21. desember - Skálar og Camp Greely

Horft-nidur-ad-hafnarsvaedinu-a-Skalum-thegar-keyrt-er-adÁ Langanesi er að finna minjar útgerðarþorps sem blómstraði þar á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar. Þorpið heitir Skálar og bjuggu þar um 120 manns þegar mest var árið 1920, en þorpið var löggilt sem verslunarstaður árið 1912. Jarðarinnar Skála er fyrst getið í rekaskrá Skálholtsstaðar frá um 1270. Á Skálum var svo reist annað frystihús landsins árið 1923 og má þar enn finna ummerki þess, meðal annars spor eftir sporvagn sem var notaður til þess að færa fisk frá bryggju upp að frystihúsi. Lítið var um innviði á Skálum aðra en fiskvinnslu og var þar hvorki læknir né prestur. Þorpið fór svo í eyði um miðja 20. öld.

21des_1671621952261

Íslendingar voru hins vegar ekki þeir einu sem höfðu viðveru á þessum stað. Rétt norðanaustan við gamla þorpið er að finna braggahverfi frá seinni heimsstyrjöldinni. Bandarískt herlið settist að umhverfis ratsjárstöð sem reist var á Langanesi árið 1942. Hverfið fékk heitið Camp Greely og var staðsetning þess engin tilviljun, en frá Langanesi var einstaklega gott að fylgjast með hreyfingum óvina út af Norðausturlandi. Uppbyggingu á Camp Greely fylgdu töluverðar breytingar fyrir heimamenn á svæðinu, herliðið bætti samgöngu innviði og byggði m.a. bíó sem íbúar fengu einnig afnot af. Samskipti milli herliðsins og heimamanna voru almennt talin góð.

Árið 2018 hlaut Fornleifastofnun Íslands ses. styrk úr fornminjasjóði til að vinna að verkefninu Hernámið frá sjónarhóli fornleifafræðinnar og var Camp Greely skráð sem hluti af því verkefni sama ár. Þar voru skráðar í heildina 67 minjar af ýmsu tagi, t.d. grunnar íbúðarbragga, brennsluofn, skotgrafir, byssuhreiður og vegir svo eitthvað sé nefnt. Ástand minjanna í Camp Greely var almennt talið frekar gott, þótt eitthvað sé um uppblástur á svæðinu. Þó svo að Camp Greely hafi verið rannsóknarefnið í þessu verkefni hefur jörðin Skálar ekki verið skráð með nútíma tækni en starfsmenn Minjastofnunar Íslands heimsóttu Skála ásamt fulltrúa landeigenda árið 2018 m.a. til að skoða umfang minja á svæðinu.


NTh128_113_FSI

Braggagrunnur með járntanki sem var notaður fyrir vatn. Hér var líklega samkomustaður hermanna í Camp Greely. Ljósmynd: Fornleifastofnun Íslands ses.

„Braggaþyrpingin (NÞ-128:113) virðist hafa samanstaðið af þremur bröggum fremur en fjórum. Heillegastur var langur (um 26 m) braggagrunnur allra austast sem er með umfangsmiklum steyptum stólpum eftir báðum veggjum og hefur þar án efa verið timburgólf. Austan hans var svo steypt gólfplata og á henni stór járntankur sem notaður var fyrir vatn að sögn Guðbjargar Guðmundsdóttur heimildamanns.“[1]

Seinni heimsstyrjöldinni fylgdi ekki aðeins uppbygging á Skálum heldur hafði hún einnig áhrif á endalok byggðarinnar. Varnir bandamanna við árásum frá sjó gerðu það að verkum að svæðið kringum Skálar varð enn hættulegra en áður, en lending hafði þar lengi verið talin erfið. Herliðið yfirgaf Camp Greely undir lok stríðs. Nokkru áður, sumarið 1942, höfðu fjórar fjölskyldur flust burt eftir að tvö tundurdufl sprungu í fjörunni fyrir neðan byggðina og löskuðu þar bæði hús og önnur mannvirki. Sumarið 1946 hélt svo restin af fólkinu á brott, alls um 25 manns. Þá stóðu aðeins eftir þau Lúðvík og Jóhanna Hansen sem voru síðustu ábúendur á Skálum. Þau héldu út búskap þar til vorsins 1955. Eftir að Hansen hjónin sögðu skilið við Skála lagðist byggðin endanlega í eyði og hefur ekki verið búseta þar síðan.


Tekid-ofan-af-baejarhol-Gomlu-Skala

Horft af bæjarhól gömlu Skála.

Herminjar teljast ekki til fornleifa samkvæmt skilgreiningu laganna og hafa því gjarnan orðið útundan þegar kemur að skráningu og rannsóknum á minjastöðum. Herminjar eru þó mjög mikilvægur minjaflokkur því þær eru vitnisburður um afdrifaríkt tímabil í sögu Íslands og heimsins alls. Því ákvað Minjastofnun Íslands að styrkja sérstaklega skráningu herminja, árið 2018, með úthlutun úr fornminjasjóði. Sama ár var einnig úthlutað úr Húsafriðunarsjóði fyrir verkefninu: Könnun og skráning herminja í nágrenni Keflavíkurflugvallar.


Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá


Heimildir

Skálar, Langanesbyggð (https://www.langanesbyggd.is/upplysingar/skalar-1)

Skálar á Langanesi, upplýsingabæklingur. Merkar minjar horfinna tíma / Curious remains of times past. Langanesbyggð

Elín Ósk Hreiðarsdóttir (Ritstj.) 2019. Fornleifaskráning í Camp Greely, Skálum á Langanesi. FS729-18071. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands ses. 



[1] Elín Ósk Hreiðarsdóttir (Ritstj.). 2019, bls. 144.