20. desember - Heydalir

Nóttin var sú ágæt ein,

í allri veröld ljósið skein,

það er nú heimsins þrautarmein

að þekkja' hann ei sem bæri.

Með vísnasöng ég vögguna þína hræri

Á sléttu suður undir Felli standa Heydalir, jörð sem talin er vera landnámsjörð og er í dag kirkjustaður og prestssetur Breiðdælinga. Heydalir eru líkast upprunalegt nafn staðarins en nafnmyndin Eydalir kemur einnig fram í frumbréfum á síðari hluta 16. aldar og verður síðan algengara. Í Landnámu og Njálu er nafn staðarins hins vegar Heydalir og í Landnámu segir: „Herjólfr, bróðir Brynjólfs, nam Heydalalönd fyrir neðan Tinnudalsá ok Ormsár.“ Í Njálu segir að Hallbjörn sterki hafi búið í Heydölum þegar fjallað var um för Flosa um Austfirði. Í dag er opinbert nafn staðarins Heydalir.

20des_1671541721087

Af heimildum að dæma hefur byggð risið snemma í Heydölum og er fyrsta prests staðarins, sr. Ásgríms Sigurðssonar, getið í heimildum frá 14. öld. Prestssetrið var lengi talið með betri brauðum á Íslandi og þar hafa setið margir vel metnir prestar. Einn þeirra var sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson (1538-1626) sem þekktur er fyrir jólasálminn „Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði“. Flest þekkjum við í dag sálminn sem „Nóttin var sú ágæt ein“ og laglínu Sigvalda Kaldalóns við kvæðið frá 1941.

Talið er að kirkja hafi staðið í Heydölum frá fyrstu tíð kristni í landinu. Elsti varðveitti máldagi kirkjunnar er frá 1367 og í honum segir að Heydalakirkja eigi, auk heimalands, „… milli Tinnu og Ormsár (nú Ormsstaðaá) Breiðdalseyjarnar út frá Ósi og Streitislandi, selför í Norðurárdal, skóg hjá Skriðuvatni í Skriðdal og víðar, Brekku (nú Brekkuborg) hálfa, Streiti, Vafrastaði, drjúgan skerf reka fyrir Breiðdalslöndum og auk þess tíundir, lýsitolla og bónhúsfé (bænhúsfé)“.


Heydalakirkja-Rudinger

Heydalakirkja. Ljósmynd: Rüdiger Þór Seidenfaden, 2012.

Kirkjan sem nú stendur í Heydölum var vígð árið 1975 og var þá gamla kirkjan aflögð. Hafði gamla kirkjan verið reist árið 1856 og samkvæmt fasteignamati 1916-1918 var hún fornt timburhús með turni, máluð að innan en járnklædd að utan á síðari árum. Hún brann síðan árið 1982. Nýja kirkjan stendur um 10-15 m norðan við eldri kirkjuna og hefur kirkjugarðsveggurinn verið færður til norðurs og austurs. Norðurhlið kirkjugarðsveggjarins er í dag þar sem gamla bæjarstæðið var. Á Íslandi er algengt að kirkjur og kirkjugarðar séu byggð á gömlum bæjarhólum.

Skjaskot-ur-skyrslu-sagnabrunns_1671544188240

Gamli Heydalabærinn, uppdráttur úr Breiðdælu, bls. 32-33. 1. Stétt, 2. Bæjardyr, 3. Stofa, 4. Frúarhús, 5, Dúnkofi, 6. Göng, 7. Þinghús, 8. Piltahús, 9. Eldhús, 10. Búr, 11. Skemma, 12. Eldhúsbali (glímuvöllur), 13. Smiðja, 14. Hesthús, 15. Hestarétt, 16. Traðir, 17. Vindmylla, 18. Túngarður, 19. Heygarður, 20. Fjós, 21. Kirkjugarður, 22. Kirkja.

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda árið 2015 við nýja byggingu, Einarsstofu við Heydalakirkju, fór Minjastofnun Íslands fram á fornleifarannsókn á staðnum.  Engar minjar voru þó greinilegar á yfirborði enda hefur gamla túnið í Heydölum verið sléttað. Ýmislegt kom þó í ljós þegar skyggnst var undir yfirborðið og m.a. fundust brunarústir, sennilega úr gömlu kirkjunni sem brann árið 1982. Einnig fundust torfveggir sem hafa tilheyrt gamla Heydalabænum og leifar af mögulegum kirkjugarðsvegg sem hlaðinn var eftir 1362. Það er því ljóst að þrátt fyrir túnasléttun og framkvæmdir í tengslum við byggingu á kirkjunni virðist heilmikið af minjum hafa varðveist undir sverði í Heydölum sem varpað geta ljósi á sögu staðarins. 

Loftmynd-1970-1970-B20-B-5625-qv

Loftmynd af Heydölum, 1970.


Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá


Heimildir

Anna Rut Guðmundsdóttir, Bryndís Zoëga og Guðný Zoëga. 2004. Fornleifaskráning vegna aðalskipulags Breiðdalshrepps. Þverhamar/Heydalir/Jórvík. Byggðasafn Skagfirðinga: Sauðárkrókur.

„Heydalir (Eydalir)“. Visit Austurland: https://www.east.is/is/stadur/heydalir-eydalir

Einar Sigurbjörnsson. 2011. „Nóttin var sú ágæt ein“. Kirkjan: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/grein/?itemid=18b2ddc3-2a11-ea11-810a-005056bc594d

Lilja Björk Pálsdóttir. 2015. Heydalakirkja. Könnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Fornleifastofnun Íslands ses.: Reykjavík.

Rannveig Þórhallsdóttir. 2022. Fornleifaskráning á há- og lágspennustrengjum í Breiðdal, Fjarðabyggð. Sagnabrunnur: Seyðisfjörður.

Túnakort 1919