19. desember - Hraunþúfuklaustur

í Vesturdal í Skagafirði

Gangnamannakofi-og-staersta-gamla-toftinLoftmynd tekin með flygildi í skráningarferð Minjastofnunar Íslands 2017. Tóftir gangnamannakofa lengst til vinstri en skálatóft til hægri.

Forn byggð í Vestur- og Austurdal í Skagafirði hefur lengi vakið áhuga leikra og lærðra. Þetta er eitthvert afskekktasta svæði Skagafjarðar, en dalirnir hafa að geyma syðstu byggð héraðsins og teygja sig langt inn á hálendið með fjölda smærri afdala. Þarna var byggð á allmörgum bæjum fram á 19. öld, en þeim fór fækkandi eftir því sem leið á þá tuttugustu. Í dag eru aðeins tveir bæir í byggð sem teljast til Austurdals en enginn bær lengur í byggð í Vesturdal. Í dölunum báðum er víða að finna tóftir og leifar eldri bæjarstæða, nöfn og staðsetning hluta þessara byggðaleifa hefur verið þekkt um aldir en þegar fyrst var fjallað um þessar byggðir á prenti í Jarðabókinni frá 1713 voru auk þess á reiki munnmæli um enn fleiri býli og þekkt nöfn bæja sem enginn vissi lengur hvar hefðu staðið. Óvissa um sögu þessarar byggðar og sagnir um nær ótrúlegan fjölda bæja hefur vakið forvitni og sveipað byggðina ákveðinni dulúð, en í Vesturdal eru þekkt 25 bæjarnöfn og í Austurdal eru bæjarnöfnin 30, sum þeirra virðast þó eiga við um sama staðinn.

19des_1671452807449

Hvað mestan áhuga hafa þó vakið minjarnar á Hraunþúfuklaustri í Vesturdal. Þetta er fremsta byggð í Skagafirði, í 430 m hæð yfir sjávarmáli og 80 km frá sjó, en um 20 km norður af Hofsjökli. Klausturnafnið hefur vakið upp margar spurningar um eðli þessara mannvistarleifa. Við það bætast sagnir um jarðfundna kirkjugripi, þjóðsaga um faldan fjársjóð og fleira sem kveikt getur á ímyndunarafli manna. Örnefnið Hólófernishöfði skammt frá rústunum hefur síst verið til að draga úr því. En Hólófernis var yfirherforingi Nebúkadnesar Assýríukonungs sem getið er um í Biblíunni og hefur tæpast verið á margra vörum.

Fræðimenn hafa út frá þessu sett fram ýmsar tilgátur um tilurð þessara örnefna, allt frá því að þarna hafi verið klaustur grísk-kaþólskra Basilíumunka eða að aðrir latínulærðir menn hafi gefið staðnum nafn út frá landslagi, yfir í öllu jarðbundnari hugmyndir um að glettnir gangnamenn hafi gefið staðnum klausturnafnið þegar þeir hafi legið þar í vosbúð og kvenmannsleysi.

IMG_2879-gangnamannkofi-og-adal-toftin-i-bakgrunni

Tóft gangnamannakofa sem reistur var 1912 og notaður fram undir 1960. Áður gistu gangnamenn í einum af þremur hellum sem finna má í klettunum ofan við minjasvæðið á Hraunþúfuklaustri. Í baksýn sjást starfsmenn Minjastofnunar við skráningu á skálatóft.

Í 3. bindi Byggðasögu Skagafjarðar er að finna eitthvert heildstæðasta yfirlitið yfir sagnir og vangaveltur manna um staðinn ásamt niðurstöðum rannsókna sem þar hafa verið gerðar. Fyrstur fræðimanna til að rannsaka staðinn var Daniel Bruun sem kom þangað laust fyrir aldamótin 1900 og gerði uppdrætti og lýsingar á staðnum en gróf þó ekki. Það gerði Sigurður Þórarinsson fyrstur árið 1970 og gróf þá könnunarholu í stærstu tóftina sem Bruun taldi geta verið af kirkju. Þremur árum síðar kom hann þangað aftur ásamt þjóðminjaverði og var sama tóft þá könnuð nánar. Í henni fannst þá gólfskán og eldstæði sem bendir til að um vistarverur manna af einhverju tagi sé að ræða en ekki kirkju og bentu gjóskulög til að byggingin hafi farið í eyði um eða fyrir 1104.

Teikning-Gudrunar-Sveinbjarnardottur

Guðrún Sveinbjarnardóttir mældi upp minjar á staðnum árið 1983 og gerði könnunarholur í nokkrar tóftir til viðbótar sem studdu fyrri niðurstöðu um endalok byggðar um eða fyrir 1104, en við bættist aldursgreining á kolum úr einni tóftanna sem gaf aldurinn 870 eða 900 +/- 100 ár. Á uppdrætti Guðrúnar sést áðurnefnd tóft nr. 1 og líkist helst skála af víkingaaldargerð.

Sumarið 1986 gróf Þór Magnússon þjóðminjavörður ásamt fleirum í megintóftina og fann m.a. brot úr klébergspotti, brýnisbrot og járndoppu með bronshúð. Taldi hann víst að um skála væri að ræða, þótt ekki væri unnt að fá glögga heildarmynd af húsinu.


Uppdráttur Guðrúnar Sveinbjarnardóttur af minjum á Hraunþúfuklaustri. Aðaltóftin sem mest hefur verið rannsökuð er nr. 1, en tóft nr. 9 er af gangnamannakofa sem byggður var 1912.

Minjarnar á Hraunþúfuklaustri voru friðlýstar ásamt fleiri fornum bæjarleifum í Vesturdal af Matthíasi Þórðarsyni árið 1926.

Út frá rannsóknum og skráningu á vettvangi þá bendir allt til að um sé að ræða bæjarstæði frá víkingaöld með tilheyrandi byggingum en ekki klaustur, líkt og heiti staðarins bendir til. Hugmyndir um að glettnir gangnamenn hafi nefnt staðinn Hraunþúfuklaustur þykja því líklegar.

Adal-toftinLoftmynd tekin með dróna í skráningarferð Minjastofnunar Íslands 2017 af skálatóftinni á Hraunþúfuklaustri. Starfsmenn MÍ við skráningu á jörðu niðri.


Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Byggðasaga Skagafjarðar 3. .indi. 2004. Hjalti Pálsson (ritstj.). Sögufélag Skagfirðinga: Sauðárkrókur.

Daniel Bruun. 1898. „Nokkurar eyðibygðir: í Árnessýslu, Skagafjarðardölum og Bárðardal“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, bls. 47-77.

Daniel Bruun. 1928. Fortidsminder og nutidshjem på Island. Gyldendal: Kaupmannahöfn.

„Fornleifar benda til dæmigerðs sögualdarbæjar“. Morgunblaðið. 31. júlí 1986.

Guðrún Sveinbjarnardóttir. 1992. Farm abandonment in medieval and post-medieval Iceland: an interdisciplinary study. Oxbow books: Oxford.

Kristján Eldjárn .1973. „Punktar um Hraunþúfuklaustur“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1973, bls. 107-133.

Margeir Jónsson. 1932. „Hraunþúfuklaustur“. Blanda IV, bls. 181.

Selma Jónsdóttir. 1973. „Hverjir byggðu Hraunþúfuklaustur?“. Morgunblaðið. 12. ágúst 1973.