22. desember - Búðarnes

Arni-BodvarssonLituð ljósmynd, tekin um miðja 20. öldina. Ljósmyndari: Árni Böðvarsson. Mynd í einkaeigu.

Vestast í Stykkishólmsbæ er nes eitt sem áður var raun eyja, einungis landföst með rifi sem féll yfir á flæðinni. Seinna var fyllt upp í rifið og nærliggjandi fjöru og varð Búðarnes þannig landfast. Á Nesinu er að finna einu friðlýstu fornleifarnar í landi Stykkishólms: meintar búðarleifar tengdar verslunarstaðnum í Nesvogi. Minjarnar voru friðlýstar árið 1928 af Matthíasi Þórðarsyni. Byggði Matthías friðlýsinguna á lýsingu í grein eftir Þorleif Jóhannesson í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1925-26. 

22des_1671702572450Í greininni fjallaði Þorleifur um stóra tóft í Búðarnesi, 16x5,7 m að stærð, með afar þykkjum veggjum og útbyggingu. Segist Þorleifur hafa grafið í tóftina og komið niður á harða gólfskán á u.þ.b. 40 cm dýpi. Hafi hann fundið þar m.a. leirkerjabrot og glerbrot. Dregur hann af rannsókninni þá ályktun að um verslunarbúð sé að ræða og friðlýsir Matthías tóftina á þeim grundvelli.
Budarnes-fornleifateikning-GO-AOG

Teikning úr fornleifaskráningu frá 1985. Ágúst Ólafur Georgsson og Guðmundur Ólafsson.

Búðarnes er í landi Grunnasundsness. Örnefnið Búðarnes á bæði við nes við Nesvog, en einnig hjáleigu frá Grunnasundsnesi. Ekki eru til lýsingar á hjáleigunni og húsakosti hennar, en hún virðist fara í og úr ábúð í gegnum aldirnar og er t.a.m. í eyði við ritun Jarðabókarinnar við upphaf 18. aldar. Síðast er getið um ábúendur í Búðarnesi í manntalinu 1890. Hjáleigan hefur verið mjög landlítil og a.m.k. í lokin eingöngu þurrabúð. Sjáanlegar rústir á nesinu Búðarnesi í dag eru ekki margar, en gera má ráð fyrir að meiri minjar leynist undir sverði en þær sem sjást á yfirborði. Mikill, hlaðinn kartöflugarður setur mark sitt á svæðið en auk hans sjást greinilega stóra búðartóftin og minni rúst við Búðarnesvíkina, líklega naust. Kunnugir menn segja að kartöflugarðurinn afmarki nokkurn veginn gamla bæjarstæðið. Ræktaðar voru kartöflur í garðinum fram til 1960.

Horft-til-nordurs-naust-naest-a-myndinni-budartoft-fyrir-midju-og-kartoflugardur-efstur_1671703240652

Minjasvæðið í Búðarnesi; kartöflugarðurinn efstur,  búðartóftin fyrir miðju og naust neðst á mynd. Horft til norðurs.

En Búðarnes er, eins og áður sagði, ekki síður þekkt sem líkleg staðsetning verslunarstaðarins við Nesvog á öldum áður. Í Búðarnesi er aðdjúpt og sæmileg lending fyrir haffær skip. Á miðöldum voru í Helgafellssveit tvær kauphafnir: Nesvogur á Þórsnesi og Kumbaravogur við Bjarnarhöfn. Þar sem klaustur var á Helgafelli má gera ráð fyrir talsverðum umsvifum í þessum kauphöfnum. Ekki er vitað hvenær verslun við Nesvog hófst. Árið 1596 var stofnað til nýrrar verslunarhafnar í Stykkishólmi í kjölfar deilna verslunarvelda Aldinborgara og Brimara. Hafði skipherra Aldinborgara í Nesvogi 1593 látist og nýttu Brimarmenn þá tækifærið, sölsuðu undir sig Nesvog og brenndu allar búðir Aldinborgargreifans sem fyrir voru. Liðu svo tvö ár og reyndu Aldinborgarmenn að fá yfirráð yfir Nesvogi enn á ný. Lét þá konungur Aldinborgurum Nesvog aftur í té, enda buðu þeir hærri leigu fyrir höfnina. Tóku þá Brimarar til sinna ráða og fengu konung til að selja sér leyfi á höfn er nefndist Stykkishólmur – fékkst það og varð Stykkishólmur því verslunarhöfn með einskonar klækjabragði Brimara. Reyndist Stykkishólmur svo, er upp var staðið, betri verslunarhöfn en Nesvogur og færðist verslunin hratt og örugglega úr Nesvogi til Stykkishólms og virðist öll verslun vera hætt í Nesvogi árið 1600.

Horft-til-sudurs-yfir-Budarnes-kartoflugardur-til-vinstri-budartoft-fyrir-midju-og-naust-til-haegri.-Horft-yfir-ad-Hjallatanga

Horft til suðurs yfir Búðarnes, kartöflugarður til vinstri, búðartóft fyrir miðju og naust til hægri. Horft yfir að Hjallatanga.

Gömul saga, sem höfð er hér eftir Jóhanni Rafnssyni, segir að í Leyni, sem er vík rétt austan við Búðarnes og Skipavík, hafi verið verslunarstaður huldufólksins á svæðinu. Sagt er að karl einn í Hólminum hafi ætíð getað sagt fyrir um komu vorskipsins viku fyrir komudag. Þegar á hann var gengið sagðist hann fylgjast vel með athöfnum huldufólksins og að vorskip þeirra kæmi í Leyni viku fyrr en skip kaupmannsins. Hefur þeirri kenningu verið varpað fram að huldufólkssagan geymi minni um elstu staðsetningu kaupstaðarins og að hann hafi verið á svæðinu sem afmarkast af Leyni og Skipavík en síðan flust í Búðarnes þegar skipin stækkuðu.

Saga Búðarness og nærumhverfis þess er að sumu leyti óskrifað blað. Undirlendið á Búðarnesi er sáralítið og þótt gert sé ráð fyrir að eitthvað hafi brotnað af því, t.a.m. við Búðarnesvíkina, þá verður að segjast að erfitt er að ímynda sér búskap á staðnum – hvað þá umsvifamikla verslun. Gera verður ráð fyrir að mannvirki og umsvif verslunarstaðarins hafi dreifst úr Búðarnesinu og yfir á nærliggjandi svæði, t.a.m. þar sem nú stendur skipasmíðastöðin Skipavík, mögulega út að Leyni, út á það svæði sem síðar fór undir hjáleiguna Viðvík, og jafnvel yfir á Hjallatanga. Þótt svæðið sé nú að hluta til mikið raskað vegna seinni tíma framkvæmda má gera ráð fyrir að hægt væri að auka skilning á búsetu á svæðinu og verslun við Nesvog með fornleifarannsóknum.


Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá


Heimildir

Ágúst Ólafur Georgsson. 1987 (endurútg. 2005). Fornleifaskráning í Stykkishólmi. Rannsóknaskýrslur Fornleifadeildar 1985. Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík.

Ágúst Ólafur Georgsson. 1990. Skrá um friðlýstar fornleifar. Fornleifanefnd: Reykjavík.

Árni Magnússon og Páll Vídalín. 1982. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. 5. bindi: Hnappadals- og Snæfellssýsla. Hið íslenska fræðafjelag: Kaupmannahöfn.

Ásgeir Ásgeirsson og Ólafur Ásgeirsson. 1992. Saga Stykkishólms 1. bindi: Kauphöfn og verslunarstaður 1596-1845. Stykkishólmsbær: Stykkishólmur.

Manntal 1890. Manntalsvefurinn: Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands

Sigurður Ágústsson. 1962. „Upphaf verzlunar í Stykkishólmi“. Breiðfirðingur 20.-21. ár. 1961-1962, bls. 32-45.

Þorleifur Jóhannesson. 1926. „Um nokkur eyðibýli og sögustaði í Helgafellssveit“. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1925-26, bls. 43-48. Hið íslenzka fornleifafélag: Reykjavík.

Ægir Breiðfjörð Jóhannsson. 2021. „Huldufólkskaupstaðurinn í Stykkishólmi“. Pistill á Facebook-síðunni Hitt og þetta úr Hólminum.