24. desember - Minjavísir

... vísar þér á minjar

 

Minjavisir

Minjavísir er ný landfræðileg gagnaþekja í minjavefsjá Minjastofnunar Íslands. Þekjan byggir á örnefnagrunni Landmælinga Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar þar sem unnið hefur verið að skráningu örnefna í stafrænan gagnagrunn frá því um 1990. Í þessum grunni er að finna öll þau örnefni sem skráð hafa verið á Íslandi, hvort sem það eru örnefni af gömlum kortum, líkt og Atlas (Herforingjaráðskortin), eða örnefni skráð af staðkunnugum á útprentuð kort eða í gegnum veftól Landmælinga. Einnig er þar búið að hnitsetja þau örnefni sem mögulegt er að staðsetja og skráð eru í örnefnalýsingar jarða hjá Árnastofnun. Við gerð Minjavísis notuðu starfsmenn Minjastofnunar formúlu sem keyrð var á örnefnagögnin og leitaði að ákveðnum stikkorðum sem gætu gefið vísbendingu um minjastaði/fornleifar t.d. aftökustað, traðir, hlóða, búð, áletrun, skrímsl og dæld. Þegar niðurstöður lágu fyrir var farið kerfisbundið yfir allan listann sem innihélt tugþúsundir hugsanlegra minja-örnefna og gengið úr skugga um hvort raunverulegar vísbendingar um minjastaði eða fornleifar væri að ræða.

Stikkordin

Í Minjavísi eru nú 39.405 örnefni sem þykja vera vísbending um minjastað/fornleifar. Ætla má að eitthvað eigi eftir að bætast við því örnefnagrunnur Landmælinga Íslands er í stöðugri vinnslu og mun Minjavísir einnig fylgja þeim uppfærslum eftir.

24des_1671802667246

Í örnefnagrunninum eru skráð nokkur örnefni sem tengjast jólunum og er þar t.a.m. ein varða sem ber nafnið Jólavarða . Er þetta nafn tilkomið vegna þess að varðan er sögð hlaðin um jól. Örnefnið telst því vera vísbending um minjastað og er þar með hluti af Minjavísi. 

Mikilvægasta tólið sem við höfum til að kortleggja þekktar minjar á landsvísu er fornleifaskráning. Fornleifaskráningarverkefnum fer sífellt fjölgandi en heildarskráningu landsins er langt frá því að vera lokið. Frá upphafi hefur fornleifaskráning verið þríþætt og byggir hún af eftirfarandi skrefum; heimildavinnu, skráningu á vettvangi og úrvinnslu og miðlun niðurstaðna. Frá 2015 hafa allar fornleifar verið skráðar samkvæmt stöðlum Minjastofnunar Íslands og skráningum er nú miðlað bæði á minjavefsjá og með birtingu skráningarskýrslna á vef stofnunarinnar. Minjavísir þekjan var hugsuð sem leið til að fá grófa yfirsýn yfir mögulega minjastaði í landinu sem hafa ekki verið skráðir með þessum hætti. Það ætti einnig að einfalda þá heimildavinnu sem þarf að sinna fyrir fornleifaskráningu og auðvelda fagaðilum að taka ákvarðanir um hvaða svæði þurfi að skoða sérstaklega á vettvangi. Þó ber að taka það fram að Minjavísir mun aldrei koma í stað vettvangsskráningar fornleifa

Síðast en ekki síst er þetta tól fyrir alla þá er hafa gagn og gaman af örnefnum, og vilja grúska í gömlum gögnum og nýjum til þess að fræðast um minjar í landinu.

 

Minjastofnun Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla!

Smelltu hér til að skoða Minjavísir þekjuna í minjavefsjá

Lýsigögn Minjavísis

Hatidarkvedja-2022