýrastofna á norðurslóðum. Niðurstöður rannsóknanna sýna m.a. að mest var um útræði í verstöðinni á tímabilinu 1400-1700 en eftir það hnignar útgerð frá Breiðavík. Í upphafi útgerðar var aðaláhersla á þorskveiðar og þorskurinn fluttur út en aðrar tegundir voru þó veiddar, s.s. steinbítur, ýsa, lúða og karfi. Líklegast hafa þessar tegundir verið nýttar af vermönnum auk þess sem aflinn hefur verið seldur á bæi í nágrenninu. Þorskafli fór svo dvínandi undir lok miðalda og er það í samræmi við niðurstöður rannsókna á öðrum verstöðvum frá sama tíma. Steinbítsveiðar aukast þegar líður á búsetu á staðnum og í lok 19. aldar er steinbítsafli orðinn meiri en þorskafli.


2016-Breidavikurver-GSS-26-

Út frá rituðum heimildum að dæma er ljóst að verstöð var starfandi í Breiðavík við upphaf 18. aldar en fornleifarannsóknir á staðnum benda til að útræði hafi hafist þar töluvert fyrr, eða a.m.k. á miðöldum.

Myndband af Breiðavíkurveri

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

 

Heimildir

Birna Lárusdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir Beck. 2016. Fornleifaskráning á þremur jörðum í rauðasandshreppi. Hvallátrar, Breiðavík og Keflavík. FS624-13051. Fornleifastofnun Íslands ses., Reykjavík. Vefútgáfa: Fornleifaskráning á þremur jörðum í Rauðasandshreppi. Hvallátrar, Breiðavík og Keflavík. FS624-13051 (minjastofnun.is)

Guðmundur Ólafsson. 1995. Fornleifaskráning í Sauðasandshreppi. Vesturbyggð. V- Barðastrandarsýslu. 20. -26. ágúst 1994. Rannsóknarskýrslur fornleifadeildar 1994. Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík. Vefútgáfa: Fornleifaskráning í Rauðasandshreppi, Vesturbyggð. 20.-26. ágúst 1994 (minjastofnun.is)

Ragnar Edvardsson. 2013. Fornleifarannsókn í Breiðavík og Kollsvík í Vesturbyggð. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

Ragnar Edvardsson. 2016. Fornleifarannsókn í Breiðavík 2015. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.