2. desember - Útilegumannabælin í Eldvörpum

2des

Í Grindavíkurhrauni ofan við Húsatóftir fundust fyrir tilviljun árið 1872 rústir af mörgum smákofum, hlöðnum úr hraunhellum. Hafa minjar þessar verið bæði leikum og lærðum tilefni mikilla vangavelta í gegnum tíðina enda er tilurð þeirra og tilgangur nokkur leyndardómur. Minjarnar eru í lítilli kvos við jaðar Sundvörðuhrauns, sem er úfið apalhraun, en flestar rústirnar standa niðri á sléttara helluhrauni Eldvarpahraunanna. Illfært hefur verið að komast á þennan stað. Ef komið er að norðan frá Eldvörpum er yfir úfið apalhraunið að fara og er það illt yfirferðar en gönguleiðin víðast nokkuð skýr. Ef komið er að sunnan frá Húsatóftum er í fyrstu gengið eftir Árnastíg, sem er gömul þjóðleið sem liggur inn á Skipsstíg norðan Stapafells og þaðan áfram til Keflavíkur. Beygja þarf af Árnastíg inn á svokallaðan Brauðstíg og ganga tæplega 2 km leið til vesturs. Minjarnar liggja skammt norðaustan við Brauðstíginn en rústirnar eru lítt sýnilegar fyrr en komið að kvosinni. Op hennar vísar mót vestri og þar hefur verið gott skjól.


IMG_7027

Þorvaldur Thoroddsen landfræðingur lýsti minjunum í Ferðabók sinni, en hann kom á staðinn árið 1883. Tveimur áratugum síðar, sumarið 1902, var Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi á ferð um svæðið og birti um það og fleira grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1903. Brynjúlfur fann sjö tóftir en sú stærsta þeirra er innst í kvosinni, byggð inn í hraunviki og gæti hafa verið allt að 4 metrar að lengd að innanmáli og 1 ½ metri á breidd. Telur Brynjúlfur þessa tóft líklegasta til að hafa verið mannabústað – „Þar er skjól gott og fylgsni gott“. Aðrar tóftir eru smærri og sumar með vindaugu á göflum og veggjum. Gætu þær hafa verið geymsluhjallar t.d. fyrir þurrkað kjöt. Ólíklegt telur hann að menn hafi getað dvalið til lengdar á þessum stað. Ólafur Briem fjallaði svo ítarlega um þennan stað í riti sínu Útilegumenn og auðar tóftir, sem kom út 1959. Gerir hann grein fyrir tíu tóftum og eru tvær þeirra uppi á hraunbrúninni. Reft hefur verið yfir með hraunhellum sem nú eru fallnar inn í tóftirnar eða utan við þær. Ein tóftin hefur mjög einkennilegt lag, en það eru eiginlega þrjár tóftir sem snúa bökum saman og opnast hver í sína áttina. Í einni þeirra er ein þakhella óhögguð og eru það einu leifarnar af uppistandandi þaki í þessum rústum. Auk þess fann Ólafur grjóthlaðið aðhald sem líklega hefur verið notað fyrir sauðfé. Árið 1930 voru minjar þessar friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði. Við framkvæmdir árið 1982 fannst svo „útilegumannahellir“, skammt við borholu HS orku um 1 km norðan við minjastaðinn, og var hann rannsakaður af Guðmundi Ólafssyni fornleifafræðingi. Hellirinn hefur nánast verið ósýnilegur ókunnugum og taldi Guðmundur líklegast að um felustað væri að ræða sem hefur ekki verið í notkun um langt skeið og mætti hugsanlega tengja við minjarnar suður af í hraunkvosinni.


DJI_0245

Á síðari tímum hefur Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og fornleifafræðingur farið margar ferðir að minjastaðnum ásamt ferðafélögum úr ferðahópi rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík (FERLIR). Hafa fjölmargar greinar um efnið birst á heimasíðu þeirra ferlir.is. Í þeim ferðum hefur bæst í fjölda þeirra minja sem fundist hafa á svæðinu. Á sjálfu minjasvæðinu hefur fundist refagildra, en um 1 km í vestur í Eldvörpum hafa fundist tvær aðrar tóftir sambærilegar að gerð auk annars „útilegumannahellis“ þar sem finna mátti hleðslur og augljóst er að menn hafa hafst við. Líklegt má telja að fleiri minjar af þessu tagi leynist í hrauninu og er eðlilegt að horfa á þessa minjastaði sem eina heild. Friðlýstu minjarnar voru fyrst mældar upp af Agnesi Stefánsdóttur á vegum Fornleifaverndar ríkisins árið 2008 og eru gögnin aðgengileg í vefsjá Minjastofnunar ásamt skýrslu um rústirnar.

Margar tilgátur hafa komið fram um uppruna minjanna og hlutverk. Þorvaldur Thoroddsen, sem fyrstur gerði grein fyrir þeim, telur ólíklegt að þarna hafi verið mannabyggð að staðaldri heldur hafi menn byggt þetta sem skjól á ófriðartímum og nefnir ófrið Þjóðverja og Englendinga 1532 og svo Tyrkjaránin 1627. Vera má að Grindvíkingar hafi reist þessi skýli til nota ef í nauðir rak fyrir erlendum óaldalýð eða þá að þetta hafi verið fylgsni sakamanna og má nefna að þekktar eru sögur af stigamönnum og útilegumönnum á Baðvöllum skammt frá Grindavík. Brynjúlfur Jónsson bendir á að aðgangur að vatni hefur verið af skornum skammti og staðurinn því illa hentað til langdvala. Hann veltir upp þeirri hugmynd að einhverjir stálpaðir unglingar hafi gert sér að leik að hlaða upp kofa þessa en fellur svo frá þeirri tilgátu, enda myndu „flestir drengir kjósa annað til skemmtunar, en að leita leiksviðs í ófæru hrauni“. Ólafur Briem kemst ekki frekar en Þorvaldur og Brynjúlfur að ákveðinni niðurstöðu, en sýnist helst að staðurinn hafi verið valinn með það fyrir augum að vera felustaður og sennilegast hæli manna sem þurftu að fara huldu höfði og bendir á að vatnsból megi finna um 20 mínútna gang sunnar í hrauninu. Ef kofarnir hafa verið byggðir fyrir Grindvíkinga til að fela sig á hættutímum er ekki víst að þeir hafi nokkurn tímann verið teknir í notkun. Rústirnar eru alþaktar mosa og má ætla að þær séu margra alda gamlar. Síðast gaus í Eldvörpum árið 1228 og eru minjarnar því yngri en það.


DJI_0300

Ómar Smári Ármannsson setti fram hugmyndir um tilgang byrgjanna, en hann telur litlar líkur á að þarna hafi verið mannabústaður, einkum vegna smæðar bygginganna. Líklegra má telja að þarna hafi verið fiskigeymslur þar sem bændur gátu skotið undan fiski og sótt sér þegar vistir þraut. Bendir hann á að útvegsbændur áttu ekkert – en Skálholtsstóll allt. Það skyldi því ekki koma á óvart að menn hafi reynt að koma einhverju undan á hungurtímum. Hann bendir á að engin þörf hafi verið á að hlaða sér felustaði þar sem nóg er af rúmgóðum hellum þarna í hrauninu. Einnig má benda á mikinn fjölda refagildra á svæðinu, hugsanlega til að sporna gegn því að tófan kæmist í eitthvað í byrgjunum. Ómar Smári skráði fornleifar í Eldvörpum ásamt Ragnheiði Traustadóttur fornleifafræðingi og gáfu þau út skýrslu árið 2013. Þar eru minjarnar í hraunkvosinni nefndar „Tyrkjabyrgi“.

Hér hefur verið tæpt á helstu tilgátum sem komið hafa fram um uppruna og tilgang minjanna en ljóst er að minjar þessar þurfa frekari rannsóknar við og hugsanlega mætti fá betri hugmynd um hlutverk og aldur þeirra með rannsókn á gólfum. Við samantekt þessa hefur verið stuðst við ýmis rit og hefur verið vitnað til þeirra helstu hér að ofan.

Smelltu hér til að skoða þrívíddarmódel af svæðinu

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá